Miðvikudagur, 18. desember 2024
Góðæri skapar ríkisstjórnarvanda
Engir þingmenn væntanlegra stjórnarflokka vilja tjá sig um gang viðræðna; þeir vísa á formennina. Þær Inga, Kristrún og Þorgerður Katrín segja næsta fátt en bjóða reglulega upp á myndatöku af sér saman.
Tveir ólíkir mælikvarðar verða lagðir á niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna. Í fyrsta lagi hvort stjórnarsáttmálinn byggi á trúverðugu stöðumati um landshagi almennt annars vegar og hins vegar hvert stjórnin hyggst stefna með land og þjóð. Ef ekki tekst þokkalega til með þennan þátt verður erfitt að selja þjóðinni nýja ríkisstjórn. Í öðru lagi þarf stjórnarsáttmáli að endurspegla áherslumál flokkanna þriggja í nýafstöðnum þingkosningum. Formenn og þinglið þriggja ólíkra flokka verða að geta sagt baklandinu frá markverðum árangri.
Þjóðarskútan siglir þokkalegan byr nú um stundir. Verðbólga fer lækkandi og hagvaxtarhorfur prýðilegar. Engin stórverkefni blasa við og enn síður brýnar aðgerðir, nema ef vera skyldi í útlendingamálum. Fyrir þjóðina er árferðið blessun. Væntanlegir stjórnarflokkar sakna á hinn bóginn aðsteðjandi vanda til sameinast gegn.
Það sást best fyrir helgi þegar reynt var að leggja út afkomuspá ríkissjóðs sem ógnandi fyrir stöðugleika og, ekki síst, að spáin tefði viðræður. Kunnáttumenn á sviði ríkisfjármála gáfu lítið fyrir tíðindin. Fréttin um verri afkomu dó á sólarhring. Þvert á móti eru æ skýrari merki um afkomubata til sjávar og sveita.
Í góðæri er landsstjórnin erfiðari en í hallæri. Kröfur um aukin efnisleg lífsgæði vaxa hraðar en hagvöxtur. Næsta ríkisstjórn getur ekki þakkað sér góðærið en verður refsað grimmt klúðri hún hagstjórninni.
Samhliða textagerð stjórnarsáttmála er ráðuneytum skipt á milli flokka. Það getur reynst snúið, bæði á milli flokka og innan þingflokka. Sísvengd eftir metorðum er aðalsmerki stjórnmálamanna.
Í stjórnarmyndunarferlinu, sem staðið hefur í 15 daga, er fátt bitastætt að frétta. Stjórn þriggja flokka er verkefni sem lætur ekki að sér hæða. Konurnar þrjár sem um véla segjast vanda sig. Í stjórnarsáttmálanum, líti hann dagsins ljós, sést hvort kastað hefur verið til höndum eða ígrundun liggi að baki.
Viðræðurnar stranda ekki á neinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góöur pistill Páll. Vanir menn sjá strax hvort kastað er til höndum við gerð Stjórnarsáttmálans,en er nema einn réttkjörinn sem að metur það? Forseti Íslands.
Helga Kristjánsdóttir, 18.12.2024 kl. 14:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.