Óánægja á RÚV með byrlunarvörn Stefáns útvarpsstjóra

Stjórnarmenn RÚV eru ekki sáttir með að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri gefi ekki kost á viðtölum vegna byrlunar- og símamálsins. Starfsfólk ríkisfjölmiðilsins furðar sig á þögn útvarpsstjóra. Stefán er andlit RÚV og á að svara fyrir starfsemina á Efstaleiti. En Stefán er á flótta eins og sakamaður. Til að lægja öldurnar sendi Stefán tölvupóst til starfsmanna í gær. Tölvupósturinn sýnir mann sem hefur málað sig út í horn.

Vísir gerir skil tölvupósti útvarpsstjóra. Samkvæmt endursögninni lýtur eina efnislega athugasemd útvarpsstjóra við fréttaflutning Morgunblaðsins síðustu daga að símanúmerinu 680 2140. Um það segir Stefán: ,,Umrætt númer var hins vegar skráð árið 2018, þvert á það sem kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins." Er Stefán var í samskiptum við lögreglu, í janúar 2023, hafði hann ekki í frammi þessa mótbáru, eins og vikið verður að hér að neðan.

Tilfallandi fjallaði um Samsung-síma með símanúmerinu 680 2140 fyrir tveim árum:

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.  

Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.

Í tölvupósti til RÚV-starfsmanna í gær talar Stefán útvarpsstjóri aðeins um símanúmerið sjálft en ekki Samsung-símann sem Þóra keypti í apríl, rétt fyrir byrlun skipstjórans. Símanúmerið 680 2140 kann að hafa verið skráð 2018 en Samsung-síminn var keyptur í apríl 2021. Til að afrita síma skipstjórans þurfti Samsung-síma, samskonar og skipstjórinn notaði. Afritunin fór fram á símtæki, ekki símanúmer. Stefán afvegaleiðir með því að tala aðeins um símanúmerið en ekki símtækið sjálft.

Vitneskja um hvernig síma skipstjórinn notaði gat ekki komið frá neinum öðrum en þeim sem voru í nánum kynnum við hann. Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra hefur játað að hafa byrlað eiginmanninum, stolið síma hans og afhent Þóru Arnórsdóttur á Efstaleiti.

Í samskiptum við lögreglu 12. janúar 2023 segir útvarpsstjóri: ,,Þetta símanúmer mun vera notað af Kveik." Í sömu samskiptum vísar Stefán á Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks til að upplýsa lögreglu. Fyrir tveim árum vissi Stefán hvað klukkan sló. En hann gerði ekkert til að upplýsa málið. Þóra var kölluð í yfirheyrslu og tilfallandi bloggaði um skýrslugjöfina:

Í yfirheyrslu lögreglu bar Þóra því við að Samsung síminn hafi verið notaður til samskipta við heimildamenn Kveiks. En símanúmerið er hvergi skráð heldur leyninúmer. Enginn gat hringt í númerið með fréttaskot eða upplýsingar. Þá var ekki mikið hringt úr símanum í apríl. Reikningurinn fyrir mánuðinn er upp á 692 kr. 

Þóra varð sakborningur í lögreglurannsókn í febrúar 2022, ári áður en samskiptin voru, sem rakin eru hér að ofan. Stefán útvarpsstjóri hélt verndarhendi yfir henni. Hann og Heiðar Örn fréttastjóri sendu frá sér yfirlýsingu um að Þóru hefði verið heimilt að taka við stolnum gögnum sem fengust með byrlun. Þessi yfirlýsing stendur enn, hefur hvorki verið afturkölluð né útskýrð. Þóra birti enga frétt á RÚV með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Fréttir birtust aftur samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021. Unnið var eftir skipulagi, aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti.

Útvarpsstjóri og fréttastjóri öxluðu ábyrgð á ritstjóra Kveiks með sérstakri yfirlýsingu og sú ábyrgð er enn i gildi. Stefán útvarpsstjóri reynir að hlaupast undan ábyrgðinni, segir afbrot og siðleysi á Glæpaleiti vera trúnaðarmál.

Eftir að upp komst, í janúar 2023, að Þóra hafði keypt Samsung-síma fyrir byrlun var Þóra látin fara frá RÚV. Engin útskýring, aðeins fáorð tilkynning. Stefán vildi ekki lengur Þóru á RÚV en gaf engar útskýringar, upplýsti ekkert. Í tölvupósti núna í gær til starfsmanna RÚV þykist Stefán ekkert vita hvernig það æxlaðist að hann hélt Þóru sakborningi í eitt ár, frá febrúar 2022 til febrúar 2023, en lét hana svo fara umyrðalaust. Stefán áttaði sig, ekki seinna en í janúar 2023, að starfsmenn RÚV áttu aðild að alvarlegum glæp. En ekki hvarflaði að útvarpsstjóra að upplýsa málavöxtu, hann einfaldlega losaði sig við fólk. Áður en Þóru var varpað útbyrðis á Efstaleiti höfðu Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan axlað sín skinn vegna byrlunar- og símamálsins.

Stefán útvarpsstjóri lék ýmsa biðleiki til að tefja rannsókn lögreglu og þæfa málið. Eftir fyrstu fyrirspurn um símann með númerið 680 2140 þurfti lögregla að ítreka fyrirspurnina og þá bar Stefán fyrir sig lögfræðiálit um að hann mætti ekkert segja. Rétt eins og hann fullyrðir núna að honum sé óheimilt að tjá sig um aðild starfsmanna að lögbrotum og siðleysi. Stefán tók einnig þátt i, með Þórði Snæ Júlíussyni og Aðalsteini Kjartanssyni, að skálda kæru til lögreglu um að skipstjórinn hefði hótað þeim ofbeldi. Kæran var lögð fram til að afvegaleiða umræðuna um byrlunar- og símamálið, eins og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins. Útvarpsstjóri lagði lag sitt við siðlausa blaðamenn, eins og bæði fyrr og síðar.  

Byrlunar- og símamálið þarf að upplýsa. Allir sjá það nema Stefán útvarpsstjóri og blaðamennirnir sem eiga hlut að máli.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég hef margoft komið með athugasemdir við þessi skrif þín varðandi þetta mál. Vonandi verður þetta mál til þess að endurskoða tilgang Rúv á fjölmiðlamarkaðinum. Er ekki alveg nóg að vera með "gömlu gufuna? Þetta Rúv bákn er orðið yfirþyrmandi og verður að linna og burt með "nefskattinn". Þetta mundi spara ríkissjóði milljónir. Það mundi efla innlenda framleiðslu og vera öllum til hagsbóta.  

Sigurður I B Guðmundsson, 22.2.2025 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband