Sunnudagur, 12. janúar 2025
Dagur gegn Kristrúnu
Fyrrum formaður Samfylkingar, Oddný Harðardóttir, skrifar færslu á samfélagsmiðil að Dagur B. Eggertsson fyrrum borgarstjóri verði aldrei aukaleikari í pólitík. Færsla Oddnýjar er ekki tilviljun.
,,Dagur er aukaleikari," skrifaði Kristrún formaður til kjósanda fimm vikum fyrir kosningar. Dagur hafði í óþökk Kristrúnar fengið sig samþykktan inn á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík-norður. Jafnframt skrifaði hún að fyrrum borgarstjóri yrði ekki ráðherra í ríkisstjórn sem Samfylking ætti aðild að. Það gekk eftir, Dagur fékk ekki ráðherraembætti. Hann vonaðist til að fá í sárabætur þingflokksformennsku. En, nei, Kristrún valdi nýliða á alþingi fram yfir Dag til að vera talsmenn þingflokksins.
Oddný, fyrrum formaður, skrifar ekki stuðningsyfirlýsingu fyrir Dag upp úr þurru. Færsla Oddnýjar er liður í að skapa fyrrum borgarstjóra sóknarfæri innan og utan Samfylkingar.
Á alþingi er enginn flokkur til til vinstri við Samfylkinguna. Aftur eru úti í samfélaginu afgangurinn af Pírötum og Vinstri grænum. Innan Samfylkingar eru öfl sem ekki skrifa upp á stefnu og áherslur formannsins.
Útspil Oddnýjar þjónar þeim tilgangi að búa í haginn fyrir Dag sem gagnrýnanda ríkisstjórnarinnar frá vinstri. Kristrún er skilgreind sem hægrikrati. Svigrúm er frá vinstri til að andæfa.
Ríkisstjórn Kristrúnar fær friðhelgi fyrir alvarlegri gagnrýni fyrstu þrjá til fimm mánuðina, líkt og nýjar ríkisstjórnir almennt. En frá og með næsta hausti er kominn stjórnarferill og þar með fóður til að hampa valkostum. Skoðanakannanir munu sýna fall í vinsældum stjórnarflokkanna, gera það nær alltaf. Undir þeim kringumstæðum er hugsun Oddnýjar, og fleiri vinstrikrata, að Dagur verði þeirra talsmaður.
Sjálfur mun Dagur sleikja sárin næstu vikur og mánuði og ígrunda stöðu sína.
Dagur verði aldrei aukaleikari í pólitík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning