Sunnudagur, 2. mars 2025
ESB-Evrópa mun krjúpa fyrir Trump og fórna Úkraínu
Evrópa er sníkjudýr á Bandaríkjunum, lifir á hervernd Nató sem Bandaríkin halda að mestu uppi, sagði Trump á fyrri forsetatíð sinni, 2017-2021, er hann krafðist hærri framlaga aðildarríkja hernaðarbandalagsins. Samkvæmt BBC hafa þau hækkað, þótt Bandaríkin beri þyngstu byrðina og hefur auk þess yfir 50 þúsund hermenn í Evrópu.
Á seinni forsetavaktinni, sem hófst í janúar í ár og lýkur 2025, ætlar Trump að losna undan skuldbindingum sem Biden-stjórnin gaf Úkraínu. Í viðtengdri frétt segir Selenskí forseti Úkraínu að landið sé bjargarlaust án stuðnings Bandaríkjanna. Sama gildir um meginland Evrópu, sem kenna má við ESB.
Allt frá lokum seinna stríðs eru Bandaríkin í ábyrgð fyrir öryggis- og varnarhagsmunum Evrópu. Á tímabili kalda stríðsins, 1946 - 1991, var Evrópu, og heiminum að nokkru leyti, skipt upp í tvær blokkir, austur og vestur, kommúnisma og borgaralegan kapítalisma. Eftir fall Sovétríkjanna var sögulegu hlutverki Nató lokið. Framhaldslíf öðlaðist bandalagið í Júgóslavíustríðunum 1991-2001 og síðar með hernaðarbrölti í Afganistan, Írak og Sýrlandi.
Úkraína verður Nató-verkefni 2008 með tilboði um aðild að hernaðarbandalaginu. Á þeim tíma var samræmd utanríkisstefna Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Í reynd hlýddi Brussel fyrirskipun Washington. Á fyrri forsetatíð sinni, 2017-2021, vildi Trump friðmælast við Pútín starfsbróðir sinn í Moskvu. En það var pólitískur ómöguleiki. Pútín var sagður hafa tryggt Trump forsetakjör og allt kjörtímabilið sat Trump undir ámæli að vera leiksoppur Kremlarbónda.
Sigur Trump í kosningunum í nóvember á síðasta ári var ekki vefengdur. Ekki var hægt að endurnýta áróðurinn um að Pútín væri bakhjarl Trump enda uppspuni. Trump hefur frjálsari hendur að hrinda í framkvæmd stefnu sem var a.m.k. til í drögum á fyrri forsetavaktinni; að semja við Pútin um friðsamleg samskipti Bandaríkjanna og Rússlands.
Ólík sýn Trump og ráðandi afla í Evrópu á Úkraínudeiluna er öðrum þræði menningarleg en hinum þræðinum pólitísk. Trump deilir ekki frjálslyndri vinstrisinnaðri heimssýn Evrópu, sem ber yfirheitið vók. Í pólitík er forgangsmál Trump Bandaríkin en ekki vestræn alþjóðahyggja, sem er ær og kýr ESB-Evrópu.
Í augum ESB-Evrópu er versta hugsanlega niðurstaða Úkraínustríðsins friðsamleg samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. Ástæðan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi gefur bandarískur-rússneskur friður Rússum lausa tauminn í Evrópu. Ekki svo að skilja að ESB-Evrópa óttist rússneska beina innrás, þótt kvak um slíkt heyrist, heldur hitt að ógnin sem stafar af Rússum knýr ESB-Evrópu til undanlátssemi. Rússar yrðu komnir í stöðu gagnvart ESB-Evrópu sem þeir áttu sjálfir að vera í eftir inngöngu Úkraínu í Nató og ESB. Með óvígan rússneskan her á landamærum ESB-Evrópa verður að sýna Rússum tillitssemi. Rétturinn til að derra sig er orðinn rússneskur.
Í öðru lagi óttast ESB-Evrópa að eftir Úkraínufrið yfirgefi Bandaríkin Evrópu, skilji álfuna ekki aðeins eftir varnarlausa heldur, það sem verra er, þvingi Evrópuríkin til að byggja upp margfalt stærri og dýrari heri en hingað til. Pandóruboxið sem opnast hefur verið lokað frá falli Hitlers. Hvernig mun Frökkum líða þegar öflugasti herinn í ESB-Evrópu er þýskur? Tvisvar gerðist það á síðustu öld, 1914 og 1939. Minningin um fyrra og seinna stríð er hvergi nærri gleymd valdhöfum álfunnar.
Evrópa á aðeins eitt raunhæft svar í stöðunni. Að friðmælast við Trump og taka upp stefnu hans gagnvart Úkraínu. Selenskí forseta verður fórnað. Trump fær heiðurinn að koma á friði í Úkraínu og þar með von um friðarverðlaun Nóbels. Í staðinn fær ESB-Evrópa enn um sinn að njóta herverndar Bandaríkjanna og fresta óhjákvæmilegri aðlögun að margpóla heimi þar sem vestræn alþjóðahyggja er komin á ruslahaug sögunnar.
Mörgum mun þykja þessi forspá með miklum ólíkindum í ljósi svigurmæla evrópskra ráðamanna eftir moldviðrið í kringum fjölmiðlafund Trump og Selenskí fyrir tveim dögum. ESB-Evrópa framreiðir tilfinningaklám til að fela kaldan veruleika. Án Bandaríkjanna stenst ekki pólitíska yfirbyggingin sem kallast Evrópusambandið. Neyðin kennir naktri konu að spinna og valdhöfum að taka skárri kostinn af tveim slæmum.
![]() |
Selenskí: Þurfum á stuðningi Trumps að halda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Enn einn neyðarfundur um Úkraínu verður haldinn í Evrópu nú síðdegis
Selensky vill bara tala um meiri fjárframlög og spurning hvort nokkur af þessum "leiðtogum" þori að minnast á frið og hætta þar með á að Selensky verði aftur æfur af reiði yfir stuðningsleysinu við fólkið sem búið er að fórna.
En staðan í dag er að Rússar verða ekki sigraðir og einhverntíma verður að semja um frið í Úkraínu - afhverju ekki núna.
Grímur Kjartansson, 2.3.2025 kl. 10:07
Meira bullið Rússar eru á hraðri leið í örfátækt vegna stríðsins. USA er skíthrædd um að veldið hrynji í hendur Kína.
Sveinn Ólafsson, 2.3.2025 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning