Ábyrgð Þorgerðar Katrínar er mest

Konurnar þrjár, ríkisstjórnarsmiðir, eru ólíkar líkt og flokkar þeirra. Þær hafa sett sér markmið, að finna samnefnara að meirihluta á alþingi. Verkefnið er krefjandi en verðugt. Verstu mistökin yrðu hálfkák. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Að setja saman ríkisstjórn er ekki bæði og - heldur annað hvort eða. Ný ríkisstjórn er loforð til þjóðarinnar frá meirihluti alþingis um landsstjórn næstu fjögur ár. Ef út af bregður, stjórnin fellur, eru afleiðingarnar vanalega afdrifaríkar fyrir almannahag og pólitískan stöðugleika. Fallnir stjórnarflokkar ríða vanalega ekki feitum hesti frá næstu kosningum.

Af kvennaþríeykinu ber Þorgerður Katrín mesta ábyrgð. Hún á að vita hvað þarf til að meirihluta sé á vetur setjandi. Þorgerður Katrín er sögð hafa lagt grunninn, ef ekki myndað, ríkisstjórn Geirs H. Haarde vorið 2007, hrunstjórnina. Kristrún var enn í menntaskóla og Inga Sæland hafði nýlokið við gutl í stjórnmálafræðinámi vestur á melum.

Þær Þorgerður Katrín og Ingibjörg Sólrún þáverandi formaður Samfylkingar munu hafa verið, og eru e.t.v. enn, góðar vinkonur. Sagan segir að þær tvær hafi samið um ríkisstjórn og tilkynnt Geir H. Haarde. Hvort sagan sé sönn eða ekki skiptir ekki höfuðmáli. Heldur hitt að Þorgerður Katrín á að hafa reynslu og kunnáttu til að meta hvort innistæða sé fyrir stjórnarmeirihluta. Hér er ekki átt við þingmannafjölda heldur ómælanlega þætti sem þurfa að vera fyrir hendi í ríkisstjórnarsamstarfi.

Kristrún og Inga eru blautar á bakvið eyrun er kemur að ríkisstjórnum. Þorgerður Katrín er aftur hokin reynslu. Það stendur mest upp á hana að hleypa ríkisstjórnarfleyinu, sem nú er í smiðum, ekki af stokkunum fyrr en gengið er úr skugga um að fleyið komist úr slipp í höfn.

Aðstæður eru hagfelldar að mynda ríkisstjórn. Eina skýra niðurstaða nýafstaðinna þingkosninga er að jaðaröflum til vinstri var úthýst af kjósendum. Ef það er eitthvað eitt sem kjósendur sögðu var það þetta: við viljum ekki róttækni.

Aðstæður í þjóðarbúskapnum kalla ekki á brýnar aðgerðir. Eini aðsteðjandi vandinn er opin landamæri sem þarf að koma skikki á og ætti ekki að vera vandamál, með vinstri græna og pírata utan þings.

Þótt þjóðarskútan sigli lygnan sjó nú um stundir geta aðstæður breyst hratt. Áhöfnin þarf að vera samhent, trú þeirri stefnu sem tekin er í stjórnarsáttmála en jafnframt samvinnufús skipist veður í lofti.

Yfirleitt eru það ekki stórmálin sem fella ríkisstjórnir heldur tilfinningaþrungin smámál. Þorgerður Katrín var ráðherra í fyrstu ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er tók við í byrjun árs 2017. Björt framtíð átti aðild að stjórninni. Á kvöldfundi um miðjan september það ár var stjórninni slitið eftir þriðju pípu. Ástæðan var svo ómerkileg að ekki tekur að nefna hana.

Ábyggilega eru þær stöllur Þorgerður Katrín, Kristrún og Inga allsgáðar nótt sem nýtan dag og engin hætta á neyslu efna er slæva dómgreind. En þær eru með breyskt þinglið sem þarf að hafa taumhald á. Ekki þarf annað en fallandi gengi í skoðanakönnun til að hugsjúkir þingmenn, kannski í sárum vegna synjunar á ráðherradómi, spili einleik og grafi undan meirihlutanum með vanhugsuðum yfirlýsingum.

Að þessu sögðu eru konurnar þrjár formenn flokka sinna og hafa skýrt umboð til að mynda meirihlutastjórn. Gangi þrem hagsýnum í eldhúsi Ingu sem best að ríma flokkshagsmuni við almannahag. 

 

 

 


mbl.is Fundi lokið: „Þrjár hagsýnar í eldhúsinu hjá Ingu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Eitthvað hefur nú verið kokkað í þessum eldhúsdagsumræðum! Hvers virði er gamli góði túkallinn í dag.

Helga Kristjánsdóttir, 10.12.2024 kl. 00:58

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

"við viljum ekki róttækni."

Þetta virðist enduróma út um allan heim. Jafnvel byltingarleiðtoginn í Sýrlandi boðar ekki byltingu heldur umbætur enda veit hann að alþjóðleg efnahagsaðstoð verður háð ströngum takmörkunum ef minni ráðamanna nær til hvað Talibanar í Afganistan gera við þróunaraðstoðina og þá sérstaklega þá aura sem ætlað er að styrkja konur og börn.
Þó ekki vanti loforðaflaumin hjá körlunum til að fá féð afhent

Grímur Kjartansson, 10.12.2024 kl. 06:35

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband