ESB-eitur í nammipoka valkyrja

ESB-eitrið er neðst í nammipoka valkyrjustjórnarinnar. Í síðasta tölulið stefnuyfirlýsingar segir að árið 2027 verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ,,fram­hald viðræðna um aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu." Framhald? Eftir tvö ár eru 15 ár síðan vinstristjórn Jóhönnu Sig. heyktist á ESB-aðlögunarferlinu og setti umsóknina ofan í skúffu.

Valkyrjurnar kynntu stjórnarsáttmálann í Hafnarfirði, eina bæjarfélaginu á Íslandi sem kennt er við brandara. Spaugið um ,,framhald" á viðræðum sem lauk fyrir 15 árum er lélegur Hafnarfjarðarbrandari.

Til að undirbyggja atkvæðagreiðsluna verður skipuð nefnd útlendinga til að meta kosti og galla krónunnar, sagði kúlulánadrottning Íslands í krónum talið. Er ekki næst að fá útlendinga til að meta kosti og galla íslenskunnar?

Pólitísk bernska er að halda að ríkisstjórn í fullvalda þjóðríki hefji ESB-leiðangur sem aukamarkmið í ríkisstjórnarsamstarfi. Breið samstaða um kosti aðildar er forsenda fyrir að þjóðríki stefni á aðild. Eini flokkurinn með ESB-aðild á dagskrá, Viðreisn, fékk 15,8 prósent fylgi í nýafstöðnum kosningum. Enginn ríkisstjórn með viti boðar ESB-aðild með jafn veikt umboð.

Er Þorgerður Katrín kynnti ESB-eitrið i brandarabænum talaði hún fjálglega um mikilvægi samstarfsins við Bandaríkin og hafði fyrir því að nefna varnarsamninginn frá 1951. En samt vill hún, sem utanríkisráðherra, að Ísland gangi í ESB. Brussel sér um utanríkismál aðildarríkja ESB. Yrði Ísland hjálenda ESB færu samskipti okkar við Bandaríkin í gegnum Brussel. Þeir sem fylgjast með alþjóðamálum vita að ESB stendur frammi fyrir tilvistarvanda sem kallast Úkraínustríðið. 

Valkyrjur í syngjandi saumaklúbbi hugsa lítt um pólitískan veruleika, eru of uppteknar á deila út nammi á litlu jólunum. Skjólstæðingar flokkanna þriggja fá gott í skóinn. Jafnvel er hugsað fyrir smælingjunum; þingflokksformaður fær aðgang að meðferðarúrræðum að sumri til. Flokksheimilin þrjú eru í forgangi, þjóðarheill afgangsstærð.

Valkyrjurnar gátu farið aðra leið en að deila út nammi. Kvennaþríeyki í forystu landsstjórnarinnar í fyrsta sinn í sögunni hefði mátt hugsa stærra en í brauðmolum.  

 

 


mbl.is Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í heild sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Eftir allt eiga svo að þola glottið í miðri kollhríðinni,en Valkyrjan Er! 

Helga Kristjánsdóttir, 22.12.2024 kl. 12:50

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

"útlendinga til að meta" ætli það verði sömu útlindingar og gáfu íslensku bönkunum bestu einkunn korter fyrir hrun
Varla er þeim treystandi þó Þorgerður hafi sent þá í "endurmenntun"

Grímur Kjartansson, 22.12.2024 kl. 15:46

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stjórnarskráin leyfir ekki ESB aðild og þingmenn verða að vinna drengskaparheit að henni. Engin þjóðaratkvæðagreiðsla getur breytt því.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.12.2024 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband