Sunnudagur, 17. nóvember 2024
Viðreisn, ESB-óreiðan og ónýta Ísland
Viðreisn boðar aðild að Evrópusambandinu fái flokkurinn kjörfylgi og aðild að ríkisstjórn. Eina hreina vinstristjórn lýðveldisins, ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013, samþykkti þann 16. júlí 2009 að sækja um ESB-aðild - á afmælisdegi Tyrkjaránsins.
Svik og undirferli voru undanfari aðildarumsóknarinnar 2009. Vinstri grænir lofuðu kjósendum sínum ESB-andstöðu þá um vorið. Flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin, svindlaði á flokksmönnum þegar þeir voru beðnir að samþykkja að gera ESB að stefnumáli um aldamótin.
Áramótin 2012/2013 var umsóknin lögð til hliðar. Ríkisstjórnin sá ekki fram á að þjóðin myndi samþykkja framsal fullveldis til embættismannaveldis á erlendri grundu. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir, guldu afhroð í þingkosningum vorið 2013. Síðan er fátt að frétta af ESB-daðri.
Þangað til núna.
Óopinbert slagorð Samfylkingar eftir hrun var ónýta Ísland. Ástandið var svo óbærilegt að nýja stjórnarskrá þurfti, nýjan gjaldmiðil og gott ef ekki nýja þjóð í landið. Stóra endurræsingin var ESB-aðild.
Á síðustu árum lærði Samfylkingin sína lexíu og tónaði niður orðfærið sem flokknum var tamt í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. En þá stekkur Viðreisn til og tileinkar sér pólitíkina um ónýta Ísland.
Með sjálfa hrundrottninguna í farþegasætinu og grínista undir stýri endurvekur Viðreisn bábiljuna að ESB-aðild bjargi Íslandi. Sagan frá 2009 endurtekur sig sem farsi í kosningabaráttunni en gæti endað í harmleik 30. nóvember fái Viðreisn meðbyr kjósenda.
Viðreisn krefst aðildarviðræðna við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar málefnin eru skoðuð er munurinn á Viðreisn, Samfylkingu og Pirötum nánast enginn. Allt sósíaldemókratar sem vilja bara kúra í hlýjunni undir væng ESB.
Ragnhildur Kolka, 17.11.2024 kl. 19:19
Stjórnarskráin heimilar ekki ESB-aðild.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.11.2024 kl. 20:36
En Guðmundur, heimilar hún bókun 35??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.11.2024 kl. 15:41
Bannar hana ekki, því hún framselur ekki löggjafarvald til stofnana ESB eins og er sérstaklega áréttað í fororðum með bókuninni.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2024 kl. 15:51
Þá spyr ég þig Guðmundur, hver er munurinn á formlegri aðild, og þess að vera á einhverju efnahagssvæði þar sem lög Evrópusambandsins, þó aðildin sé ekki formleg, eru æðri íslenskum lögum.
Snýst sjálfstæði þá aðeins um réttinn til að setja sérstök lög um mannanöfn??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.11.2024 kl. 16:37
Ef þú átt við tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins, þá hafa þær ekkert lagagildi á Íslandi eins og Hæstiréttur hefur ítrekað staðfest.
Einu lögin sem gilda innan íslenskrar lögsögu eru íslensk lög sett af Alþingi. Þess vegna geta engar reglur frá ESB tekið gildi á Íslandi nema Alþingi setji sérstök íslensk lög til að innleiða þær í íslenskan rétt.
Þetta er meginmunurinn á réttarkerfi ESB og EES. Innan ESB hafa tilskipanir og reglugerðir settar af stofnunum ESB "lagagildi" (bein réttaráhrif) innan aðildarríkjanna og ganga sjálfkrafa framar innlendum lögum sem samræmast þeim ekki (forgangsáhrif). Það getur aðeins gerst vegna þess að ESB ríkin hafa framselt löggjafarvald sitt til ESB að þessu leyti.
Hvorugt getur gerst sjálfkrafa í EES ríkjum, einmitt vegna þess að þau hafa ekki framselt löggjafarvald sitt. Þess vegna þarf Alþingi alltaf að setja sérstök íslensk lög til að innleiða reglur sem falla undir EES samninginn, því annars myndu þær ekki verða hluti af íslenskum rétti.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2024 kl. 17:16
Blessaður Guðmundur.
Ég hef það einhvern veginn á tilfinninguna að þú hafir ekki alveg fylgst með.
Um hvað heldur þú að þingsályktunartillaga Þórdísar Kolbrúnar um bókun 35 snúist um??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.11.2024 kl. 17:23
Blessaður Ómar.
Tilfinningin hlýtur að vera að svíkja þig, því þessu máli hef ég fylgst mjög vel með í langan tíma eða a.m.k. frá árinu 2015.
Ég held að þingsályktunartillaga Þórdísar Kolbrúnar um bókun 35 snúist ekki um neitt því hún hefur ekki lagt neina slíka tillögu fram.
Hún lagði aftur á móti fram frumvarp 23. mars 2023 sem er ætlað að "að tryggja fullnægjandi innleiðingu bókunar 35 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) í íslenskan rétt" eins og kemur fram í upphafsorðum inngangs að greinargerð með frumvarpinu.
Ég las það frumvarp í þaula sama dag og það var lagt fram á Alþingi.
Hefur þú lesið þetta umrædda frumvarp?
Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2024 kl. 21:02
Nei Guðmundur, ég hraðlas greinargerðina á vef stjórnarráðsins.
Ég hélt að þetta hefði verið þingsályktunartillaga, því það þarf ekki að ræða það að samkvæmt stjórnarskránni á forseti Íslands enga kosti í stöðunni en að hafna undirritun frumvarps um bókun 35.
Þingsályktunartillaga er hins vegar leið lögbrjóta til að koma valdaafsali bakdyramegin í gegn.
Gott og vel, en hverju breytir þetta kjarnanum??
Felst sjálfstæði í íslenskum stimpli á lög og reglur Evrópusambandsins??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.11.2024 kl. 08:14
Sæll Ómar.
Það er ekki hægt að breyta íslenskum lögum með þingsályktun og þess vegna er ekki hægt að fara þá leið til að "koma valdaafsali bakdyramegin í gegn". Það róar vonandi áhyggjur þínar að vita það.
Varðandi frumvarp um lögfestingu þeirrar forgangsreglu sem kemur fram í bókun 35, þá eru það í raun bara "hvað ef?" vangaveltur á þessu stigi, því frumvarpið sem var lagt fram á þarsíðasta löggjafarþingi fór aldrei í atkvæðagreiðslu og er löngu fallið niður. Það var ekki lagt fram aftur á síðasta þingi og ekki heldur núverandi þingi sem hefur verið frestað fram að kosningum. Svo verður bara að koma í ljós hvað framtíðin ber í skauti sér.
Það er því líka "hvað ef?" spurning hvað Forseti Ísland skuli gera ef Alþingi skyldi samþykkja slíkt frumvarp og bera það undir hann til undirritunar. Það kemur ekkert fram í stjórnarskránni um hvort eða hvenær honum sé skylt að undirrita lög eða hafna því. Ef hann ákveður að hafna því taka lögin samt gildi en þá þarf að leggja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ræður því hvort þau haldi gildi sínu eða falli niður að fenginni niðurstöðu.
Ég átta mig ekki alveg á spurningu þinni um hverju þetta breyti eða hvað felist í sjálfstæði? Evrópusambandið setur hvorki lög né reglur á Íslandi eins og ég reyndi að útskýra í fyrri athugasemd. Það er Alþingi sem setur íslensk lög og getur falið stjórnvöldum heimild til að veita nánari fyrirmæli um framkvæmd þeirra með reglugerðum og sambærilegum ákvörðunum.
Ef þú ert með "íslenskum stimpli" að vísa til þess þegar Alþingi setur íslensk lög til að innleiða reglur sem falla undir EES samninginn, þá er það afleiðing af íslenskum lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Með þeim lögum veitti Alþingi meginmáli EES samningsins lagagildi á Íslandi sem þýðir að hann er hluti af íslenskum lögum. Í 7. gr. hans kemur fram skyldan til að innleiða tilskipanir og reglugerðir sem falla undir samninginn, í íslenskan rétt. Þegar það er gert er Alþingi því einfaldlega að fara eftir íslenskum lögum.
Alþingi setti þessi lög í krafti löggjafarvalds síns samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar til að lögfesta samning sem íslenska ríkið gerði í krafti fullveldis síns. Ef Ísland væri ekki fullvalda ríki gæti það ekki átt aðild að slíkum samningi. Sem fullvalda ríki getur Ísland líka ákveðið (einhliða) að segja þeim samningi upp og sem handhafi löggjafarvalds getur Alþingi líka ákveðið að fella hann brott úr íslenskum lögum.
Ef það er þessi fullveldisréttur sem þú ert að vísa til með orðinu "sjálfstæði" þá er a.m.k. ljóst að Ísland er sjálfstætt í þeim skilningi og í krafti þess getur Ísland tekið sjálfstæðar ákvarðanir, þar á meðal að undirgangast alþjóðsamninga og fylgja þeim, eða ekki. Svo má hafa skoðun á því hvort að það sé góð eða slæm ákvörðun í hverju tilviki fyrir sig.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.11.2024 kl. 16:54
Blessaður Guðmundur.
Ég held að ég hafi sjaldan lesið eins mikinn kattarþvott á raunveruleikanum, og hef ég þó lesið þá marga í tilbreytingarleysinu.
Þingsályktunartillögur eru þekkt leið til að sniðganga stjórnarskrána, ef ég man það rétta þá fór orkupakki 3 í gegnum Alþingi þá leiðina.
Bókun 35 var eina þingmál Þórdísar Kolbrún fyrir veturinn, og þú veist að það er Svandísi og meintri stjórnvisku hennar að þakka að það reyndi ekki á samþykkt þess.
Og Guðmundur, ef þú veist ekki af hverju Þórdís Kolbrún er að leggja fram sérstakt frumvarp um þessa bókun til að "að tryggja fullnægjandi innleiðingu bókunar 35 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) í íslenskan rétt" þrátt fyrir að "afleiðingarnar af íslenskum lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993." þá á ég aðeins eina ráðleggingu handa þér.
Lestu frumvarpið aftur.
Og ef það dugar ekki; aftur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.11.2024 kl. 07:08
Sæll Ómar.
Ég veit alveg hvað frumvarpið felur í sér og hvaða þýðingu það hefur, en það er löngu fallið niður og er ekki á döfinni núna.
P.S. Orkupakki 3 var tekinn upp í EES samninginn með þingsályktun, en það er ekki það sama og að breyta íslenskum lögum.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.11.2024 kl. 17:57
Guðmundur, það er gott að þú þurfir ekki að lesa það aftur, og þar með sért þú hættur að reyna telja fólki í trú um að það sé meinleysingur.
Persónulega finnst mér mánuður ekki langur tími, þó vissulega hafi það verið í barnæsku þegar beðið var eftir jólum með því að skrifa einhverja leiðinda stíla í móðurmálinu (er svo gamall að ég lærði móðurmál en ekki íslensku), svo ég myndi allavega fara varlega í að fullyrða um að frumvarpið sé löngu fallið niður. Það eina sem breyttist voru kosningarnar og það er kýrskýrt að það verði fyrsta mál á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar.
Skil ekki tilgang þeirrar blekkingar að halda öðru fram.
Orkupakki 3 breytti mörgu í íslensku lagaumhverfi, eðlilegast hefði verið að semja frumvarp um sem héldi um þær breytingar, en þeir sem óttast vilja þjóðarinnar, þeir sniðganga, og sá sem einu sinni ástundar þau vinnubrögð, er líklegur til að gera það aftur.
En þegar þú ætlar að afleggja sjálfstæði þjóðarinnar þá er kannski virðingarvert að gera það með formlegu frumvarpi.
Enda svo í jeilinu því það gleymdist að breyta stjórnarskránni fyrst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.11.2024 kl. 08:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.