Sunnudagur, 22. desember 2024
ESB-eitur í nammipoka valkyrja
ESB-eitrið er neðst í nammipoka valkyrjustjórnarinnar. Í síðasta tölulið stefnuyfirlýsingar segir að árið 2027 verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ,,framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu." Framhald? Eftir tvö ár eru 15 ár síðan vinstristjórn Jóhönnu Sig. heyktist á ESB-aðlögunarferlinu og setti umsóknina ofan í skúffu.
Valkyrjurnar kynntu stjórnarsáttmálann í Hafnarfirði, eina bæjarfélaginu á Íslandi sem kennt er við brandara. Spaugið um ,,framhald" á viðræðum sem lauk fyrir 15 árum er lélegur Hafnarfjarðarbrandari.
Til að undirbyggja atkvæðagreiðsluna verður skipuð nefnd útlendinga til að meta kosti og galla krónunnar, sagði kúlulánadrottning Íslands í krónum talið. Er ekki næst að fá útlendinga til að meta kosti og galla íslenskunnar?
Pólitísk bernska er að halda að ríkisstjórn í fullvalda þjóðríki hefji ESB-leiðangur sem aukamarkmið í ríkisstjórnarsamstarfi. Breið samstaða um kosti aðildar er forsenda fyrir að þjóðríki stefni á aðild. Eini flokkurinn með ESB-aðild á dagskrá, Viðreisn, fékk 15,8 prósent fylgi í nýafstöðnum kosningum. Enginn ríkisstjórn með viti boðar ESB-aðild með jafn veikt umboð.
Er Þorgerður Katrín kynnti ESB-eitrið i brandarabænum talaði hún fjálglega um mikilvægi samstarfsins við Bandaríkin og hafði fyrir því að nefna varnarsamninginn frá 1951. En samt vill hún, sem utanríkisráðherra, að Ísland gangi í ESB. Brussel sér um utanríkismál aðildarríkja ESB. Yrði Ísland hjálenda ESB færu samskipti okkar við Bandaríkin í gegnum Brussel. Þeir sem fylgjast með alþjóðamálum vita að ESB stendur frammi fyrir tilvistarvanda sem kallast Úkraínustríðið.
Valkyrjur í syngjandi saumaklúbbi hugsa lítt um pólitískan veruleika, eru of uppteknar á deila út nammi á litlu jólunum. Skjólstæðingar flokkanna þriggja fá gott í skóinn. Jafnvel er hugsað fyrir smælingjunum; þingflokksformaður fær aðgang að meðferðarúrræðum að sumri til. Flokksheimilin þrjú eru í forgangi, þjóðarheill afgangsstærð.
Valkyrjurnar gátu farið aðra leið en að deila út nammi. Kvennaþríeyki í forystu landsstjórnarinnar í fyrsta sinn í sögunni hefði mátt hugsa stærra en í brauðmolum.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í heild sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eftir allt eiga svo að þola glottið í miðri kollhríðinni,en Valkyrjan Er!
Helga Kristjánsdóttir, 22.12.2024 kl. 12:50
"útlendinga til að meta" ætli það verði sömu útlindingar og gáfu íslensku bönkunum bestu einkunn korter fyrir hrun
Varla er þeim treystandi þó Þorgerður hafi sent þá í "endurmenntun"
Grímur Kjartansson, 22.12.2024 kl. 15:46
Stjórnarskráin leyfir ekki ESB aðild og þingmenn verða að vinna drengskaparheit að henni. Engin þjóðaratkvæðagreiðsla getur breytt því.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.12.2024 kl. 17:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.