Baldur, ESB-sinnar og innanlandsófriður

Ísland verður ekki ESB-ríki í fyrirsjáanlegri framtíð. Baldur Þórhallsson segir það ekki berum orðum en það er óhjákvæmileg ályktun af orðum hans að Ísland sé ekki á leiðinni í félagsskap meginlandsríkja, ESB-Evrópu. Játningin er tímabær og nú þurfa ESB-sinnar að slá af boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Baldur er sannfærður ESB-sinni. Hann var varaþingmaður Samfylkingar í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. og talaði ákaft fyrir misheppnaðri ESB-umsókn, sem dó drottni sínum í ársbyrjun 2013.

ESB-umsókn Samfylkingar, samþykkt á alþingi á afmælisdegi Tyrkjaránsins 16. júlí 2009, er best skilin í ljósi óopinbers slagorðs krata á þessum tíma um ónýta Ísland. Farga átti öllu íslensku s.s. stjórnarskrá, fullveldi og gjaldmiðli. Býrókratar í Brussel áttu að sjá um stjórn landsins. Og, auðvitað, úthluta Baldri og sérfræðingastóðinu þægilega innivinnu á góðum launum. Ísland yrði verstöð er sendi bænaskjöl til Brussel líkt og til Kaupinhavn á öldum áður.

Valkyrjustjórnin setti á dagskrá að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um að endurtaka mistökin frá 2009. Sumir læra aldrei. Baldur skrifar að það

kæmi ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld beittu sér gegn því að Íslandi tæki aftur upp aðildarviðræðurnar við ESB.

Áður en Bandaríkin segja eitt eða annað um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi í lok kjörtímabils valkyrjanna verða til þau sjónarmið hér á landi að heppilegra sé að Ísland fari undir Bandaríkin en ESB-Evrópu. Afleiðingin yrði innanlandsófriður milli Bandaríkjavina annars vegar og hins vegar ESB-sinna. Sundruð smáþjóð sem verður bitbein stórveldahagsmuna er dæmd til glötunar.

Fyrsta setningin í fyrsta punkti Baldurs, að Bandaríkin undir Trump reki útþenslustefnu, er röng. Bandaríkin vilja losna undan hernaðarlegum og pólitískum skyldum sínum í Úkraínu. Það er ekki útþenslustefna. Ótti ESB-Evrópu er að Bandaríkin i framhaldi segi sig laus undan hernaðarlegri og pólitískri ábyrgð á Vestur-Evrópu sem hefur verið í gildi allt frá lokum seinna stríðs. Trump er nær því að vera einangrunarsinni en haldinn útþensluáráttu.

Áhugi Trump á Grænlandi stafar af nálægðinni við fastaland Ameríku. Af öllum sólarmerkjum að dæma verður bandarískt þjóðaröryggi á Norður-Atlantshafi skilgreint sem svæðið vestan GIUK-línunnar, það er Grænland-Ísland-Bretlandseyjar. Bandaríkin munu ekki líða að önnur stórveldi, s.s. Rússland, Kína og e.t.v. ESB-Evrópa, komi sér upp hernaðarlegri eða efnahagslegri stöðu á þessu svæði. En það þýðir ekki að Bandaríkin ætli sér að eignast Ísland eða Bretland. Um Grænland gildir annað. Landið er á dönsku forræði. Danir eignuðust Grænland vegna þeirrar sögulegu tilviljunar að norska stórveldið, sem réð fyrir Grænlandi, Íslandi og Færeyjum, leið undir lok á miðöldum. Sögulegar tilviljanir eiga það til að vera leiðréttar.   

Farsælast fyrir land og þjóð er að íslensk stjórnvöld gefi hvorki Bandaríkjunum né ESB-Evrópu fangstað á Íslandi. ESB-sinnar hljóta að sjá að við núverandi aðstæður í alþjóðamálum er glæpræði að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu. Samstaða þjóðarinnar er forsenda fyrir að við höldum sjálfsforræðinu. Þeir sem tala fyrir ESB-aðild kynda undir innanlandsófriði.


mbl.is Baldur: Bandaríkin vilja ráða yfir Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég er sammála að mörk öryggishagsmuna BNA liggja um GIUK hliðið. En hvort Baldur hafi verið að dempa umræðuna eða kynda undir henni er ég ekki eins viss. Striðshróp Viðreisnar og Samfylkingar eru slík. Kannski eru þau bara deyjandi draumur rétt eins og vopnaskak ESB, sem er bara stórveldadraumar að breytast í "irrelevans."

Ragnhildur Kolka, 30.3.2025 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband