Föstudagur, 28. mars 2025
RÚV er myrkraafl sem meiðir fólk í nafni lýðræðis
RÚV er ljósið í myrkrinu, segir Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri ríkisfjölmiðilsins. Öðru nær, RÚV starfar í myrkrinu og meiðir fólk, lifandi og látið. Ómenningin sem þrífst á Efstaleiti er rótgróin. Þrjú dæmi.
Yngsta dæmið er af Ásthildi Lóu fráfarandi barnamálaráðherra. Heiðar Örn skrifar:
Ásthildur Lóa og barnsfaðir hennar hafa ekki verið fullkomlega á einu máli um nokkur atriði eins og nákvæman aldur hans þegar samband þeirra hófst, stöðu hennar innan trúfélagsins þar sem þau kynntust, eða samskipti þeirra varðandi umgengni við son þeirra. Slíkur ágreiningur er algengur í fréttum, einkum af persónulegum málum. (feitletr. pv)
Þarna viðurkennir Heiðar Örn að fréttin um Ásthildi Lóu var ekki tilbúin þegar hún fór í loftið á RÚV. Óljóst var um aldur þegar áratuga gamalt ástarsamband hófst, ekki var vitað hvort jafnræði var milli aðila og áhöld um hvort móðir eða faðir báru sök í deilu um umgengnisrétt. Fréttin var ekki tilbúin og ótímabært að senda hana út. Hálfur fjórði áratugur er frá málsatvikum.
Annað og áhugaverðara fréttasjónarhorn í máli Ásthildar Lóu er lekinn úr forsætisráðuneytinu. RÚV fjallar lítt um lekann sem hratt af stað atburðarás er leiddi til afsagnar barnamálaráðherra. Sérstakur trúnaðarmaður RÚV er Þórður Snær Júlíusson framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar, sem einu sinni kallaði sig þýska stálið og er þekktur fyrir undirferli. Meiri líkur en minni eru að þýska stálið hafi vélað með fréttina á RÚV til að Ásthildur Lóa sæti ein uppi með skömmina.
Feitletraða setningin í tilvitnuninni hér að ofan er mikilvæg. Hver ákveður hvað skuli birtast á RÚV? Jú, fréttastjórinn. Heiðar Örn ætti manna best að vita að persónuleg mál eru að jafnaði ekki gerð að fréttaefni. Heiðar Örn ætlaði að gera skriftu að fréttamanni norðan heiða. Útvarpsstjóri greip inn í og ekkert varð úr ráðningunni. Engar fréttir voru sagðar af viðhaldsverkefninu. Mál fréttastjóra RÚV og skriftunnar er ekki 35 ára gamalt heldur tveggja ára. Samkvæmt Heiðari Erni ríkir ,,myrkur" ef ekki er fjallað um þá sem ,,sem fara með völd í krafti embætta sinna." Heiðar Örn fer með völd í krafti fréttastjórnar á RÚV. Fréttin um misnotkun hans á valdastöðu var aldrei sögð. Skriftu-beinagrindin er myrkraherberginu.
Alltaf er eftirspurn eftir fréttum af ,,persónulegum málum". En á RÚV verða aðeins sumir fyrir persónuárásum. Aðrir njóta friðhelgi, þ.m.t. fréttastjórinn sjálfur, og sú friðhelgi nær til annarra fjölmiðla. Þegar kemur að því að hylma yfir ómenninguna á RÚV eru blaðamenn stéttvísir enda um að ræða núverandi, fyrrverandi eða verðandi samstarfsfélaga.
Annað dæmi. Dánarfregn Benedikts heitins Sveinssonar síðast liðið haust notaði RÚV til að vanvirða látinn mann. Tilfallandi bloggaði:
RÚV valdi sértækt samhengi til að varpa rýrð á nýlátinn mann. Samhengið valdi RÚV til að réttlæta fyrri atlögu að Benedikt heitum Sveinssyni. Staðreyndirnar sem fréttastofan teflir fram eru handvaldar til að ófrægja og meiða. Vinnubrögð ríkisfjölmiðilsins eru til háborinnar skammar.
RÚV var krafið um að biðjast afsökunar á framferðinu. En nei, RÚV baðst ekki afsökunar. Heiðar Örn skrifaði staðlað svarbréf til þeirra fjölmörgu sem gagnrýndu dánarfregnina og sagði efnislega að RÚV væri yfir það hafið að biðjast afsökunar.
Þriðja dæmið er byrlunar- og símamálið. Sími Páls skipstjóra Steingrímssonar var afritaður á Efstaleiti. RÚV birti enga frétt. Samsærið gekk út á að Stundin og Kjarninn leppuðu fréttina. Hvergi tíðkast i vestrænni blaðmennsku að einn fjölmiðill afli með ólögmætum hætti gagna og framsendi fréttina á aðra fjölmiðla til birtingar. Hér er ekki á ferðinni fjölmiðlum heldur myrkraverk. Heiðar Örn fréttastjóri og Stefán útvarpsstjóri neita að tjá sig um málið. Þeir vilja ekki fréttir sem upplýsa myrkraverkin á Efstaleiti.
RÚV telur sig vera ríki í ríkinu. Tökin sem ríkisfjölmiðillinn hefur á opinberri umræðu eru slík að stjórnmálamenn þora hvorki að æmta né skræmta. Hrokinn sem Heiðar Örn fréttastjóri sýnir i viðtengdri frétt, að RÚV sé sjálft lýðræðið í landinu, talar sínu máli. Fréttamisþyrmingar á fólki eru í andstöðu við grunngildi lýðræðisins en mjög í takt við múgræði. Æðstuprestarnir í rúv-múgræðinu eru Heiðar Örn fréttastjóri og Stefán útvarpsstjóri.
![]() |
Blaðamenn verjast árásum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki er ljósið að finna í dagskránni á rúv:
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/lavardar-oreidunnar/33867/a2vcdh
https://www.ruv.is/sjonvarp
Dominus Sanctus., 28.3.2025 kl. 07:51
Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem Doddi skúbbar. Hann hefur verið iðinn við kolann síðan ónefndur óviti ýtti á tölvutakka pabba síns. Hvorki Helgi Selja né Heiðar Örn hafa útskýrt hvers vegna lá svona mikið á að segja 35 ára frétt að ekki var hægt að hinkra eftir hinni hliðinni.
En óvitinn kemur víða við sögu. þessa dagana er þjóðaröryggisráðgjafi Trump að útskýra tilkomu blaðamanns á símafundi um trúnaðarmál með að númer blaðamannsins hafi bara sogast einhvern veginn inn í símann hans. Hver veit nema upplýsingar um ÁL hafi bara sogast *óvart* milli síma úr ráðuneytinu.
Ragnhildur Kolka, 28.3.2025 kl. 09:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning