Trú, pólitík og kosningar

Um áttatíu prósent Íslendinga á kosningaaldri gengu í kjörklefa á laugardag að játa trú sína með X-i á atkvæðaseðil. Játning kjósenda er gefin út á loforð frambjóðenda um betri jarðvist. Ekkert er í hendi, aðeins loforð ókunnugra.

Ásamt trú á betri kjör, fái réttur flokkur framgang, er önnur meginástæða kjörsóknar siðferðislegrar ættar. Siðaboðið ,,þú skalt kjósa" er virt af átta af hverjum tíu Íslendingum eldri en 18 ára. Fá siðaboð njóta slíkrar hylli. Grunngildi eins og ,,þú skalt ekki stela" og ,,ekki meiða eða myrða" standa ofar góðu heilli. Aftur er ólíklegt að 80 prósent landsmanna virði siðaboðskapinn um að drýgja ekki hór og að segja satt.

Það krefst umstangs að mæta á kjörstað að fara með trúarjátninguna. Til samanburðar er ríflega helmingur þjóðarinnar skráður í þjóðkirkjuna. Einungis örfáir mæta í kirkju yfir kjörtímabilið - fermingar, jarðafarir og giftingar ekki taldar með.

Kjörsóknin sýnir trúna á lýðræðið, gæti einhver sagt og bætt við: það er ljótt að líkja kjörfundi við trúarathöfn. Má vera. Trú á lýðræðið er á hinn bóginn aðeins yfirlýsing um að maður vilji fyrirkomulag þar sem skipt er um löggjafa og ríkisstjórn að siðaðra manna hætti. Ekkert meira. Að meginþorri kjósenda mæti á kjörstað til að færa lýðræðinu blótfórn með atkvæði sínu er ekki trúverðug tilgáta.

Hitt er sennilegra að kjósendur almennt og yfirleitt líti á það sem borgaralega skyldu að eiga aðild að landsstjórninni með atkvæði sínu. Sú hugsun er náskyld siðaboðinu hér að ofan; ,,þú skalt kjósa." Göfugar tilfinningar báðar tvær og gott að búa í samfélagi með þær í hávegum.

Líkindin milli trúariðkunar og stjórnmála eru sláandi. Æðstuprestarnir sex, formenn flokkanna, mæta á lokaða einkafundi með forseta á Bessastöðum og segja véfréttir. Þorgerður og Kristrún hafa talað saman og telst til frásagnar. Í andakt gleyma fréttamenn að vekja máls á að þær stöllur hafa ekki meirihluta. 

Við kjósendur krossleggjum fingur og vonum að helgisiðirnir feli ekki myrkraverk. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Allt lífið byggist á trú. Menn verða að treysta á eitthvað, einhvern.

Menn geta ekki lifað án trúar. Það á við um þig líka Páll.

Þeir eru best settir sem trúa, treysta á Jesú Krist.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 3.12.2024 kl. 10:38

2 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Þeir sem arfleiddu mig að réttarríki keyptu það fyrir blóð og blý og féllu í valinn fyrir það. Ég kýs þeirra vegna.   

Baldur Gunnarsson, 8.12.2024 kl. 05:33

3 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Boðorðið um að ,,segja satt" einskorðast við að ljúga ekki glæpum upp á næsta mann.  

Baldur Gunnarsson, 8.12.2024 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband