Grænland og Ísland, fiskur og ESB-herinn

Ríkisstjórn Trump sér færi á Grænlandi þar sem landið undir danskri yfirstjórn. Ágengur áhugi Bandaríkjanna flýtir sennilega fyrir sambandsslitum Grænlands og Danmerkur. Slitin á milli Íslands og Dana fóru fram í skugga tveggja heimsstyrjalda, fullveldi fékkst 1918 og lýðveldi var stofnað 1944. 

Gangi það fram að Grænlendingar nýti sér aðstæður í alþjóðapólitík, líkt og Íslendingar gerðu, og rífi sig lausa frá Dönum og fari undir bandarískt forræði, sem þarf ekki að vera formlegt, tekur Norður-Atlantshafið stórveldapólitískri stökkbreytingu. Nærtæk samlíking er við Monroe-yfirlýsinguna, sem er 102 ára gömul, og fyrirbýður afskipti annarra ríkja, en Bandaríkjanna, auðvitað, að málefnum Suður-Ameríku. Í Kúbu-deilunni 1962 reyndu Sovétríkin að brjóta á bak aftur Monroe-stefnuna en tókst ekki.

Milli Íslands og Grænlands eru um 300 km. Verði Grænland bandarískt áhrifasvæði, ef ekki beinlínis bandarískt, er Grænlandssund nánast orðið bandarískt innhaf.

Til eru þeir á Íslandi sem hafa þá trúarkenningu að ESB-aðild þjóni íslenskum hagsmunum. Lítil saga um fisk og hertól útskýrir fávísi kreddunnar.

Áhrifamenn í Brussel telja að Rússar ógni ESB-Evrópu og leggja allt kapp á að efla hernaðargetu álfunnar, Bretar meðtaldir, sem þó eru utan ESB. Hugmynd var að ESB og Bretland kæmu sér upp félagsskap um vopnakaup og framleiðslu vígtóla. En þá sögðu Frakkar nei, Bretar fá ekki að vera með nema þeir hleypi frönskum togurum í breska landhelgi. Heimfært upp á Ísland: ESB myndi verja Ísland en þá því aðeins að landið yrði efnahagsleg nýlenda ESB.

Munurinn á Bandaríkjunum og ESB-Evrópu er sá að annað er stórveldi, og lýtur lögmálum stórvelda, en hitt er bandalag miðlungsríkja þar sem hver otar sínum tota.

Varnarlína Bandaríkjanna á Norður-Atlantshafi liggur á milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja. Íslensk stjórnmálaöfl (les: Viðreisn og Samfylking) sem freista þess að gera Ísland að ESB-ríki gera landið sjálfkrafa að bitbeini Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Það er uppskrift að hörmungum fyrir land og þjóð.

Grænlendingum dettur ekki í hug að falbjóða sig ESB-Evrópu samtímis sem Bandaríkin sýna landi þeirra ágengan áhuga. Fávísir í reykvíska stjórnarráðinu ættu að láta af helstefnu sinni í utanríkismálum.


mbl.is Varaforsetinn ætlar með í heimsókn til Grænlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég get vel verið sammála þessum pistli, og hann er svo vel skrifaður að ég hef engu við að bæta. En frá því í gær þegar ég skrifaði um að Helgi Seljan sá margumtalaði æsifréttamaður stóð á bakvið fréttina sem hrinti af stað afsögn Ásthildar Lóu hef ég verið að bíða eftir pistlum frá þér og Ómari Geirssyni um þetta. Þið eruð meistararnir og snillingarnir í að fylgja eftir svona málum af festu og dugnaði og þú varst búinn að gera þessu góð skil í pistlum.

Sé það líka í DV að stór hluti almennings - eða þeirra sem gera athugasemdir í DV - gagnrýna Helga Seljan mjög, og jafnvel skilja nú glæpsamlegt athæfi í Byrlunarmálinu í samhengi við þetta.

Ég fékk metfjölda heimsókna á mína síðu í gær, yfir 400 stykki. Fólk vill lesa um þetta. Þú og Ómar eruð samt beztir í þessu.

Ingólfur Sigurðsson, 26.3.2025 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband