Þriðjudagur, 17. desember 2024
Mannvirðing, kynfölsun og kirkjan
Mannvirðing og mannhelgi haldast í hendur í yfirlýsingu Páfagarðs frá í vor, Dignitas Infinita. Yfirlýsingin er niðurstaða fimm ára umræðu kaþólsku kirkjunnar. Mannvirðing felur í sér fjóra þætti, þar sem einn er mikilvægastur, sá verufræðilegi. Verufræði, ontólógía á útlensku, vísar til þess sem er. Þjálla er á íslensku að tala um hlutveruleika mannsins fremur en verufræði.
Hlutveruleiki mannsins er hann er í tveim kynjum, karli og konu. Í senn er það náttúrulegur veruleiki og trúarlegur. Guð skapaði manninn í sinni mynd, karl eða konu. Þá er maðurinn, samkvæmt yfirlýsingu Páfagarðs, sjálfráð skynsemisvera.
Mannvirðing er gefin við fæðingu og óframseljanleg. Úthlutun á mannvirðingu fæli í sér að hún væri afturkræf - en það er hún ekki. Í yfirlýsingu Páfagarðs er mannvirðing mátuð við samtíma okkar, þar á meðal kynjafræði, gender theory, og kynfölsun, sex change. Í tölusettri yfirlýsingu er um að ræða greinar 55-60.
Kynjafræði er ,,hugmyndafræðileg nýlendustefna" segir þar og er sérstaklega hættuleg enda hafnar kynjafræðin náttúrulegri aðgreiningu mannsins í karl og konu. Kynjafræði setur persónulegt sjálfræði ofar þeim meginsannindum að lífið er gjöf. Kynjafræðin fellur í forna freistingu, gerir manninn að guði í samkeppni við hinn eina sanna kærleiksríka guð ritningarinnar.
Karl og kona eru hluti sköpunarverksins er kemur á undan reynslu okkar og ákvörðunum. Líffræðilega eðlisþætti er ekki hægt að sniðganga. Aðeins með viðurkenningu á þessum grunnsannindum getur manneskjan að fullu uppgötvað sjálfa sig, öðlast sjálfsvirðingu og sjálfsvitund.
Maðurinn er óaðskiljanlegur í líkama og sál. Líkaminn er efnisform sálarinnar. Líkami og sál eru samstofna mannvirðingunni. Kynbreyting er, samkvæmt Páfagarði, fölsun á frumverund mannsins. Athygli vekur að páfadómur eyðir ekki orðum í þá fásinnu transfræða að hægt sé að fæðast í röngum líkama. Hér á Fróni kenna Samtökin 79 bábiljuna í leik- og grunnskólum með leyfi og vitund fræðsluyfirvalda.
Nokkur umfjöllun var í erlendum fjölmiðlum í vor, eftir yfirlýsingu Páfagarðs. Tilfallandi tæpti á tveim slíkum. Ekki varð vart við að íslenskir fjölmiðlar gæfu yfirlýsingunni gaum.
Íslenska þjóðkirkjan er á öðru róli en móðurkirkjan. Í Róm er ígrundað um manneðli, veruleika og trúarsannfæringu. Biskupinn í Reykjavík stundar geðþóttaguðfræði í anda sérgæskunnar; ég á þetta, ég má þetta.
Athugasemdir
Kaþólska kirkjan hefur þá ákveðið að pakka í vörn á meðan sú íslenska reynir að toppa vitleysuna.
Ragnhildur Kolka, 17.12.2024 kl. 12:14
Fyrir mörgum árum voru birtir háskólafyrirlestrar á netinu á vegum Yale háskóla sem fjölluðu bæði um raunvísindi og hugvísindi. Meðal fyrirlesara var ameríski sagnfræðiprófessorinn Dale B Martin sem flutti meira en 20 fyrirlestra um Nýja Testamentið.
Ýmsir hafa dregið tilveru Jesú Krists í efa en Dale Martin tiltók a.m.k. tvö atriði sem sönnuðu tilveru Jesú. Annað var yfirskriftin á krossinum um að Jesús Kristur sé konungur gyðinga, telur hann að enginn hafi haft ástæðu til að búa slíkt til. Hitt atriðið var afstaða Jesú til hjónabandsins og hjónaskilnaðar sem hann setti sig mjög á móti. Dale Martin telur að það hafi verið sérstök afstaða Jesú sem ekki var ríkjandi í samtíð hans að: "karl og kona í hjónabandi séu eitt hold sem ekki verði sundur skilið".
Dale Martin segist sjálfur vera samkynhneigður.
Þessa fyrirlestra má finna á netinu.
Hörður Þormar, 17.12.2024 kl. 14:24
Kaþólska kirkjan segir satt (oftast).
Íslenska kirkjan lýgur (oftast).
Skúli Jakobsson, 17.12.2024 kl. 18:06
Vá hvað þú ert hræddur við hluti sem samræmast ekki Þínu normi!
Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 20.12.2024 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.