Mánudagur, 20. janúar 2025
Kristrún slær úr og í með ESB, grefur sér gröf
Ekkert ríki, sem gengur í Evrópusambandið, gerir það með hangandi hendi. Frumforsenda fyrir inngöngu er að ríkisstjórn hafi fengið meirihluta í þingkosningum fyrir þeirri stefnu að sækja um aðild og fara í aðlögunarviðræður. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann, skoða hvaða kjör bjóðast í Brussel.
Ríkisstjórnarflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins fengu ekki atkvæði út á aðildarumsóknsókn að ESB í nýafstöðum kosningum. Aðildarumsókn var einfaldlega ekki á dagskrá í kosningabaráttunni.
Það eru hrein svik við kjósendur þessara flokka að ríkisstjórnin dufli og daðri við ESB.
Það sem meira er þá er frámunalega heimskulegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að gefa til kynna forathugun að ESB-aðild og jafnvel undirbúning. Afleiðingin verður að öll mál ríkisstjórnarinnar verða skoðuð m.t.t. ESB-aðildar. Það felur í sér að miklu harðari mótspyrnu en annars yrði.
ESB-aðild er ekki eins og hvert annað pólitískt álitamál. Í húfi er fullveldi þjóðarinnar. Fullveldi vinnst og tapast á áratugum og öldum. Ísland glataði fullveldinu á 40 ára tímabili á 13. öld sem kennt er við Sturlunga. Sjö öldum síðar vannst það á ný eftir skipulega baráttu í hartnær hundrað ár.
Kristrúnu forsætis var á fermingaraldri í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. sem sendi inn ESB-umsókn fyrir 16 árum. Stjórnarskrármál þeirrar ríkisstjórnar var dauðanum merkt. Stjórnarskrárbreytingar voru túlkaðar sem upptaktur ESB-aðildar. Tillögur um fiskveiðistjórn sömu stjórnar voru lesnar og skildar sem undirbúningur að flytja forræði auðlindarinnar til Brussel.
Það er ekki nokkur einasti möguleiki að þjóðarvilji Íslendinga standi til ESB-aðildar. Evrópusambandið er í hnignunarferli. Næstu ár og áratugir fara í að glíma við Rússland sem mun standa með óvígan her á landamærum ESB-ríkja. Ef svo fer, sem sumir spá, að aukin ógn verði af Rússum á Norður-Atlantshafi er ekkert hald í ESB-hervernd. Í öryggis- og varnarmálum á nærsvæðum Íslands er ESB núll og nix.
ESB-daður Kristrúnar og Þorgarðar Katrínar utanríkis sýnir þær torlæsar á alþjóðmál. Báðar hjala þær um Úkraínu, sem er í órafjarlægð frá Íslandi og skiptir nákvæmlega engu um öryggismál lands og þjóðar. Daðrið verður þeim myllusteinn um háls í pólitískri vegferð næstu missera - í öllum málum.
![]() |
Til Brussel til að koma á eðlilegum samskiptum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það versta er að blekkingum er haldið á lofti til að fá fólk til liðs við málstaðinn. Þannig hélt umhverfisráðherra að bókun 35 hefði reddað Hvammsvirkjun sem á sér enga stoð í veruleikanum. Í annan stað sagði Þorgerður að við fengum bóluefni vegna covid vegnaþess að Svíþjóð væri í ESB. Hins vegar getur almenningur engan veginn sagt til um það því bóluefnasamningum er haldið fjarri almenningi í tugi ára.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um samning er markleysa, bæði vegna sótt er um eða ekki og það þarf að breyta stjórnarskránni en ekkert er minnst á slíkt. Tala ekki um kostnaðinn við að sækja um og hversu mörg ár það tekur.
Blekkingarnar munu koma í bakið á þeim enda þessi vegferð algert rugl og hvernig ætla þær að spila úr höfnun í atkvæðagreislu?
Rúnar Már Bragason, 20.1.2025 kl. 12:27
Sammála, enda er mér fyrirmunað að skilja, hvernig stendur á því, að kjósendur, sem í skoðanakönnunum höfnuðu aðild að ESB skömmu fyrir kosningarnar, skyldu detta í hug að kjósa svo þá flokka til að stjórna landinu, sem vitað er, að snúast um lítið annað en ESB-aðild Íslands, sama hvað þær Kristrún og Þorgerður Katrín og þeirra lið eru að blaðra í þeim efnum, og þverneita með öllu, að þær stefni með land og þjóð inn í ESB. Það er ekki hægt að taka nokkurt einasta mark á því blaðri, sem þær voru með fyrir kosningar, og röfl um eiithvað "plan" hjá Kristrúnu, sem reynist svo innihaldslaust og tóm tjara. Ég treysti ekki þessum manneskjum til að stjórna landinu af nokkru viti, og vona, að ný og gáfulegri ríkisstjórn verði mynduð á vordögum eða um sumarmál, sem getur haldið því góða verki, sem fyrrverandi stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, voru að vinna að af krafti. Fólk lét blekkjast af blaðrinu um eitthvað "plan", sem Kristrún var alltaf að þvæla um, sem reynist svo autt blað, þegar til á að taka. Þetta er hreinasta hörmung. Ég get ekki sagt annað.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir, 20.1.2025 kl. 14:24
Íslenska þjóðin hefur ekki minnstu hugmynd um þsð hvað það þýðir fyrir Ísland að ganga inn í ólýðræðislegt sambandsríki þar sem lög og reglur eru samdar af andlitslausum embættismönnum, sem við höfum aldrei séð og munum aldrei sjá eða heyra. RÚV hefur algjörlega brugðist þjóðinni að venju í að upplýsa hana um þær breytingar sem yrðu á íslensku þjóðfélagi við inngöngu í ESB. Innganga í ESB myndi einfaldlega eyðileggja Ísland og allt það sem við teljum vera íslenskt.
Júlíus Valsson, 20.1.2025 kl. 17:00
Til að geta veitt ESB pólitískt hæli í Reykjavík, þarf hælisveitandinn líklega að vera gildur limur.
Guðjón E. Hreinberg, 20.1.2025 kl. 22:27
Við eigum að hætta að tala um að "kíkja í pakkann". Í dag er pakkinn það Pandórubox sem við eigum að halda okkur sem lengst frá.
Ragnhildur Kolka, 20.1.2025 kl. 23:52
Stjórnarskráin leyfir ekki ESB aðild.
Engin þjóðaratkvæðagreiðsla getur breytt því.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2025 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.