Pútín, tvær frásagnir og Trump

Tvær meginfrásagnir eru af Úkraínustríðinu. Í einn stað að Úkraína sé stökkpallur Pútíns og Rússa inn í önnur Evrópuríki þar sem stefnt sé að endurreisn rússneskra keisaradæmisins ef ekki sjálfra Sovétríkjanna. Í annan stað að Rússar séu að verja öryggishagsmuni ríkisins með því að koma í veg fyrir að Úkraína verði Nató-ríki.

Fyrri frásögnin er ráðandi á vesturlöndunum og að mestu leyti röng. Seinni frásögnin fer nærri lagi, þótt ekki megi gera lítið úr áhuga Rússa að tryggja hagsmuni sína í nærsveitum Úkraínu að stríði loknu, - meira um það á eftir. Fáar vísbendingar eru um löngun Rússa að leggja undir sig nærliggjandi ríki, t.d. Eystrasaltsríkin. Úkraínudeilan hófst eftir Búkarestfund Nató 2008 er Úkraínu og Georgíu var boðin Nató-aðild. Pútín og Rússar sættu sig ekki við að slíka ógn við öryggishagsmuni sína.

Nú kynnu einhverjir að segja að þótt Rússar hafi ekki sýnt löngun að leggja undir sig nágrannaríki gæti það breyst eftir árangursríkt Úkraínustríð. Möguleikinn er fyrir hendi en hann er langsóttur. Úkraínustríðið sýnir að Rússar eiga fullt í fangi með meðalstórt Evrópuríki. Í byrjun ágúst í ár gerðu Úkraínumenn innrás í Kúrsk-hérað og tóku töluvert land. Úkraínumenn sitja enn í Kúrsk og hafa hugsað sér að nota landvinninga sína þar í væntanlegum friðarsamningum. Þeir norður-kóresku hermenn, sem fjallað er um í viðtengdri frétt, berjast í Kúrsk-héraði, rússnesku landi, og eru ekki í ,,árásarliði Rússa" inn í Úkraínu, þótt fyrirsögn mbl.is gefi það til kynna.

Ef Rússland væri það heimsveldi sem af er látið myndu þeir ekki sætta sig við hertöku eigin lands í fimm mánuði. Ekki þyrftu þeir að leita á náðir Norður-Kóreu til að frelsa rússneskt land úr klóm óvinarins - væri Rússland heimsveldi, sem það er ekki. Ráði Rússar ekki við úkraínska herinn án utanaðkomandi aðstoðar dettur engum í hug að Rússar geti barist við samanlagða heri Nató.

Útreið bandamanns Rússa í Sýrlandi, Assad forseta, gefur ekki til kynna máttugt heimsveldi. Rússland er veldi í sama skilningi og Frakkland og Þýskaland, en kemst ekki með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana. Nema á einu sviði, og það skiptir máli. Rússar eiga kjarnorkuvopn, sem kannski ekki eru á pari við þau bandarísku, en nógu öflug til að skjóta mönnum skelk í bringu.

Úkraínustríðinu lýkur með friðarsamningum en ekki uppgjöf Úkraínu. Rússar eru ekki með herstyrk til að leggja landið allt undir sig, hafi þeir áhuga, sem er óvíst.  Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur sagst ætla að binda endi á stríðið. Bandaríkin fjármagna og hervæða Úkraínu að stærstum hluta. Án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínu allar bjargir bannaðar. Spurningin er hvernig verði staðið að stríðslokum eftir að Trump sest í Hvíta húsið.

Ein tillaga, sem er til umræðu, er að frysta stríðið, binda endi á átök þar sem víglínan liggur núna. Í framhaldi yrði boðað til friðarráðstefnu. Fjölþjóðaher, í umboði Sameinuðu þjóðanna, myndi gæta þess að hvorugur aðili neytti færis að bæta hag sinn á meðan vopnahlé og friðarsamningar stæðu yfir.

Austurríski ofursteinn Markús Reisner kemur reglulega fram í þýskumælandi fjölmiðlum sem álitsgjafi um Úkraínustríðið og er að auki að finna á Youtube. Í samtali við Die Welt ræddi Reisner hugmyndina að frysta víglínuna. Hann segir að víglínan sé um 1200 km löng og gott betur. Til að gæta friðar þyrfti líklega 100-150 þúsund manna herlið. Enginn slíkur fjölþjóðaher er til reiðu. Marga mánuði tæki að skipuleggja úrræðið. Af þeirri ástæðu einni er ólíklegt að úr verði.

Ýmsar aðrar hugmyndir eru ræddar, t.d. að Trump hóti Rússum að stórefla stuðning við Úkraínu, fallist Pútín ekki á friðarviðræður. Rússum hefur áður verið hótað með litlum árangri.

Á meðan engin raunhæf tillaga er um að binda endi á átök heldur stríðið áfram. Fyrir utan árangur Úkraínu í Kúrsk eru Rússar með yfirhöndina og vinna jafnt og þétt úkraínskt land þótt ekki fari þeir hratt yfir.

Raunhæf tillaga um stríðslok í Úkraínu verður að fela í sér endurkomu Rússlands í samfélag meginlandsríkja Evrópu og þar með vesturlanda. Á meðan vestrið er ekki tilbúið að éta ofan í sig ráðandi frásögn um heimsvaldastefnu Pútíns eru litlar líkur á raunhæfri friðartillögu. Orðspor of margra valdamanna í vestrinu er í húfi. Ekki þó Trump, sem gæti riðið baggamuninn.


mbl.is Norðurkóreskir hermenn í árásarliði Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Á meðan streyma fjármunir til Úkraínu í svo miklum mæli að forsetanum í Úkraínu finnst tilvalið að setja á sig jólasveinahúfu og senda gjafir til Sýrlands

Úkraínuforseti vill senda korn og veita annað liðsinni eftir fall Assads - RÚV.is

Grímur Kjartansson, 15.12.2024 kl. 12:03

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Er þetta ekki frekar spurning um að Úkraína er stökkpallur fyrir vestræna eyðileggingu og ómenningu inní Rússland? Wók og slíkt?

Frankfurt skólinn, Marxistar, Freudistar, Hollywoodómenningin, jafnaðarfasisminn, þetta eru það sem er búið að eyðileggja vestræna menningu. 

Ætli við höfum ekki verið sjálfstæðari undir Danakonungi en Bandamannaveldinu og vestrænum jafnaðarfasistum?

Ísland missti sjálfstæði sitt með árás Breta og Bandaríkjamanna á landið í seinni heimsstyrjöldinni. Við fengum jú velmegun, en "margur verður af aurum api", og það verður ætíð sannara með tímanum.

Það eru full rök sem gilda með því að halda með Hitler og nazismanum. Segja má með góðum rökum - og það er veruleikinn - að Vesturlönd hafi fallið með Þýzkalandi árið 1945. Úrkynjun fullkomin tók við eftir það.

Norræn þjóðerniskennd var í blóma fyrir þann tíma, mannfjölgun, stolt, menning, allt blómstrandi og á uppleið. 

Eftir hrun Sovétríkjanna gátu Rússar komið á lífvænlegra kerfi en Vesturlönd.

Fólk er hætt að fjölga sér í okkar heimshluta, óhamingjan er í hæstu hæðum eins og sést á því hvernig fólk bryður geðlyf og verkjalyfjanotkun talin sjálfsagt mál fyrir alla. Sjálfsmorð, þunglyndi, ónýtt skólakerfi... 

Pútín sér að þetta er ekki fýsilegt. 

Rússland er ekkert smáríki. Það á sér flotta sögu og hefur verið eins og Kína og Indland ekki samtaka Vestrinu. Þar af leiðandi, Rússar geta enn verið sjálfstæðir, öðruvísi en Vesturlönd.

Þetta stríð hefur veikt Rússland og Úkraínu, en þó Evrópu og Vesturlönd kannski ekki síður. Sumir þættir hafa reynzt miklu sterkari og öflugri í Rússlandi en Evrópa bjóst við. Þrátt fyrir hrun rúblunnar og mannfall er rússneski björninn ekki fallinn, og stendur merkilega sterkur hernaðarlega. Kjarnorkumáttur Rússlands er alveg óbreyttur eða efnavopnamáttur þess og sýklavopnamáttur og hernaðarmátturinn með öll önnur vopn ekki síður, og í samanburði við bandarísk vopn og önnur.

Sko, málið er það að Vesturlönd eru löngu fallin og komin í rúst og ógnin kemur ekki frá Rússlandi og hefur ekki gert það síðan kommúnisminn hrundi þar 1989-1991.

Rússland hefur jafnvel verið á betri þróunarbraut en Vesturlönd að einhverju leyti síðan kommúnisminn þar hrundi.

Hóflegt einræði Rússlands hefur verið frekar þægilegt fyrir landsmenn.

Sögur um kúgun Pútíns eru séðar með pólitískum gleraugum.

Fólk sem elskar Vesturlönd skynjar kúgunina. Nægilegt er frelsið í Rússlandi til að mörgum líði þar vel, og flestum sennilega.

Þar að auki, ef stríðið hefði ekki komið til, væru lífsgæðin meiri en hér eins og þau höfðu verið.

Ingólfur Sigurðsson, 15.12.2024 kl. 12:31

3 Smámynd: Hörður Þormar

Árið 2003 hélt Otto von Habsburg, sonarsonur Franz Joseps keisara Austurríkis, ræðu þar sem hann varaði við Pútin. Lýsir hann honum sem mjög grimmum og ofbeldisfullum manni. Hafði hann heyrt frásagnir af honum í Dresden þar sem hann hafði verið KGB foringi, voru þær ófagrar. Hægt er að sækja tölvuþýddan texta af ræðunni.  Über Putin: Wie Otto von Habsburg ihn einschätzte (2003 und 2005)

Hörður Þormar, 15.12.2024 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband