Sunnudagur, 2. febrúar 2025
Marta María afhjúpar mótsagnir Kristrúnarstjórnar
Snjall viðtengdur pistill Mörtu Maríu útskýrir á sína vísu kjörfylgi Ingu Sæland og Flokks fólksins. Inga lofaði kjósendum fæði, klæði og húsnæði. Marta nefnir dæmi um ungan kjósanda af TikTok-kynslóðinn sem tók Ingu á orðinu og gerðist fylgismaður. Stílfærsla Mörtu:
Með því að kjósa Flokk fólksins myndu þau renna blíðlega og áreynslulaust út úr unglingaherbergi sínu inn í glæsiíbúð með upphengdu klósetti, síðum gluggum, sjálfvirkum bílskúrshurðaropnara og gólfhita. Þau gætu bara haldið áfram að hanga á TikTok, drukkið orkudrykki, troðið í vörina og látið foreldra sína aura á sig daglega til að fjármagna hið ljúfa líf. Inga Sæland myndi svo bara koma, sjá og sigra...
Inga Sæland er ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn til að lofa upp í ermina á sér. Loforðagjarnir stjórnmálamenn eru rukkaðir um efndir. Hafi þeir ekki góða afsökun fyrir að skaffa ekki grefur um sig kergja með fylgismanna.
Með Ingu Sæland í ríkisstjórn eru Samfylking og Viðreisn. Báðir flokkarnir lofa ábyrgum ríkisfjármálum, aðhaldi í rekstri og leita til almennings eftir tillögum um ,,báknið burt." Inga á hinn bóginn ætlar að kæta kjósendur sína með stórfelldum framlögum ríkisins.
Mótsögnin milli eyðslu og ráðdeildar verður ekki leyst nema Inga Sæland láti í minni pokann. Nú eða að hún sannfæri Kristrúnu og Þorgerði Katrínu að auka bæði skattheimtu og útgjöld. Samfylking og Viðreisn myndu ekki ríða feitum hesti frá þeim umskiptum.
Ríkisstjórnir geta lifað með mótsögnum, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir áttu í samfelldu samstarfi í tvö kjörtímabil. En það tók sinn toll. Sjálfstæðisflokkurinn missti forystuhlutverk sitt og Vinstri grænir hurfu af þingi.
Innbyggt í samsteypustjórnir er spenna samstarfsflokka, því meiri sem flokkarnir eru ólíkari. Samfylking og Viðreisn eru í grunninn krataflokkar. Flokkur fólksins er lýðflokkur, menningarlega til hægri en vinstrisinnaður í ríkisútgjöldum.
Pólitíska handavinnan við að halda saman ríkisstjórn gengur einkum út á að takmarka óánægju á tvennum vígstöðum. Í fyrsta lagi innan flokka og í öðru lagi meðal almennings. Aðsteðjandi vandi, til dæmis covid-19, þéttir raðirnar, sameiginlegur óvinur einnig og stór sameignleg verkefni hjálpa til. Kristrúnarstjórnin býr ekki að neinum þessara ytri þátta.
Almennt ríkir velsæld á Íslandi og fólk ætlast til að hún haldi áfram. Lúxusvandi er oft hættulegastur lýðstjórninni.
Fæði, klæði og húsnæði Ingu Sæland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning