Laugardagur, 7. desember 2024
Vókið er falskt frjálslyndi
Vókið hakkaði sig inn í vestrænt frjálslyndi. Loftslagsvá, trans og opin landamæri eru afleiðingin, segir Kemi Badenoch nýkjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretland. Badenoch gengst stolt við auðkenningunni ,,menningarstríðsmaður." Í menningarstríðinu stendur yfir uppgjör milli heilbrigðrar dómgreindar annars vegar og hins vegar sérvisku sem kennd er við frjálslyndi.
Í baráttunni til að verða leiðtogi Íhaldsflokksins stóð Badencoh keik og sagði þessi sjálfsögðu sannindi: barn getur ekki verið trans. Margur sem kennir sig við borgaraleg stjórnmál þorir ekki að segja upphátt hið augljósa af ótta við hnýfilyrði og aðkast frá vókinu. Lifandi nýburi er með líkama og meðvitund. Líkaminn er annað tveggja karlkyns eða kvenkyns. Barn getur ekki verið í röngum líkama, ekki frekar en það gæti haft ranga meðvitund eða verið af rangri tegund. Það er ómöguleiki.
Vókið, stundum kallað vælupólitík á íslensku, ,,smyglaði inn í stjórnmál hugmyndum sem á yfirborðinu sýnast frjálslyndar en eru það alls ekki," sagði Badenoch á fundi bandarísku miðhægri hugveitunnar International Democracy Union, IDU. Formaður breska Íhaldsflokksins er í Bandaríkjunum að treysta tengslin við Trump verðandi forseta og Repúblíkanaflokkinn.
Ekki þarf að leita lengi að vókistum íslenskum sem þykjast hægrimenn. Guðlaugur Þór ráðherra innleiddi í haust reglugerð um bann við kyngreindum salernum. Badenoch nefnir sérstaklega ókyngreind salerni sem dæmi um falskt frjálslyndi. Inga Sæland formaður Flokks fólksins tók í hnakkadrambið á Guðlaugi Þór og sagði:
Að taka af kynjaskipt salerni er hrein og klár aðför að persónuvernd og öryggi kvenna. Þrátt fyrir að við konur séum líka menn þá ættu flestir að vera búnir að fatta, að við erum ekki alveg eins. Ég mótmæli því af öllum kröftum og tel það gróft brot á mannréttindum okkar að þvinga okkur til að pissa standandi ellegar setjast á annarra manna þvag. [...]
Þessi reglugerð er enn eitt dæmið um hvernig stjórnvöld hafa gert risavaxnar breytingar á samfélaginu án samráðs við almenning eða atvinnurekendur. Hávær minnihluti hefur á örskömmum tíma náð að snúa samfélaginu á hvolf með yfirgangi og aðkasti á alla þá sem voga sér að vera þeim ekki sammála.
Guðlaugur Þór er ekki einn um falskt frjálslyndi. Þórdís Kolbrún ráðherra talar eins og vókisti með Rússafóbíu og Palestínublæti. Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir á Facebook um Þórdísi Kolbrúnu:
Hvers vegna lokuðum við ein Norðurlandaþjóða sendiráði í Moskvu? Hvers vegna fór Ísland ekki að dæmi margra annarra Evrópuþjóða og svaraði engu um hina fráleitu handtökuskipun á hendur forsætisráðherra Ísraels? Hvers vegna heldur ráðherrann áfram að ráðast á Ísrael, sem er að reyna að uppræta hryðjuverkasamtök? Utanríkisstefna Íslands á að vera einföld: að selja fisk og tryggja varnir. Við eigum að selja öllum fisk, líka Rússum og Kínverjum (þótt mér geðjist ekki að valdsmönnum þar), og hinir einu, sem geta tryggt varnir okkar, eru Bandaríkjamenn, og þess vegna eigum við að taka okkur stöðu við hlið þeirra. Virðing smáþjóða á alþjóðavettvangi stendur í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra, sagði Bjarni Benediktsson eldri. Það er Íslendingum um megn að frelsa heiminn. Þeir eiga að halda sér til hlés eins og Svisslendingar, hyggnasta þjóð Evrópu.
Sjálfstæðisflokkurinn á verk að vinna í grisjun vóksins innan eigin raða. Góðu heilli er auðvelt nú um stundir að sækja sér erlendar fyrirmyndir. Trump og hans lið varða veginn í vesturheimi. Í Bretlandi er vegvísir nýkjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins, Kemi Badenoch.
Athugasemdir
Orð að sönnu! Hvernig gat X-D tekið þátt í slíkum ósóma?
Júlíus Valsson, 7.12.2024 kl. 16:02
,,ráðherra innleiddi í haust reglugerð um bann við kyngreindum salernum."
Ber það vott um ,,frjálslyndi" að stjórnvald ákveði með hverjum fólk skuli hafa hægðir og þvaglát?
Baldur Gunnarsson, 8.12.2024 kl. 06:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.