Fimmtudagur, 12. desember 2024
Binni plokkar fjaðrirnar af Viðreisn
Viðreisn er eini flokkurinn á alþingi sem boðar ESB-aðild og upptöku evru. Helstu rök Viðreisnar eru að með ESB-aðild og evru lækki vexti á Íslandi, verði evrópskir. Viðreisn reynir nú að mynda ríkisstjórn með Flokki fólksins og Samfylkingu og heldur eflaust fram ágæti roðans í austri.
Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, yfirleitt kallaður Binni, gerir okkur þann greiða að taka saman rauntölur um vexti á Íslandi annars vegar og hins vegar í Evrópusambandinu. Niðurstaðan:
- Í fyrsta lagi verða vextir Vinnslustöðvarinnar á yfirstandandi ári af erlendum lánum (aðallega evrum) ríflega 8%.
- Í öðru lagi verða vextir erlendra lána (aðallega dollara) í fiskvinnslu í Eyjum sem ég þekki til um 11%.
- Í þriðja lagi verða vextir dótturfélags Vinnslustöðvarinnar í Portúgal af lánum þess í ár um 6%, en lánin eru öll í evrum.
- Í fjórða lagi eru óverðtryggðir vextir nákomins ættingja míns liðlega 8% af húsnæðisláni í íslenskum krónum.
Binni notar rauntölur, vaxtatölur sem fyrirtæki og einstaklingar standa frammi fyrir. Ekki verður með nokkru móti sagt að vextir á evrusvæðinu séu eða gætu orðið ástæða fyrir Íslendinga að svo mikið sem íhuga ESB-aðild.
Þegar við bætist að Íslendingar myndu lítil sem engin áhrif hafa í Evrópusambandinu, eins og Hjörtur J. Guðmundsson stjórnmálafræðingur er óþreytandi að benda okkur á, blasir við fásinna þeirra sem vilja framselja fullveldi og sjálfsstjórn til Brussel.
ESB-aðild er bæði í bráð og lengd óhagstæð Íslendingum. Evrópusambandið er félagsskapur meginlandsríkja og tekur fyrst og síðast mið af hagsmunum stórþjóða, s.s. Þýskalands og Frakklands. Eyríki á miðju Atlantshafi er betur sett utan ESB.
Viðreisn þarf að átta sig á að þótt sérviska sé leyfileg í pólitík, líkt og í samfélaginu almennt, er óráð að beita yfirgangi til að þvinga sérviskuna ofan í kok annarra. Það hefnir sín.
Athugasemdir
Hvað segir Benedikt stofnandi Viðreisnar?
Helga Kristjánsdóttir, 12.12.2024 kl. 09:13
Þetta er nú málið. Vextir eru ekki eitthvað náttúrulögmál sem ekki er hægt að breyta. Þeir eru ákveðnir í dag af fólki sem er búsett á Íslandi. Að ætla að lausnin felist í því að gefa erlendu fólki stjórnina er vanhugsað og varasamt. Það sjáum við best hjá þeim þjóðum í EU sem kjósa að gera hlutina einsog þær telja að hagnist þeim best gegn stefnu EU en þær þjóðir hafa þurft að finna illilega fyrir því.
Ágúst Kárason, 12.12.2024 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.