Þriðjudagur, 31. desember 2024
Legvandi karla, lífaldur og málfrelsi
Í Morgunblaðinu í gær var grein eftir Jón Sigurgeirsson lögfræðing til varnar trans. Jón skrifar:
Einstaklingur með leg sem upplifir sig sem eitthvað annað en konu hefur rétt á að vera það meðan viðkomandi gengur ekki á rétt annarra. Það er kjarninn í vestrænum frelsishugmyndum.
Rétt hjá Jóni, hver og einn má skilgreina sjálfan sig hvernig sem vera skal. Fimmtugur karlmaður má upplifa sjálfan sig sem tvítuga stúlku. Þrítug kona er í fullum rétti að skynja sjálfa sig sem sjötugan karl.
Nei, bíðum aðeins við. Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði má aðeins skipta um kyn í huga sér, og fá nýja kynið skjalfest í þjóðskrá. Ekki er leyfilegt að breyta lífaldri. Þó er transaldur þekkt hugtak, transage á útlensku. Transaldur er skynjaður aldur, sem getur verið allt annar en lífaldur. Rétt eins og raunkyn, líffræðilegt kyn, er óbreytanlegt þótt huglæg upplifun sé önnur er lífaldur óbreytanlegur. Að vera ungur í anda er eitt. Annað og ótækara er að aldur sé ímyndunin ein.
Samfélagið verður ekki starfhæft ef grunnstaðreyndir um manninn eru háðar hugdettum. En allir hafa fullt frelsi til að vera í huga sér eitthvað allt annað en líffræðin og lífaldur upplýsa. Það skilur á milli feigs og ófeigs að réttur eins til ímyndunar felur ekki í sér að aðrir skuli tileinka sér ranghugmyndina.
Jón skrifar ekki um transaldur, aðeins transkyn. Tilgangur greinar Jóns er að mótmæla blaðagrein Snorra Mássonar þingmanns sem harmar að ríkissaksóknari ákæri þá sem gagnrýna transboðskapinn. Tilfallandi ræddi grein Snorra fyrir skemmstu.
En aftur að frelsinu til að skilgreina sjálfan sig. Um leið og einhver skiptir um kyn, eða aldur, geta orðið til ný réttindi sem viðkomandi hafði ekki áður. Það sem meira er þá geta einhverjir aðrir tapað rétti sem var helgur fyrir daga trans. Karl sem ákveður að verða transkona fær aðgang að rýmum sem eingöngu eru ætluð konum, t.d. kvennasalernum og búningsaðstöðu kvenna í íþróttahúsum og sundlaugum. Konum mörgum hverjum er alls ekki um það gefið. Inga Sæland, nýorðin ráðherra, skrifaði snarpa ádrepu til varnar frelsi kvenna að athafna sig á kyngreindum salernum.
Karlkonur krefjist aðgangs að mæðradeildum sjúkrahúsa. Í Bretlandi mæta karlkonur með líffræðileg æxlunarfæri sín en heimta meðferð eins og þær væru konur:
Tölfræði frá Wales og Englandi sýnir að 482 sjúklingar hafa verið skráðir inn sem konur, þrátt fyrir að eiga í vandræðum með blöðruhálskirtil, eistu eða getnaðarlim.
Karlar í kvenlíki vilja fá aðgang að kvennaíþróttum. Það stórlega skerðir réttindi og frelsi kvenna til að keppa á jafnréttisgrunni. Karlar eru frá náttúrunnar hendi með meiri líkamsmassa en konur og hafa að jafnaði betur í keppni við konur. Jafnvel í íþróttum þar sem ekki reynir á líkamsstyrk, t.d. skák, eru kyngreind keppnismót. Annars tækju karlkonur öll verðlaunin.
Þegar kemur að lífaldri og transaldri er nóg að vekja athygli á að fengi fólk rétt til að skrá aldur sinni samkvæmt huglægri upplifun yrðu allir lífeyrissjóðir gjaldþrota á augabragði og almannatryggingakerfið sömuleiðis. Ástæðan er sú að margir myndu skilgreina aldur sinn sjötugt og fá ókeypis pening - ellilífeyri. Þeir sem halda annað bera lítið skynbragð á mannlífið.
Fullyrðing Jóns um að þeir sem skilgreina sjálfa sig annað en það sem þeir eru, hvað kyn og aldur áhrærir, gangi ekki á rétt annarra eru staðlausir stafir. Karl sem þykist kona gengur á rétt kvenna. Fertugur sem segist sjötugur gengur á rétt þeirra sem í reynd eru sjötugir. Við þurfum ekki að ræða skelfinguna er fullorðnir haldnir ranghugmyndum tæla börn.
Fólk má tileinka sér ranghugmyndir og stofna um þær samtök. En við öll höfum málfrelsi til að andmæla að firrur einstakra séu teknar góðar og gildar almennt í samfélaginu. Áhyggjuefni er að á árinu sem er að líða beitir ríkissaksóknari sér fyrir að málfrelsið sé skert í þágu sérviskunnar. Tilfallandi var í haust ákærður fyrir hatursorðræðu er hann gangrýndi aðgang Samtakanna 78 að leik- og grunnskólum með þann boðskap að sumir séu fæddir í röngu kyni. Réttarhald verður á nýju ári.
Athugasemdir
Páll, þú ert Galileo Galilei okkar tíma.
Ragnhildur Kolka, 31.12.2024 kl. 09:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.