Kennarar óskýrir, án samúðar, lagasetning á dagskrá

Eitt stéttarfélag, KÍ, er með í hendi sér kjarasamninga kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Einokunarstaðan er notuð til skæruverkfalla og hótana um allsherjarverkfall.

Kröfur kennara eru óskýrar. Þeir segjast vilja fá sömu laun og sérfræðingar á almennum vinnumarkaði. En kennarar starfa ekki á almennum vinnumarkaði, þeir eru opinberir starfsmenn. Óbein afleiðing verkfallsaðgerðanna gæti orðið krafa um að brjóta upp skólakerfið, einkavæða til að koma skikki á hlutina. Ótækt er að eitt stéttafélag haldi nemendum og foreldrum á öllu landinu í gíslingu.

Um árabil hafa kjarasamningar kennara gengið út á tvennt. Í fyrsta lagi laun og í öðru lagi starfsskilyrði s.s. kennsluskyldu, viðveru og lengd skólaárs. Núverandi forysta vill aðeins ræða laun, ekki breytingar á starfsskilyrðum. Þó liggur í augum uppi að kennarar hafa í gegnum tíðina fengið hagfelldari starfsskilyrði gegn hóflegri launahækkun. Viðsemjendur kennara, ríki og sveitarfélög, vilja fá eitthvað í staðinn fyrir launahækkanir úr takti við launaþróun annarra stétta.

Tifallandi kenndi í framhaldsskóla í 16 ár. Þegar hann hóf störf árið 2008 fór hann úr stöðu millistjórnanda hjá ríkisstofnun og lækkaði í launum um 20%. Kjarasamningar um miðjan síðasta áratug jöfnuðu þá stöðu og gott betur. Þeir samningar voru á meðal kennara kallaðir læknasamningarnir. Starfsskilyrðin voru þannig að maður kenndi 100% en það var ekki nema 80% prósent vinna eða þar um bil. Þorri kennara vann aukavinnu á dagvinnutíma og hækkaði launin um 20-30 prósent. Starfskjör framhaldsskólakennara voru prýðileg og eru enn.

Sveitarfélögin reka leik- og grunnskóla og starfskjör þar önnur en í framhaldsskólum, sem ríkið ber ábyrgð á. Tilfallandi bloggaði fyrir hálfum mánuði um ólíkar forsendur skólastiga.

Tilfallandi les það í kjaradeiluna að kennarar njóta lítillar samúðar almennings. Skæruliðaverkföllin þóttu ósæmileg, minntu meira á hegðun pólitískra aðgerðasinna en opinberra starfsmanna.

Dragist verkföll á langinn koma fram kröfur um að ríkisstjórnin setji lög á kjaradeiluna. Ef að líkum lætur mun ríkisstjórnin fá pólitískan ávinning af lagasetningu. Kennarar ættu að drífa sig að semja áður en vígstaðan versnar enn. 


mbl.is „Skömm að því“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Venjulega mætti beita verkbanni sem mótleik gegn skæruverkföllum af hálfu stéttarfélags. En það er bara ekki í boði gegn opinberum starfsmönnum og í því ljósi verður væntanlegur dómur Félagsdóms mjög áhugaverður

Grímur Kjartansson, 5.2.2025 kl. 08:48

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Þú ert ekki dómbær um kjör grunnskóla kennara.

Birgir Loftsson, 5.2.2025 kl. 18:28

3 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Grunnskólakennarar eru stundum sjálfum sér verstir. Þeir hafa yfirvinnuna af hvorum öðrum, Kennarar hafa yfir­vinnu af öðrum kennurum - Vísir

Hjartanlega sammála þér, kennarar hafa ekki samúð samfélagsins. Haraldur formaður félags leikskólakennara fór illa að ráði sínu þegar hann atti foreldrum og leiksskólakennurum saman. Ég undraðist þögn hinna forustusauðanna.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 5.2.2025 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband