Mánudagur, 11. nóvember 2024
Helgi Seljan, Aðalsteinn og atlagan að Jóni
Blaðamenn Heimildarinnar, Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson, skipulögðu aðför að Jóni Gunnarssyni alþingismanni. Erlend tálbeita, sem þóttist vera fjárfestir, lagði snöru sína fyrir son Jóns, sem er fasteignasali. Tálbeitan sagðist hafa áhuga á fasteignaviðskiptum en sóttist eftir upplýsingum um Jón Gunnarsson sem er fyrrum dómsmálaráðherra.
Þegar tilfallandi las viðtengda frétt Morgunblaðsins, sem einnig birtir yfirlýsingu Jóns um málið, fannst honum erfitt að trúa, málið er svo fjarstæðukennt. Tvö atriði í yfirlýsingu Jóns eru þó afar sannfærandi. Fyrra atriðið er eftirfarandi:
Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan, blaðamenn á Heimildinni og fyrrverandi samstarfsmenn tveggja frambjóðenda Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar, hringdu samtímis í mig og son minn síðasta föstudag til að spyrja nánar út í atriði úr kvöldspjalli sonar míns og fjárfestisins.
Samstilltar símhringingar blaðamanna eru afhjúpandi vinnubrögð. Þegar Aðalsteinn Kjartansson og Þórður Snær Júlíusson, þáverandi ritstjóri Kjarnans og núverandi frambjóðandi Samfylkingar, lögðu til atlögu við Pál skipstjóra Steingrímsson var verklagið það sama, samstilltar símhringingar. Helgi Seljan var einnig aðili að samstilltum símhringingum þegar taka átti æru, mannorð og lífsviðurværið af Hreiðari Eiríkssyni lögmanni.
Seinna sannfærandi atriðið í yfirlýsingu Jóns Gunnarssonar er þetta:
Um helgina fékk ég tölvupóst frá Aðalsteini á Heimildinni þar sem hann lagði fyrir mig sjö spurningar, sem ljóst er að byggja á efni úr samtali sonar míns við fjárfestinn.
Blaðamenn af þeirri sort sem hér um ræðir skilja alltaf eftir sig slóð. Jón hefur áttað sig á, út frá spurningum Aðalsteins, hvernig hann hefur fengið upplýsingarnar sem eru forsendur spurninganna.
Vinnubrögð Aðalsteins Kjartanssonar og Helga Seljan gagnvart Jóni Gunnarssyni og fjölskyldu hans eru ekki ný af nálinni. Í grunninn er þetta sama aðferðafræðin og í byrlunar- og símamálinu. Siðlausar og ólöglegar aðgerðir gegn fjölskyldum sem blaðamenn gera að skotmörkum.
Blaðamenn komast upp lögleysu og siðleysi vegna þess að þeir eiga sterka pólitíska bakhjarla. Þórður Snær var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína í byrlunar- og símamálinu með vænlegu þingmannssæti á lista Samfylkingar.
Sakar Heimildina um þátttöku í að hlera son sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Einu sinni siðlaus alltaf siðlaus. Siðleysi er ekki eitthvað sem dúkkar upp á mánudegi en er horfið á þriðjudegi. Það er viðvarandi og finnur sér alltaf útrás, nema þar sem aðrir siðleysingjar halda því í skefjum. Gangi þeir lausir í samfélaginu má alltaf búast við að þeir láti til sín taka því almenningur, sem er almennt trúgjarn, er varnarlaus gagnvart þeim.
Ragnhildur Kolka, 11.11.2024 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.