Þriðjudagur, 25. mars 2025
Útvarpsstjóri hæðist að lögreglunni
Sunnudagskvöld síðastliðið birtist frétt á RÚV um byrlunar- og símamálið. Fréttin er unnin upp úr fundargerð stjórnar RÚV frá 28. febrúar, sem varð aðgengileg við birtingu fréttarinnar. Afsögn barnamálaráðherra tröllríður fjölmiðlaumræðunni. Þægilegt er að læða frétt inn í þá umræðu í von um að hún fái enga athygli. Skyldufrétt er nafnið á fyrirbærinu.
Byrlunar- og símamálið er á dagskrá frá hausti 2021 þegar ljóst varð að þrír fjölmiðlar RÚV, Stundin og Kjarninn áttu aðkomu að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og afritun vorið 2021. Lögreglurannsókn á málinu hófst sumarið 2021 en var hætt síðast liðið haust, hvað blaðamenn varðar, með sérstakri, og óvenjulegri, yfirlýsingu lögreglu. Í yfirlýsingunni segir að brot voru framin af hálfu blaðamanna en ekki tókst að sanna tiltekin afbrot á tilgreinda blaðamenn, sem voru ,,ósamvinnuþýðir."
Tilfallandi hefur fjallað um byrlunar- og símamálið frá hausti 2021. Í vetur birti Morgunblaðið fréttir um málið, m.a. yfirlit atburðarásina.
RÚV hefur aldrei greint frá aðkomu sinni að byrlunar- og símamálinu. Þó er vitað að sími Páls var afritaður á Efstaleiti á síma í eigu RÚV með símanúmerið 680 2140. RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans, það gerðu Stundin og Kjarninn. Á bakvið aðgerðina var skipulag, miðstöðin var á Efstaleiti.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og forsvarsmenn RÚV neituðu blaðamanni Morgunblaðsins um viðtal. Skyldufrétt RÚV síðastliðið sunnudagskvöld þótti á hinn bóginn nauðsynleg þar sem stjórnarmaður RÚV, Ingvar Smári Birgisson, lét bóka á fundinum 28. febrúar að ríkisfjölmiðillinn ætti að upplýsa málsatvik. Heiður RÚV er í veði.
Á stjórnarfundi RÚV talar Stefán útvarpsstjóri í hæðnistón til lögreglunnar. Í fundargerðinni segir:
Útvarpstjóra vitandi lægi ekki fyrir á grundvelli lögreglurannsóknarinnar hvort síminn sem um ræðir í málinu hafi verið afritaður, og ef svo hefði verið, hver hefði gert það og/eða dreift efni úr honum.
Stefán situr sjálfur á þeim upplýsingum sem lögreglan fékk ekki. Símanúmerið 680 2140 er skráð á RÚV. Síminn sjálfur, af Samsung-gerð, er í fórum RÚV. Til að fá símann í sínar hendur hefði lögreglan þurft dómsúrskurð. Lögreglan leyfði sér ekki að krefjast símtækis í eigu RÚV og hefði mögulega ekki fengið dómara til að skrifa upp á kröfuna. Blaðamenn hafa annan háttinn á. Byrla, stela og afrita. Lögreglan starfar innan laga, blaðamenn ekki.
Stefán veit þetta allt. Hann er lögfræðimenntaður og starfaði áður sem lögreglustjóri. Ekki er risið hátt á útvarpsstjóra þegar hann hæðist að lögreglunni fyrir takmarkaðri rannsóknaheimildir en siðlausir blaðamenn taka sér.
Í málsgögnum lögreglu eru margir tugir símatala, og sms-skilaboða, sem fóru á milli síma með númerið 680 2140 og fyrrum eiginkonu skipstjórans sem játar að hafa byrlað, stolið og fært RÚV símtækið. Eftir afritun fékk eiginkonan símann tilbaka og skilaði á sjúkrabeð skipstjórans sem var meðvitundarlaus.
Lögreglan fór með silkihönskum um blaðamenn til að styggja þá ekki, haldlagði hvorki tölvur né síma og leyfði blaðamönnum að komast upp með að mæta ekki í boðaða skýrslutöku í hálft ár. Blaðamenn voru boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022 en mættu ekki fyrr en í ágúst sama ár.
Stefán útvarpsstjóri hlær að lögreglunni en hvetur siðlausa blaðamenn til dáða. Helgi Seljan er aftur mættur á Efstaleiti.
Athugasemdir
Sæll Páll.
Í Silfrinu í gærkvöldi tók Helgi Seljan til varna um frétt af Ásthildi Lóu. Þar kom fram að fréttin var unnin úr viðtali við barnsföður hennar.
Þetta vekur upp spurningar. Hvernig frétti fréttastofan af því að ÁL ætti barn fyrir hjónaband og með hverjum? Þarna er eitthvað undarlegt í gangi, eða ekki.
Kannski bara vinskapur milli brotins frambjóðanda og brotins fréttamanns. Kannski til að fela fréttina sem þú nefnir í þínum pistli. Kannski bara af einskærri úlfúð út í allt og alla, eins og þeir vinirnir eru þekktir fyrir.
Gunnar Heiðarsson, 25.3.2025 kl. 08:47
Silfrið í gær var upplýsandi um margt. Það veitti RÚV kærkomið tækifæri til að fjalla um sjálft sig. Það upplýsti einnig hver vann hina margumræddu frétt af málefnum Ásthildar Lóu og minnti jafnframt á tengslin milli Helga Seljan og Samfylkingarinnar.
Vangaveltur...Var dómgreindarleysi menntamálaráðherra í kennaradeilunni og í yfirlýsingu um dómskerfið kannski tilefni til opinberrar aftöku á Ásthildi Lóu? Átti næturheimsókn Ásthildar Lóu upptök í hennar hugarheimi eða fékk hún ráðleggingar um hvernig hún ætti að bregðast við. Margítrekaðar yfirlýsingar forsætisráðherra um skort á vitneskju um málið minna á fleyg orð meistara Shakespeare "The lady doth protest too much, methinks"
Getum við búist við fleiri slíkum uppákomum eða hefur Inga Sæland lært sína lexíu?
Ragnhildur Kolka, 25.3.2025 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning