Miðvikudagur, 5. febrúar 2025
Kennarar óskýrir, án samúðar, lagasetning á dagskrá
Eitt stéttarfélag, KÍ, er með í hendi sér kjarasamninga kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Einokunarstaðan er notuð til skæruverkfalla og hótana um allsherjarverkfall.
Kröfur kennara eru óskýrar. Þeir segjast vilja fá sömu laun og sérfræðingar á almennum vinnumarkaði. En kennarar starfa ekki á almennum vinnumarkaði, þeir eru opinberir starfsmenn. Óbein afleiðing verkfallsaðgerðanna gæti orðið krafa um að brjóta upp skólakerfið, einkavæða til að koma skikki á hlutina. Ótækt er að eitt stéttafélag haldi nemendum og foreldrum á öllu landinu í gíslingu.
Um árabil hafa kjarasamningar kennara gengið út á tvennt. Í fyrsta lagi laun og í öðru lagi starfsskilyrði s.s. kennsluskyldu, viðveru og lengd skólaárs. Núverandi forysta vill aðeins ræða laun, ekki breytingar á starfsskilyrðum. Þó liggur í augum uppi að kennarar hafa í gegnum tíðina fengið hagfelldari starfsskilyrði gegn hóflegri launahækkun. Viðsemjendur kennara, ríki og sveitarfélög, vilja fá eitthvað í staðinn fyrir launahækkanir úr takti við launaþróun annarra stétta.
Tifallandi kenndi í framhaldsskóla í 16 ár. Þegar hann hóf störf árið 2008 fór hann úr stöðu millistjórnanda hjá ríkisstofnun og lækkaði í launum um 20%. Kjarasamningar um miðjan síðasta áratug jöfnuðu þá stöðu og gott betur. Þeir samningar voru á meðal kennara kallaðir læknasamningarnir. Starfsskilyrðin voru þannig að maður kenndi 100% en það var ekki nema 80% prósent vinna eða þar um bil. Þorri kennara vann aukavinnu á dagvinnutíma og hækkaði launin um 20-30 prósent. Starfskjör framhaldsskólakennara voru prýðileg og eru enn.
Sveitarfélögin reka leik- og grunnskóla og starfskjör þar önnur en í framhaldsskólum, sem ríkið ber ábyrgð á. Tilfallandi bloggaði fyrir hálfum mánuði um ólíkar forsendur skólastiga.
Tilfallandi les það í kjaradeiluna að kennarar njóta lítillar samúðar almennings. Skæruliðaverkföllin þóttu ósæmileg, minntu meira á hegðun pólitískra aðgerðasinna en opinberra starfsmanna.
Dragist verkföll á langinn koma fram kröfur um að ríkisstjórnin setji lög á kjaradeiluna. Ef að líkum lætur mun ríkisstjórnin fá pólitískan ávinning af lagasetningu. Kennarar ættu að drífa sig að semja áður en vígstaðan versnar enn.
Skömm að því | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Venjulega mætti beita verkbanni sem mótleik gegn skæruverkföllum af hálfu stéttarfélags. En það er bara ekki í boði gegn opinberum starfsmönnum og í því ljósi verður væntanlegur dómur Félagsdóms mjög áhugaverður
Grímur Kjartansson, 5.2.2025 kl. 08:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning