Ásthildi Lóu fórnað fyrir Kristrúnu

Ef Ásthildur Lóa hefði ekki sagt af sér ráðherradómi hefði Kristrún orðið að víkja sem forsætisráðherra. Trúnaðarbrestur á skrifstofu Kristrúnar leiddi til falls barnamálaráðherra.

Kristrún fékk beiðni um viðtal 11. mars frá Ólöfu Björnsdóttur. Skýr og einfaldur tölvupóstur:

Góðan daginn, ég bið um stuttan fund með Kristrúnu Frostadóttur en það varðar Ásthildi Lóu Þórsdóttur, það er í góðu lagi að hún sitji líka fundinn, ef Kristrún vill það. Liggur á.

Fyrsti tölvupósturinn frá Ólöfu til Kristrúnar er tveim dögum eldri, frá 9. mars. Þar var ekki tekið fram að fundurinn yrði um Ásthildi Lóu. Ef tölvupósturinn, hvort heldur sá frá 9. eða 11. mars, hefði var tekinn alvarlega, en ekki litið á hann sem gabb eða óráð, var aðeins eitt að gera í stöðunni. Að spyrja sendanda nánar út í erindið og taka ákvörðun í framhaldi um hvort fundur yrði haldinn eða erindinu synjað. Þetta er heilbrigð skynsemi og vönduð stjórnsýsla.

En hvorki heilbrigð skynsemi né vönduð stjórnsýsla var viðhöfð heldur saumaklúbbsvinnubrögð þar sem lög og reglur voru virtar að vettugi. Aðstoðarmaður Kristrúnar sendi aðstoðarmanni Ásthildar Lóu allar upplýsingar um Ólöfu til að 

kanna hvort mennta- og barnamálaráðherra þekkti til sendanda eða mögulegs fundarefnis áður en afstaða yrði tekin til fundarbeiðninnar.

Kristrún forsætisráðherra fær beiðni frá almennum borgara um fund vegna fagráðherra. Hvorki Kristrún né aðstoðarmenn og ritari segjast hafa nokkra hugmynd um hvað það sé sem Ólöf vilji ræða um vegna Ásthildar Lóu. En Ólöf er ekki spurð heldur er lekið í Ásthildi Lóu og hún spurð um Ólöfu. Vinnulagið er eins og hjá klíku en ekki formlegu stjórnvaldi.

Eitt getur útskýrt vinnubrögðin 11. mars. Það er að eftir fyrsta tölvupóst Ólafar til Kristrúnar 9. mars hafi einhver á skrifstofu Kristrúnar áttað sig á hvað væri á ferðinni. Verkefni skrifstofu forsætisráðherra hafi eftir 9. mars fyrst og fremst verið að þykjast ekkert vita, þvo hendur sínar af málinu öllu og láta Ásthildi Lóu eina um að ganga plankann.

Víst er að þegar Ásthildur Lóa fær vitneskju um Ólöfu, þann 11. mars,  hefst atburðarás með tveim hápunktum, kvöldheimsókn ráðherrans til Ólafar og afsagnar ráðherrans.

Lekinn frá skrifstofu forsætisráðherra hratt atburðarásinni af stað.

Hvernig hefði mátt vinna þetta mál faglega og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti?

Jú, að tala við Ólöfu og spyrja hana um hvað málið snerist. Aðstoðarmaður eða ritari hefðu gert þetta. Neiti Ólöf að svara nema hitta ráðherra væri annað tveggja að synja henni um fund og málið dautt hvað forsætisráðuneytið áhrærir eða hleypa uppljóstraranum inn í ráðuneytið til að segja allt af létta. Eftir að ráðuneytið fær upplýsingarnar, hvort heldur í síma/tölvupósti eða á fundi, yrði Ólöfu með kurteisum hætti þakkað að vekja máls á fortíð barnamálaráðherra en sagt að 35 ára gamalt ástarmál fagráðherra, þar sem enginn grunur væri um lögbrot eða stórkostlega ámælisverða háttsemi, kæmi forsætisráðherra ekki við. Skilaboð væru send á Ásthildi Lóu um að ónafngreindur einstaklingur hefði vakið upp fortíðardraug ráðherrans. Boltinn væri hjá ráðherranum.

Ásthildur Lóa hefði verið í þeirri stöðu að leggja spilin á borðið að eigin frumkvæði og taka fjölmiðlaumræðuna í kjölfarið. Eða beðið milli vonar og ótta að málið færi ekki lengra, þessi ónafngreindi aðili myndi ekki gera meira úr málinu. Báðir kostirnir slæmir, vissulega, en málin enn í höndum ráðherrans.

Kristrún og forsætisráðuneytið velja verstu hugsanlegu leiðina, haga sér eins og kjaftatíkur í saumaklúbbi með því að senda persónuupplýsingar Ólafar til Ásthildar Lóu. Ráðuneytið nánast sigar barnamálaráðherra á uppljóstrarann.

Viðbrögð í þjóðfélaginu, eftir afsögn barnamálaráðherra, sýna að vilji var til að líta á 35 ára gamalt ástarmál sem bernskubrek. En eftir óboðna kvöldheimsókn ráðherra til uppljóstrara var ekki aftur snúið. Heimsóknin var dómgreindarbrestur, sem og yfirlýsingin í kjölfarið að ráðherra hafi verið fórnarlamb eltihrellis fyrir hálfum fjórða áratug. Hvað dómgreind varðar er ekki úr háum söðli að detta fyrir Ásthildi Lóu, sem tapaði einkamáli fyrir dómi nýverið og fullyrti við það að dómskerfið væri ónýtt. Ráðherrar sem tala og haga sér eins og Ásthildur Lóa eru ekki á vetur setjandi.

Eftir að trúnaður var brotinn, með lekanum til Ásthildar Lóu um Ólöfu, hafði forsætisráðuneytið sambandi við Ólöfu. Í tímalínu ráðuneytisins segir:

Með tölvupósti 12. mars (kl. 14:12) var þess óskað að sendandi gerði nánari grein fyrir tilefni fundarbeiðninnar.

Trúnaðarbrotið fór fram daginn áður, 11. mars. Skaðinn var skeður. Eftir að Ásthildur Lóa fékk að vita að Ólöf væri uppljóstrarinn fór af stað atburðarás sem hlaut að valda pólitískum óskunda. Ásthildur Lóa tók skellinn en með réttu ætti það að vera Kristrún, sem braut trúnað og fór á svig við lög og reglur um góða stjórnsýslu.

Afsögn Kristrúnar hefði falið í sér fall ríkisstjórnarinnar. Móðursýkisleg viðbrögð í baklandi Kristrúnar (les: Össur Skarphéðinsson) um að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna, ætti hlut að máli sýnir að hollvinir forsætisráðherra og innvígðir samfylkingarmenn töldu hættu á endalokum valkyrjustjórnarinnar.

Valkyrjustjórnin líkist meira saumaklúbbi á hugvíkkandi efnum en ábyrgu stjórnvaldi. Partíið er búið en af tillitssemi við kvenpeninginn tilkynnir enginn fullorðinn að nú sé nóg komið.

 


mbl.is Fékk síma og heimilisfang frá aðstoðarmanni forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband