Þriðjudagur, 11. febrúar 2025
Hallgrímur B. Geirsson
Í síðustu viku lést Hallgrímur B. Geirsson fyrrverandi framkvæmdastjóri útgáfufélags Morgunblaðsins. Ég á tvær minningar um Hallgrím og vil halda þeim til haga.
Sú fyrri er liðlega aldarfjórðungsgömul. Laust fyrir aldamót voru nokkrar sviptingar á blaðamarkaði. Ég ritstýrði Helgarpóstinum sem var fjárvana útgáfa en átti fjársterka og vel tengda andstæðinga. Útgáfan komst samtímis upp á kant við Odda, sem prentaði blaðið, og DV-feðga sem gáfu einnig út Dag-Tímann og voru annar meginásinn á blaðamarkaði andspænis Morgunblaðinu. DV-feðgar, Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur sonur hans, sáu fyrir sér að bæta Helgarpóstinum í útgáfusafnið. Starfsmenn og eigendur smáútgáfunnar vildu það síður. Þetta var fyrir daga Fréttablaðsins og lýðnetið rétt að verða til.
Góð ráð voru dýr. Tvær af þrem prentsmiðjum landsins, sem prentuðu í dagblaðabroti, voru óaðgengilegar Helgarpóstinum. Þriðja prentsmiðjan var Morgunblaðsins, sem á þessum tíma var stórveldið. Haft var á orði að sérhvert heimili landsins væri með blaðið í áskrift. Heimili án áskriftar voru ekki vandamál Morgunblaðsins. Vandamálið var heimilanna sjálfra.
Við á Helgarpóstinum höfðum samband við Morgunblaðið upp á von og óvon. Þar svaraði okkur Hallgrímur B. Geirsson með ljúfmennsku og greiðvikni. Hallgrímur sagði efnislega, ég man ekki orðrétt samskiptin, að ekki tjóaði að hákarlarnir réðu einir ferðinni á blaðamarkaði. Mér var minnisstætt þetta viðhorf manns sem bæði var fulltrúi og helsti eigandi stærsta hákarlsins, Morgunblaðsins, og hluti fjölskyldu sem almennt var litið á sem íslenskan aðal. Hallgrímur gaf sér tíma og sýndi velvilja smáútgáfu sem varla tók að ræsa prentvélarnar fyrir.
Síðasta tölublað Helgarpóstsins var prentað sumarið 1997 í prentsmiðju Morgunblaðsins. Hugur okkar sem bárum ábyrgð á útgáfunni stóð til að halda áfram baslinu en óeining var í hlutahafahópum. Í gömlu blaðamennskunni var talað um yndislegt hundalíf en jafnvel rakkarnir þurfa að éta.
Eftir stutt en ánægjuleg samskipti við Hallgrím sumarið 1997 vissi ég ekki af honum þangað til fyrir tveim árum. Ég hafði, sem tilfallandi bloggari, komið mér illa gagnvart ráðandi fjölmiðlaafli, RSK-miðlum, sem vildu með öllum ráðum múlbinda rödd sem gagnrýndi. Þrír blaðamenn stefndu mér fyrir dóm, kröfðust ómerkingar ummæla og miskabóta upp á nokkrar milljónir króna. Einn morguninn vakna ég og sé póst í yahoohólfinu með nafni Hallgríms. Efnisorð póstsins: Þöggunarsamfélag blaða- og fréttamanna.
Í póstinum skrifar Hallgrímur fallega kveðju og hvatningu að láta ekki deigan síga. Hér var hann aftur mættur maðurinn sem ég átti örstutt kynni við fyrir bráðum 30 árum, jafn velviljaður og greiðvikinn. Hann átti mér enga skuld að gjalda, við vorum ókunnugir. Í báðum tilvikum rann Hallgrími til rifja að stórbændur sátu yfir hlut kotbónda á orðsins akri. Það munaði um liðveisluna.
Blessuð sé minning Hallgríms B. Geirssonar.
![]() |
Andlát: Hallgrímur B. Geirsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning