Miðvikudagur, 27. nóvember 2024
Segir Þórður Snær af sér þingmennsku, nái hann kjöri?
Þórður Snær Júlíusson, sem skipar 3. sætið á lista Samfylkingar í Reykjavík norður, gerði sjálfum sér og meðframbjóðendum sínum þann greiða að tilkynna að hann tæki ekki sæti á alþingi jafnvel þótt hann nái kjöri. Hneykslunarmál Þórðar Snæs komu upp eftir að hann framboðslistar voru staðfestir af kjörstjórn og ekki hægt að taka hann af framboðslista.
Í yfirlýsingu sem Þórður Snær sendi frá sér kemur ekki skýrt fram hvort hann ætli að segja af sér þingmennsku nái hann kjöri eða bíða um stund með að taka sæti á alþingi. Orðrétt segir Þórður Snær í yfirlýsingunni frá 16. nóvember:
Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt.
Orðalagið ,,ekki taka þingsæti" þýðir ekki það sama og að segja af sér þingmennsku. Fái Samfylkingin fylgi fyrir þrem þingmönnum í Reykjavík norður er Þórður Snær orðinn þingmaður. Hann yrði þingmaður þangað til hann segði af sér þingmennsku.
Þórður Snær hefur ekki gefið það út að hann ætli að segja af sér þingmennsku, nái hann kjöri, aðeins að hann taki ekki þingsæti. Verulegur munur er þar á. Þórður Snær fær sjálfkrafa kjörbréf sem þingmaður, hljóti hann kosningu.
Samflokksmaður Þórðar Snæs, Víðir Reynisson, segir að það sé ,,undir Þórði komið hvort að hann snúi aftur í stjórnmál seinna."
Seinna getur þýtt nokkrar vikur eða mánuðir. Þá gæti Þórður Snær mætt galvaskur á alþingi og tekið sæti sem þingmaður, fái Samfylking þrjá menn kjörna í Reykjavík norður eða að þriðja sætið verði jöfnunarsæti. Á meðan heldur varaþingmaður sæti Þórðar Snæs volgu.
Hvorki Þórður Snær né Samfylkingin eiga að komast upp með tvímælin. Fyrir kjördag þarf að liggja skýrt fyrir hvort Þórður Snær segi af sér þingmennsku fari svo að hann nái kjöri. Loðin yfirlýsing Þórðar Snæs gefur til kynna að brögð séu í tafli.
Könnun: Fleiri ánægðir með ákvörðun Þórðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Auðvitað er það með vilja gert að hafa orðalag loðið. Það lesa nefnilega ekki allir á milli línanna. Treysti því að þú Páll hafir vakandi auga með framvindu mála og upplýsir okkur hin.
Fréttamenn eru skrýtnar skrúfur það sannað Bergsteinn Sigurðsson í þættinum Kosningavaktin 24 þegar hann spjallaði við Arnar Þór. Eftir rúmlega 19 mínútur varð fréttmaðurinn hlutdrægur og reyndi að sauma að Arnari varðandi annan þingmann.
Ég hef spurt mig, eigum við í alvöru ekki blaðamenn sem starfa af hlutleysi, rannsaka mál frá báðum hliðum og vilja mæta í vinnuna með hlutleysið að vopni?
Helga Dögg Sverrisdóttir, 27.11.2024 kl. 09:14
Minni á mynd sem Jóhann bloggari setti inn á bloggið sitt: Fyrir og eftir kosningar!!
Sigurður I B Guðmundsson, 27.11.2024 kl. 10:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.