Slúður réttlætir ekki byrlun, stuld og afritun

Föstudaginn 21. maí 2021 birtu Stundin og Kjarninn efnislega sömu fréttina um svokallaða skæruliðadeild Samherja. Rétt fyrir hádegi þennan sama dag tók Vísir saman fréttirnar í miðlunum tveim undir fyrirsögninni

„Skæruliðadeild“ Samherja sögð hafa lagt á ráðin um pistlaskrif gegn RÚV og fleirum

Fyrirsögn Vísis og samantekin sjálf sýnir að meint skæruliðadeild Samherja var í raun að vinnufélagarnir Páll skipstjóri Steingrímsson og Arna Bryndís McClure lögfræðingur slúðruðu sín á milli, eða ,,lögðu á ráðin", hvernig mætti verjast árásum RÚV á atvinnuveitanda þeirra, Samherja. Aðkeypt vinna almannatengils kom einnig við sögu.

Slúðrið, eða ráðabruggið, fól ekki í sér neitt ólögmætt. Hvergi kom til tals á milli vinnufélaganna að fremja afbrot af einu eða öðru tagi. Fyrst og fremst var rætt um að rétta hlut Samherja í óvæginni fjölmiðlaumfjöllun.

Almenningur vissi ekki vorið 2021 hvernig Stundin og Kjarninn fengu heimildina sem var tilefni samræmds fréttaflutnings tveggja fjölmiðla. Síðar, eftir að lögreglurannsókn hófst, kom á daginn að blaðamenn á RSK-miðlum, RÚV, Stundin og Kjarninn, unnu saman á bakvið tjöldin og voru í sambandi við andlega veika þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra.

Konan byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og lét í hendur Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Þóra hafði fyrir byrlun keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Afritunarsíminn varð að vera af réttri gerð, annars var ekki hægt að afrita. Hvernig skyldi Þóra vita hvaða gerð af símtæki hún átti að kaupa? 

Á Efstaleiti var sími skipstjórans afritaður á símann sem Þóra hafði keypt. Síma skipstjórans var skilað á sjúkrabeð hans á Landsspítala þar sem hann var í gjörgæslu. Skipstjórinn skyldi vera grunlaus um að síma hans hafði verið stolið til afritunar á RÚV. Tvær útgáfur sömu fréttar voru skrifaðar á RÚV og sendar til Stundarinnar og Kjarnans til samræmdrar birtingar.

Það sem fór á milli Páls skipstjóra og Örnu Bryndísar lögfræðings var spjall vinnufélaga um að koma á framfæri mótmælum við einhliða fréttaflutningi. Eins og oft á tveggja manna tali, þar sem trúnaður ríkir, var iðulega látið vaða á súðum.

Vörn RSK-blaðamanna er að samskipti Páls og Örnu Bryndísar hafi átt erindi til almennings. Það er álitamál hvort tveggja manna slúður og ráðabrugg í hálfkæringi eigi heima í umræðunni. Hitt er öllum ljóst að aðild blaðamanna að hreinum og klárum lögbrotum hlýtur að eiga erindi til almennings. Fordæmið sem RSK-blaðamenn setja er tvíþætt. Í fyrsta lagi að enginn munur sé gerður á einkasamtölum og opinberri umræðu. Í öðru lagi að sjálfsagt sé að fólki sé byrlað, eigum þess stolið og friðhelgi brotin til að koma einkamálum á framfæri í fjölmiðlum.

Allir, sem kynna sér byrlunar- og símamálið, sjá í hendi sér að RSK-blaðamenn eru þeir sem eiga að svara til saka fyrir að hafa farið offari, svo vægt sé til orða tekið. En þeir þegja allir sem einn, upplýsa ekkert um málsatvik. Sama gildir um yfirmann RÚV, Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Aðrir fjölmiðlar láta gott heita að mesta hneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu liggi í láginni. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband