Hanna Katrín og orðin sem skipta máli

Í viðtengdri frétt um stjórnarmyndun segir Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar: 

En ég þekki það líka af fyrri reynslu að það tek­ur tíma að skrifa stjórn­arsátt­mála og orð skipta máli.

Þorgerður Katrín býr að mestri reynslu kvennanna þriggja sem leggja drög að stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins.

Samflokksmaður Þorgerðar Katrínar er Hanna Katrín Friðriksson. Hún er margreynd, þingmaður frá 2016, og formaður þingflokks Viðreisnar. Morgunblaðsgrein Hönnu Katrínar í gær er athyglisverð í ljósi viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Greinin birtist við hlið leiðara Morgunblaðsins. Plássið er frátekið fyrir þingmenn sem skrifa 400 - 500 orða pistil samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi. Í gær var komið að Hönnu Katrínu og hún varð að skila pistli þótt eflaust væri kappnóg að gera í stjórnarmyndun. 

Hanna Katrín ákvað að skrifa undir fyrirsögninni ,,Ísland og umheimurinn". Er þingmaður Viðreisnar birtir texta undir slíkri fyrirsögn gera lesendur ráð fyrir romsu um hve brýnt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. En Hanna Katrín kom á óvart. Hún beitir sig hörðu að aðskilja persónuleg sjónarmið frá pólitískum viðhorfum.

Í fyrstu efnisgrein áréttar hún varnarsamstarfið við Bandaríkin. Upphafssetning annarrar efnisgreinar er: ,,Und­an­far­in 80 ár hef­ur Ísland verið frjálst og full­valda ríki." Viðreisnarfólki er almennt ekki tamt að tala þannig um lýðveldið. Til að enginn fari í grafgötur um virðingu formanns þingflokks Viðreisnar fyrir sjálfræði þjóðarinnar hefst þriðja efnisgrein pistilsins í Morgunblaðinu í gær á þessum orðum: ,,Við höf­um sem frjálst og full­valda ríki..." Í lokasetningu efnisgreinarinnar kveður við annan og persónulegri tón:

Af sömu ástæðu er ég þeirr­ar skoðunar að við ætt­um að vera hluti af Evr­ópu­sam­band­inu og standa þar jafn­fæt­is þeim sjálf­stæðu og full­valda Evr­ópuþjóðum sem sjá hags­mun­um sín­um best borgið þar.

Fyrsta persóna eintala Hönnu Katrínar vill í Evrópusambandið - en hvað með fleirtöluna, ,,við í Viðreisn"? Ekkert að frétta þar, þingflokksformaðurinn er á kafi í stjórnarmyndunarviðræðum og tiplar á tánum.

Afgangurinn af pistlinum, tæpur helmingur, fjallar um mik­il­vægi nor­ræns sam­starfs.

Með sjónarmið Þorgerðar Katrínar í huga, að orð skipta máli, má álykta að Hanna Katrín leggi sig í líma að haga orðum sínum þannig að þau verði ekki túlkuð á þann veg að Viðreisn ætli að setja ESB-aðild á dagskrá í stjórnarmyndunarviðræðum.

Guð láti gott á vita. Ef úr verður, og flokkarnir þrír sammælast um meirihlutastjórn, væri hryggilegt að að horfa upp á nýja ríkisstjórn skjóta sig í fótinn í upphafi vegferðar með ESB-daðri.

Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er ekki óskastjórn tilfallandi, fjarri því. Á hinn bóginn er æskilegt, raunar brýnt, að stjórnin leggi á djúpmiðin með rá og reiða er gefi sæmilegar vonir um gifturíkan leiðangur. Konurnar þrjár sem fara með forræði mála eru ábyggilega allar af vilja gerðar að gagnast vel landi og þjóð. Ef af verður leiðangri mun tilfallandi óska þeim velfarnaðar. Að því gefnu að ESB-sérviskan verði áfram geymd ofan í skúffu. Þar á hún heima. 

 


mbl.is Vonast eftir stjórn fyrir áramót „ef ekki fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband