Friður í Úkraínu 2025

Í ár verður saminn friður í Úkraínu. Fjórar meginástæður eru fyrir þeirri spá. Í fyrsta lagi er kostnaður ESB-Evrópu orðinn það mikill ekki verður lengur við unað. Refsiaðgerðir gegn Rússlandi bitna ekki síður á ESB-ríkjum en Rússum. Stuðningur við Úkraínu meðal almennings í Evrópu fer þverrandi.

Í öðru lagi lofaði Trump að ljúka stríðinu. Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna eftir tæpar þrjár vikur. Hann mun leggja sig fram um að stilla til friðar. Takist það ekki á árinu verður Úkraínustríðið hans að verja það sem eftir lifir kjörtímabilsins. 

Í þriðja lagi sjá Rússar ekki lengur fram á úrslitasigur á vígvellinum. Nær allt nýliðið ár vegnaði Rússum vel, ef frá er skilin árangursrík innrás Úkraínu í Kúrsk-hérað. En velgengni Rússa á vígaslóð er hæg og kostnaðarsöm, bæði í eignum og mannslífum. Þótt enn verði ekki vart við andstöðu almennings í Rússlandi gegn stríðinu er ekki sami stuðningurinn og sást í upphafi stríðsátaka.

Í fjórða lagi vex hættan af stigmögnun er stríðið dregst á langinn. Báðir aðilar, vestrið og Rússar, lögðu í upphafi áherslu á að takmarka stríðsátökin við Úkraínu. Rússar kölluðu innrásina sérstaka stríðsaðgerð og vestrið hamlaði og hamlar enn Úkraínuher að nota langdræg vestræn vopn gegn Rússum. Stjórnin í Kænugarði vill ólm víkka út stríðið, gera það að beinum átökum Nató-ríkja og Rússa, en það hefur ekki tekist enn sem komið er. En sú hætta vofir yfir.

Úkraínustríðið verður þriggja ár næst komandi febrúar. Ef gefið er að stórbreytingar verði ekki á stríðsgæfunni, öðrum hvorum aðila í vil, verður vopnahlé á dagskrá í sumar eða haust. Það skal viðurkennt að óskhyggja litar spá um frið í stríðinu sem aldrei átti að heyja. Von er þekkilegri en bölsýni. 


mbl.is Loka fyrir gasflutning frá Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Sterkasti leikur Pútíns er sennilega að koma með borðliggjandi tillögu um vopnahlé um leið og Trump tekur við lyklavöldunum í Hvíta húsinu.

Selenski reynir náttúrlega að finna vopnahléstillögunni allt til foráttu en þá er hægur vandi að beita hann efnahagsþvingunum

Grímur Kjartansson, 2.1.2025 kl. 13:47

2 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Undir hvaða kringumstæðum munu Úkraínumenn gefast upp?  Ertu viss um nema að þeir berjist til síðasta manns?

Kjartan Eggertsson, 2.1.2025 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband