Mánudagur, 28. október 2024
Þórður Snær með pólitískt líf Kristrúnar í hendi sér
Kristrún formaður Samfylkingar lét þriðja sætið á lista sínum í Reykjavík norður í hendur sakbornings, Þórðar Snæs Júlíussonar fyrrum ritstjóra Kjarnans/Heimildarinnar. Kristrún gerði samkomulag við Þórð Snæ að styðja hann til þingmennsku gegn því að hann skæri hana úr snörunni vegna skattsvika sem hún varð uppvís að.
Kristrún var hagfræðingur Kviku banka áður en hún var kosin á þing fyrir Samfylkinguna í síðustu kosningum, haustið 2021. Hjá Kviku fékk Kristrún kaupauka upp á 101 milljón króna á þeim þrem árum sem hún starfaði í bankanum, 2018-2021. Kaupaukinn er í formi réttinda til að kaupa hlutabréf í bankanum á gengi sem almenningi býðst ekki.
Kaupauki Kristrúnar komst í fréttir fimm dögum fyrir þingkosningarnar 25. september 2021. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið fengu upplýsingar um fjármál verðandi formanns flokksins. Kristrún hóf gagnsókn, skrifaði langa Twitter-færslu undir yfirskriftinni Uppgjöf og örvænting íhaldsins. Hún sakaði blaðamenn Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins um pólitíska herferð gegn sér.
Í Twitter-færslunni 20. september 2021 neitar Kristrún að um kaupauka hafi verið að ræða heldur ,,tilboð um fjárfestingu." Almenningur fékk ekki slíkt tilboð, aðeins útvaldir. Kaupaukar í formi hlutafjárkaupa, á lægra gengi en markaðsvirði, tíðkast hjá fyrirtækjum skráðum á hlutabréfamarkaði. Kristrún segir að um áhættufjárfestingu hafi verið að ræða og hún og eiginmaðurinn hafi nýtt sparnað sinn í kaupin. En þau hjón voru nýkomin heim frá námi. Fæstir nýkomnir úr námi eiga sparnað. Enda er kaupréttarfyrirkomulagið sjaldnast útfært þannig starfsmenn leggi fram peninga. Yfirleitt er dregin af launum starfsmanna fjárhæðin sem fer í hlutafjárkaupin. Kristrún blekkti í Twitter-færslunni og sagði með þjósti: Síðast þegar ég vissi mega fleiri en sjálfstæðismenn taka þátt á hlutabréfamarkaði.
Hér var ekki á ferðinni áhættufjárfesting, eins og formaður Samfylkingar vill vera láta, heldur kaupauki fyrir fáa útvalda. Kristrún tók enga áhættu, hún var bæði með belti og axlabönd á fjárfestingunni, gat ekki tapað, aðeins grætt. Almennum hlutafjárkaupendum bjóðast ekki þessi kjör.
Í Twitter-færslunni segir formaður Samfylkingar þessa merkilegu setningu:
ég er stuðningskona þess að fjármagn sé skattlagt meira.
Kristrún hagnaðist um 101 milljón króna af hlutabréfunum í Kviku. Ef hún í raun og sann er stuðningsmaður hærri skatta á fjármagn hefði hún talið hagnaðinn fram sem launatekjur og greitt 46 prósent skatt. En Kristrún svindlaði, bæði á yfirlýstri sannfæringu sinni og Skattinum, sem er töluvert alvarlegra. Hún taldi 101 milljón króna kaupauka fram sem fjármagnstekjur og borgaði aðeins 22 prósent skatt. Með svindlinu sparaði Kristrún sér 25 milljónir króna. Það eru tvenn árslaun framhaldsskólakennara og gott betur. En Kristrún segist jafnaðarmaður og vill hærri skatta á fjármagn, bara ekki á hennar prívatkapítal.
Nú fer að koma að Þórðar þætti Snæs.
Skatturinn var með fjármál Kristrúnar til rannsóknar veturinn 2022-2023. Um vorið fékk hún bréf frá Skattinum að hún hefði talið rangt fram, komið sér undan skattgreiðslum. Í daglegu tali kallast þetta skattsvik. Kristrún var fljót að gera upp við skattinn, borgaði þær 25 milljónir sem hún stakk undan. Óvíst er hvort Kristrúnu hafi verið gert að greiða 25 prósent álag, sem tíðkast í tilfelli skattsvika. Kristrún mátti vita að fyrr heldur en seinna kæmist upp um skattsvikin og þau yrðu fréttaefni. Í þetta sinn ætlaði hún að vera á undan fjölmiðlum, fá til liðs við sig einhvern óprúttinn sem tilbúinn var í viðskipti.
Þórður Snær Júlíusson hefur lengi gengið með þingmanninn í maganum. Helsti bakhjarl hans er auðmaðurinn Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrum gjaldkeri Samfylkingar. Vorið 2023 leitaði Kristrún formaður Samfylkingar til Þórðar Snæs með vandræði sín. Þórður Snær var í þeirri stöðu að krefja Kristrúnu um allar upplýsingar skattsvikanna til að búa þeim trúverðuga málsvörn. Síðan bjuggu þau til ráðagerð sem gekk út á ítarlega frétt er tæmdi málið. Eftir þá frétt liti út eins og Kristrún hefði lagt spilin á borðið, ekkert væri meira að segja. Fréttin myndi lifa í einn til tvo daga sumardagana fyrir rúmu ári. Síðan ekki sögunni meir. Formaður Samfylkingar væri búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ekkert væri ósagt.
Til að fronta fréttina fékk Þórður Snær ritstjóri Arnar Þór Ingólfsson blaðamann á Heimildinni til verka. Arnar Þór er liðtækur í skítverkin með Þórði Snæ; báðir eru sakborningar í byrlunar- og símamálinu. Fréttin um skattsvik Kristrúnar birtist 29. júní í fyrra. Orðið skattsvik kemur ekki fyrir í fréttinni. Talað er um að endurgreiðslu vegna ,,tilmæla" frá Skattinum. Eins og skattayfirvöld sendi út óskir um að framteljendur greiði vangoldinn skatt, svona þegar þeim henti. Eins og lagt var upp með endurbirtu fjölmiðlar vinstrimanna fréttina á sömu forsendum. RÚV notar meira að segja sömu fyrirsögn og Heimildin. Engin skattsvik, aðeins smávegis leiðrétting. Lesendur geta rétt ímyndað sér hvort uppslátturinn hefði ekki verið annar ef formaður Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks hefðu átt hlut að máli. Þegar Morgunblaðið ætlaði að þýfga formann Samfylkingar síðdegis sama dag og fréttin í Heimildinni birtist svaraði Kristrún: ,,Málinu er lokið fyrir mína parta." Áætlun Kristrúnar og Þórðar Snæs heppnaðist fullkomlega. Málið tæmt, dautt.
Þórður Snær gerir ekkert ókeypis. Hann fékk loforð frá Kristrúnu um stuðning við þingmennsku. Ritstjórinn fyrrverandi er undirförull; sést á því að hann reyndi að sölsa undir sig yfirráð yfir Heimildinni á bakvið tjöldin. Upp komst og Þórði Snæ var sparkað. Eftir ráðabruggið vorið 2023, til að bjarga pólitísku lífi formanns Samfylkingar, er Þórður Snær kominn með upplýsingar sem hann getur hvenær sem er lekið til vinveittra blaðamanna. Þar með yrði saga Kristrúnar formanns öll. Kristrún er vel meðvituð um stöðu sína gagnvart ritstjóranum sem einskins svífst til að koma ár sinni fyrir borð.
Þórður Snær er sakborningur í alvarlegu refsimáli, byrlunar- og símamálinu. Enginn stjórnmálaflokkur með réttu ráði teflir fram til þingsetu manni sem grunaður er um glæp. En það gerir Samfylkingin. Skýringin er sú að formaðurinn þar á bæ sætir pólitískri fjárkúgun vegna skattsvika.
Athugasemdir
Vá!
Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.10.2024 kl. 13:55
Það væri áhugavert að bera saman fréttaflutning af skattamáli SDG og eiginkonu hans á sínum tíma og umfjöllun þessara einstaklinga sem hér eru nefndir.
Svanur Guðmundsson, 28.10.2024 kl. 17:23
Hvernig getur blaðamaður skorið einhvern úr snörunni vegna skattsvika?
Er að spyrja fyrir vin...
Guðmundur Ásgeirsson, 29.10.2024 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.