Fimmtudagur, 13. mars 2025
Stefán á Glæpaleiti leitar á náðir meirihluta alþingis
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri leitar sér að nýju starfi. Aðeins eru tvær vikur síðan Stefán hóf seinna tímabil sitt sem útvarpsstjóri, eða 1. mars. Endurráðningin var umdeild, fjórir af níu stjórnarmönnum RÚV vildu auglýsa starfið. Síðustu daga hefur Stefán verið í sambandi við þingmenn til að fá stuðning við að hann verði skrifstofustjóri alþingis.
Ragna Árnadóttir hættir sem skrifstofustjóri þjóðþingsins og verður starfið laust þann 1. ágúst næstkomandi. Á sama tíma og útvarpsstjóri leitar hófanna eftir starfi skrifstofustjóra alþingis tekur þingnefnd fyrir byrlunar- og símamálið. Þar eru undir embættisverk Stefáns síðustu fjögur ár. Plottið er að útvarpsstjóri, og RÚV í leiðinni, fái uppreist æru með vegtyllu veitta af meirihluta alþingis.
Til að plottið nái fram að ganga þarf ríkisstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins að taka Stefán, og þar með byrlunar- og símamálið, upp á sína arma. Fyrir á fleti ríkisstjórnarflokkanna eru fyrrum sakborningar í málinu, blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson. Báðir eru starfsmenn þingflokks Samfylkingar.
Stefáni er illa vært á RÚV vegna byrlunar- og símamálsins. Vorið 2021 var sími Páls skipstjóra Steingrímssonar afritaður á Efstaleiti. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks veitti símanum viðtöku úr hendi þáverandi eiginkonu skipstjórans, sem byrlaði Páli til að komast yfir símtækið. Afritunin fór fram á meðan skipstjórinn lá á gjörgæslu í öndunarvél.
Með yfirlýsingu í febrúar 2022 viðurkenndu Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri að Þóra hefði tekið við símanum til að afla frétta. En RÚV birti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Fréttir voru skrifaðar á RÚV en birtar í Stundinni og Kjarnanum, að morgni sama dags, 21. maí 2021. Aðgerðin var skipulögð á Efstaleiti. Með fyrirvara var vitað að skipstjórinn yrði gerður óvígur og síma hans stolið. Samskonar sími og skipstjórans, af Samsung gerð, var til reiðu á RÚV þegar byrlarinn mætti með stolið símtækið.
Morgunblaðið fjallaði ítarlega um byrlunar- og símamálið í vetur. Stefán útvarpsstjóri neitaði blaðamanni Morgunblaðsins um viðtal vegna málsins. Að útvarpsstjóri neiti blaði allra landsmanna um viðtal er óbein viðurkenning að RÚV sé með óhreint mjöl í pokahorninu. Mjölið má ekki líta dagsins ljós. Orðspor þjóðþekktra er í húfi.
Lögmaður Páls skipstjóra, Eva Hauksdóttir, sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis erindi um að taka á dagskrá byrlunar- og símamálið. Nefndin hyggst draga saman helstu efnisatriði málsins áður en kveðið verður upp úr um hvort farið verður í frumkvæðisathugun. Vilhjálmur Árnason formaður nefndarinnar segir í viðtengdri frétt
að mikilvægt sé að fá botn í það hver aðkoma Ríkisútvarpsins var að þessu sérstæða máli.
Stefán útvarpsstjóri telur orðspor sitt hæfilegt til að hann verði næsti skrifstofustjóri alþingis. Spurningin sem meirihluti alþingis stendur frammi fyrir er hvort þjóðþingið eigi að vera griðastaður manna á flótta undan réttvísinni.
![]() |
Tekur málið til umfjöllunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Klókindi og klækjabrögd eru ær og kýr samfylkinasinna til að halda völdum. Hlustaði í gær á hlað varpið -Ein Pæling-sem fjallaði um nýja borgarstjórann og vinnubrögð hans. Athyglisvert, þegar horft er til vinnubragða þess sem var að yfirgefa stólinn. Útvarpsstjóri hefur ekki haft sömu völd en verið skósveinn í þeirri vegferð. Það læðist óneitanlega að manni grunur að glæpagen leynist í grunnhugsun þeirra sem aðhyllast hina sósíaldemokratisku stefnu. Og við sjáum sömu vinnubrögð viðhöfð nú í ESB, þar sem markvisst undirmálum er beitt gegn lýðræðislegum vilja kjósenda. Grófasta dæmið er Rúmenía, en sama á við um Austurríki, Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð öfl. Yfir öllu þessu svífur svo andi WEF.
Ragnhildur Kolka, 13.3.2025 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning