Var aðförin að Ásthildi Lóu skipulögð?

Sigríður Á. Andersen þingmaður Miðflokksins þýfgaði Kristrúnu forsætis afsögn Ásthildar Lóu barnamálaráðherra. Fátt var um svör. Vörn Kristrúnar er að Ásthildur Lóa hafi sagt af sér ótilneydd. Að auki segist forsætisráðherra móðgaður að Sigríður skyldi voga sér að spyrja.

Margt er á huldu um aðdraganda afsagnar barnamálaráðherra. Meint tilefni afsagnarinnar, 35 ára gamalt ástarmál, virðist samtímis reka á fjörur forsætisráðuneytisins og fréttastofu RÚV. Kristrún og starfslið hennar í ráðuneytinu láku til Ásthildar Lóu nafni uppljóstrarans, Ólafar Björnsdóttur. Óljóst er hvenær og hvaðan RÚV fékk upplýsingarnar um ástarmálið. Hitt liggur fyrir að sótt var að Ásthildi Lóu með tangarsókn forsætisráðuneytis og RÚV.

Kristrún var meðvituð að lekinn úr ráðuneytinu var stórhættulegur. Skrifstofa hennar sendi út ,,leiðréttingu" á fréttum af lekanum þann 20. mars, sama dag og afsögnin var tilkynnt. Þar er látið líta svo út að afar takmörkuð samskipti hafi átt sér stað. Ein setning í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins getur ekki verið annað en ósönn: ,,Önnur samskipti áttu sér ekki stað um málið." Ekki er nokkur einasti vafi er á verulegum samskiptum ráðgjafa Kristrúnar við RÚV um leið og spurðist að ríkisfjölmiðillinn væri með puttana í málinu. Það var nokkrum dögum fyrir afsögn barnamálaráðherra. 

Í heila viku, 13. mars til 20. mars, vissi forsætisráðuneytið um málavöxtu. Símar ráðgjafa Kristrúnar hafa verið rauðglóandi til að skipuleggja framvindu málsins með það í huga að verja pólitíska stöðu forsætisráðherra.

Náinn samgangur er á milli starfsfólks Kristrúnar og fréttastofu RÚV. Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar og Helgi Seljan, sem aftur er kominn á RÚV, eru trúnaðarvinir. Trúnaðurinn er hertur í eldri siðleysisfrétta, Namibíumálinu og byrlunar- og símamálinu.

Ásthildur Lóa vissi, áður en hún sagði af sér, að RÚV væri með fréttina í bígerð. Líklega vissi hún ekki að erlendir fjölmiðlar höfðu fengið ábendingar um hvað væri í uppsiglingu. RÚV var í mun að ganga þannig frá mannorði Ásthildar Lóu að hún ætti ekki uppreist æru. RÚV-lygin um að barnsfaðir ráðherra hafi verið ósjálfráða, 15 ára, var ekki tilviljun. Hverjir eru líklegir til að undirstinga erlenda fjölmiðla um að í aðsigi sé hneyksli á æðstu stöðum á Íslandi?

Það má gefa sér, þrátt fyrir andmæli Kristrúnar, að Ásthildur Lóa hafi verið knúin til afsagnar. Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga Sæland funduðu með Ásthildi Lóu í rúmlega þrjár klukkustundir frá klukkan tvö þann 20. mars. Niðurstaðan var að barnamálaráðherra myndi segja af sér ráðherradómi. Á meðan fundur oddvita ríkisstjórnarinnar stóð unnu aðstoðarmenn þeirra baki brotnu að hanna fréttafrásögn sem ylli ríkisstjórninni sem minnstum skaða. Hönnunin fór ekki fram í tómarúmi inn í stjórnarráðinu. Samskipti voru á milli aðstoðarmanna oddvitanna og fjölmiðla.

Hvers vegna varð Ásthildur Lóa að segja af sér?

Eitt svar er að Kristrún hafi talið að mistökin á hennar skrifstofu, að gefa Ásthildi Lóu upp nafn uppljóstrarans, gæti orði forsætisráðherra dýrkeypt og sett stjórnarsamstarfið í uppnám. Sem stendur er þetta líklegasta ástæðan, Ásthildi Lóu var fórnað fyrir Kristrúnu.

En það gætu verið aðrar ástæður, sem ekki eru komnar fram.

Ásthildur Lóa er enn heit kartafla í stjórnarráðinu. Ef fyrrum barnamálaráðherra stígur fram og staðfestir að hún hafi verið beitt þrýstingi og knúin til afsagnar er Kristrún forsætis uppvís að ósannindum á alþingi. Það er alvarlegt mál.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Eins samansúrruð og Samfylkingin er við RÚV er erfitt að sjá að aðförin hafi ekki verið skipulögð. Verra er að Inga hafi ekki staðið með þingmanni sínum sem halaði svo drjúgt fyrir flokkinn. Fær mann til að trúa að hún sé bara í pólitíkinni fyrir sjálfa sig.

Ragnhildur Kolka, 2.4.2025 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband