Föstudagur, 7. mars 2025
Trump: stórveldafriður í stað staðgenglastríðs
Úkraínustríðið er staðgenglastríð. Í stað þess að Nató-hermenn berjist við Rússa eru Úkraínumenn málaliðar sem fá vopn og fjármagn frá Bandaríkjunum og ESB-Evrópu til að berjast á gresjum Garðaríkis forna. Trump forseti býður stórveldafrið í stað staðgenglastríðs og fær þungar ákúrur frá ESB-Evrópu fyrir vikið. Á Íslandi er tekið undir með gömlu nýlenduveldunum sem ólm vilja gera sig gildandi í heimsskipan á hverfandi hveli.
Stórveldafriður þýðir að eitt stórveldi, Bandaríkin, semji við annað stórveldi, Rússland, um að friður skuli ríkja þar sem áður var hildarleikur. Í grunninn einfalt. Margt annað hangir á spýtunni sem flækir ögn málefnin, þótt meginlínur séu skýrar.
Umpólun er á stefnu Bandaríkjanna að viðurkenna Rússland sem stórveldi. Fyrir rúmum áratug lýsti Obama forseti Rússlandi sem héraðsríki í Austur-Evrópu. Gott og gilt sem slíkt, en ekkert merkilegra en héraðsríkin Vestur-Evrópu, Frakkland, Þýskaland og Bretland, sem lúta forsjá Bandaríkjanna í utanríkismálum frá lokum seinna stríðs. Sumir gengu lengra en Obama að lýsa Rússlandi ómerkilegu. Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagði Rússland bensínstöð í líki þjóðríkis. Orð Obama og McCain féllu á velmektardögum vestrænnar alþjóðahyggju þegar þjóðríki og þjóðmenning voru talin fortíðargóss. Annað hefur komið á daginn. Lykilorðin í alþjóðaþróun á liðnum áratug eru Trump 2016, Brexit, Pútín og Trump 2024.
Með því að Trump viðurkennir Rússland sem stórveldi er ESB-Evrópa sjálfkrafa gjaldfelld. í Brussel og höfuðborgum héraðsríkja í Vestur-Evrópu er litið á stefnubreytingu Trump sem móðgun í einn stað en í annan stað hótun um að Bandaríkin láti ESB-Evrópu eina um að kljást við Rússa að stríði loknu. ESB-Evrópa, þrátt fyrir um 450 milljónir þegna, stendur þar höllum fæti gagnvart 140 milljón Rússum, einkum á afmörkuðum sviðum s.s. hernaði og náttúruauðlindum. Fjörugt ímyndunarafl þarf til að trúa að Rússland sé á leið með her sinn í Vestur-Evrópu. Sögulega er einstefna í hina áttina. Napóleon 1812, Þýskalandskeisari 1914 og austurríski liðþjálfinn 1941. Öflugt Rússland girðir aftur fyrir útþenslu ESB og Nató í austurátt. Sú stefna tilheyrir veröld sem var.
Ástæðan fyrir viðurkenningu Trump á Rússlandi sem stórveldi er þríþætt. Í fyrsta lagi eru Rússar kjarnorkuveldi. Í öðru lagi eru Rússar á sigurbraut í Úkraínu þrátt fyrir einarðan stuðning vesturveldanna og harðar refsiaðgerðir. Í þriðja lagi eiga Rússar sterkt alþjóðlegt bakland, Brics-samstarfið og tvíhliða samstarf við Kína og Íran og fjöldann allan af þriðja heims ríkjum. Rússland er hvergi nærri á pari við Bandaríkin og Kína, en í öruggu þriðja sæti.
Stefna Trump er að efla Bandaríkin sem efnahagsveldi fremur en hernaðarveldi. Færri stríð og meiri viðskipti þar sem Bandaríkin njóti heimamarkaðar er vegvísirinn. Bandaríkjaforseti lítur svo á að Evrópa sé ekki lengur kjarnasvæði Bandaríkjanna, líkt og álfan var á dögum kalda stríðsins. Kyrrahaf er forsetanum hugstæðara en Atlantshaf. Nema sá hluti Atlantshafs sem liggur næst Bandaríkjunum. Trump ítrekaði nýverið að hann sæi bandarískt Grænland fyrir sér. Bandaríkin hafa áður eignast lönd með viðskiptum, s.s. Alaska, Louisiana og hluta Kaliforníu. Grænland er næsti nágranni Íslands í vestri, þótt ESB-sinnar hér á landi viti það ekki.
Valkosturinn við stórveldafrið Trump er framhald á staðgenglastríðinu. Stríðum lýkur með tvennum hætti, uppgjöf eða málamiðlun, þ.e. friðarsamningi. Ef gefið er að hvorugur stríðsaðilinn, Úkraína og Rússland, muni gefast upp verða gerðir friðarsamningar. Stórveldafriður gæti fengist í ár. Friður í staðgenglastríðinu yrði kannski eftir þrjú, fimm eða sjö ár. Á þeim tíma vofir sú hætta yfir að Úkraínuátökin breytist í Austur-Evrópustríð og í framhaldi þriðju heimsstyrjöld. Ekki huggulegar horfur.
ESB-Evrópa reynir allt sem í hennar valdi stendur að fresta því óhjákvæmilega. Bandaríkin segja sig frá vestrænni alþjóðahyggju eins og hún hefur verið stunduð frá lokum kalda stríðsins. Nýr veruleiki stórveldahagsmuna blasir við á alþjóðasviðinu. Þar er ESB-Evrópa í aukahlutverki, veigamiklu að vísu, en hvergi nærri aðalleikari. Stórveldin eru aðeins þrjú og í þessari röð: Bandaríkin, Kína og Rússland.
Stórveldafriður er besti kosturinn í Úkraínustríðinu. Sérstakur bónus er að vestræn alþjóðahyggja er í leiðinni sex fet ofan í jörð. Menningarhryllingurinn sem vestræn alþjóðahyggja ól af sér er siðlaus fáviska.
Athugasemdir
"Fjörugt ímyndunarafl þarf til að trúa að Rússland sé á leið með her sinn í Vestur-Evrópu." En leiðtogarnir í evrópu hafa þetta ímyndunarafl og bættu í gær við 118.000.000.000 kr í stríðsrekstur. Fárútlát sem réttlæta verður í næstu kosningum. Annars er fyndið að sjá fréttir um að hinir og þessir hafi tekið amerískar vörur úr sölu til að verja frelsið og hugsjónirnar því allir viti að Trump sé bara handbendill Pútíns og hafa þurfi vit fyrir almenningi um hvaða frelsi hann á að velja
Grímur Kjartansson, 7.3.2025 kl. 09:31
... þegar blórar berjast ...
Guðjón E. Hreinberg, 7.3.2025 kl. 21:31
Verður ekki betur sagt.
Ragnhildur Kolka, 7.3.2025 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.