Trump, Grænland, Ísland og ESB-Evrópa

Trump verðandi forseti Bandaríkjanna vill kaupa Grænland. Spaugið hylur þá alvöru að Grænland er lífsnauðsynlegt Bandaríkjunum í öryggis- og varnarmálum. Grínið er leyfilegt þar sem Grænland er undir forræði smáríkis á meginlandi Evrópu, Danmörku. Að Grænland er á forræði Dana er sögulegur brandari. Danir fengu stærstu eyju heims gefins er norska konungdæmið rann inn í það danska á miðöldum.

Ísland fylgdi Grænlandi og Noregi inn í ríki Danakonungs á 14. öld. Færeyjar voru hluti af sama pakka og raunar einnig eyjar norður af Skotlandi.

Ástæða er að rifja upp söguleg umbrot sem gáfu þá kyndugu niðurstöðu að landbúnaðarríkið Danmörk eignaðist á einu bretti helstu eyjar á Norður-Atlantshafi. Eyjarnar byggðust norrænum mönnum, einkum norskum, á miðaldahlýskeiðinu um 900-1300. Norska konungdæmið hóf útþensluskeið er leið á tímabilið og fékk forræði yfir eyjunum, fyrst Færeyjum en síðast Íslandi eftir innanlandsófriðinn sem kenndur er við Sturlungaöld. Svarti dauði gekk nærri norska konungdæminu. Veðurfarstímabil, kennt við litlu ísöld, um 1300-1900, gerði illt verra. Noregur varð hjáríki kóngsins í Kaupmannahöfn, fékk ekki fullveldi fyrr en snemma á 20. öld. Danmörk sat uppi með eyjagóssið, án þess að hafa unnið til þess og litla burði til að verja eigur sínar. Eins og kom á daginn í seinni heimsstyrjöld.

Söguleg umbrot standa yfir í Evrópu þessi árin. Hvorki eru það loftslagsbreytingar né farsóttir sem knýja áfram framvindu mála heldur stríðsátök, líkt og löngum áður. Úkraínustríðið mun breyta Evrópu varanlega, hvort heldur að Rússar tapi eða sigri. Í tilfelli rússnesks ósigurs glímdi Evrópa við upplausn kjarnorkuveldis í túnfætinum. Sigri Rússar stendur á sama túnfæti óvígur her 140 milljón manna þjóðar með gnótt náttúruauðlinda. Evrópa, í merkingunni Evrópusambandið, er í báðum tilvikum með ærið verkefni næstu áratugina í austurvegi sem lítt eru fallin til að styrkja sambandið. Þvert á móti, öll rök standa til hnignunar.

Bandaríkin, burtséð frá Trump, líta ekki lengur á meginland Evrópu sem sitt kjarnasvæði, líkt og þau gerðu eftir seinna stríð. Öryggishagsmunir Bandaríkjanna í austurátt liggja á Norður-Atlantshafi. Á dögum kalda stríðsins var talað um GIUK-hliðið, kennt við Grænland, Ísland og Bretlandseyjar. GIUk verður borgarhlið Bandaríkjanna gagnvart ESB-Evrópu. Dálkahöfundur Telegraph í Bretlandi spyr í hálfkæringi hvort ekki sé einfaldast að eyríkið verði 51sta fylki Bandaríkjanna. Bretar sjá tilvistarvanda nágranna sinna á meginlandinu.

Vötn falla ekki til Brussel heldur öll til Washington. Í Reykjavík sitja aftur stjórnvöld sem stefna Íslandi út i óvissuna með æ nánari tengslum við hnígandi sól ESB-Evrópu. Það þjónar hvorki hagsmunum Íslands í bráð né lengd að landið verði bitbein stórvelda. Grínið um bandarísk kaup Grænlands er dauðans alvara.

 


mbl.is „Guð forði okkur frá því“ að Ísland missi tengslin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Mér dettur í hug að Trump sé að undirbúa friðarviðræður vegna Úkraínu með þessu ,,landvinningatali” sínu. Þegar samningar nást getur hann sagt við brjálaða gagnrýnendur: ,,Hvaða hvaða, ég ætla nú sjálfur að taka Kanada og Grænland, já og meðan ég man, Panamaskurðinn líka. Get nú varla rétt á meðan verið að skamma Pútín fyrir að fara inn í sinn eigin bakgarð.”  

Baldur Gunnarsson, 28.12.2024 kl. 10:19

2 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Á meðan Þjóðverjar eru að íhuga útgöngu úr evrópusambandinu þá ætlum við að reyna að smokra okkur inn í hakkavélina. Mér þykir ekki líklegt að eu þrauki áratuginn. Það þarf ekki skarpan mann til að sjá að þessir heimsmeistarar í sukki og regluverki voru dæmdir til að falla bara spurning um tíma.

Kristinn Bjarnason, 29.12.2024 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband