Miðvikudagur, 1. janúar 2025
Kristrún: nýtt upphaf án breytinga
Í áramótagrein í Morgunblaðinu skrifar Kristrún forsætisráðherra og formaður Samfylkingar:
Ljóst er að niðurstöður þingkosninga þann 30. nóvember voru sögulegar á marga lund. Þjóðin valdi nýtt upphaf.
Kristrún vekur athygli á að ný ríkisstjórn markar hrein stjórnarskipti, sem heyrir til undantekninga í íslenskum stjórnmálum. Að því leytinu er um að ræða nýtt upphaf. En það þýðir ekki uppstokkun eða róttækar breytingar, skrifar forsætisráðherra:
Í ríkisstjórn er full eining um að ekki verði eytt um efni fram. Það er lykilatriði.
Á milli þessara tilvitnana í áramótagrein Kristrúnar er kafli sem heitir ,,Breytt Samfylking." Það má lesa kaflann þannig að áður en Kristrún tók við sem formaður hafi Samfylkingin verið óstjórntækur flokkur en nú sé öldin önnur. Til staðfestingar muni Kristrúnarstjórnin kappkosta varkárni og aðhald, ekki síst í ríkisfjármálum.
Aðstæður eru hagfelldar nýrri stjórn. Vextir eru á niðurleið, hlutabréfamarkaður á uppleið og ekkert er atvinnuleysið. Í þjóðfélaginu er ekki stemning fyrir róttækum aðgerðum í kjarabaráttu, eins og misheppnað kennaraverkfall sýndi. Ný ríkisstjórn þarf ekki í bili að óttast átök á vinnumarkaði.
Til að létta ríkisstjórninni enn róðurinn féllu af alþingi óreiðuöfl eins og Vinstri grænir og Píratar. Stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknar mun ekki stunda upphlaupspólitík, það liggur ekki í eðli þessara flokka.
María Rut Kristinsdóttir, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, skrifar pistil í leiðaraopnu Morgunblaðsins og biður um að árið 2025 verði ár hversdagsleikans. Þær kallast á María Rut og Kristrún. Nýtt upphaf án breytinga.
Veraldargengið er fallvalt. Ef skoðanakannanir sýna dalandi fylgi stjórnarflokkanna, einkum og sérstaklega ef einn flokkur fær verri útreið en hinir tvær, er hætt við að reyni á þanþol samstarfsins.
Ný ríkisstjórn virðist meðvituð um að flýta sér hægt og vanda til verka. Góður hugur veit á farsælan leiðangur. Aftur er pólitíkin með þeim einkennum að ófyrirséð mál dúkka upp. Er sá tími kemur er góður hugur eitt. Annað og meira er traust á milli aðila.
Gleðilegt nýtt ár.
Einsett sér að standa undir væntingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning