Alma, Víðir og borgaraleg Samfylking

Oddvitasæti Samfylkingar í tveim kjördæmum fara til Ölmu landlæknis og Víðis viðbragðsforingja almannavarna. Bæði eru landsþekkt, einkum fyrir að vera tveir þriðju þríeykisins sem meira og minna stjórnaði landinu á tímum farsóttar.

Áður en Alma og Víðir komu fram sem frambjóðendur hafði Kristrún formaður Samfylkingar kynnt kosningastefið ,,stolt þjóð" sem er í anda Miðflokksins.

Stefna, slagorð og mannval Samfylkingar vísar í borgaralega átt. Kristrún formaður leggur sig fram um aðgreiningu frá öðrum vinstriflokkum, aktívisma og upphlaupum. Alma og Víðir eru kerfisfólk og tala fyrir sérfræðiveldi. Kennivaldið sem þau bjóða upp á er ekki jafn óumdeilt og það var fyrir kófið. Vaxandi tortryggni er í garð sérfræðinga og þeir oftar grunaðir um að vera meira haldnir af hugmyndafræði en vísindalegri hlutlægni.

Allt frá stofnun er Sjálfstæðisflokkurinn miðstöð borgaralegra stjórnmála. Þegar mesta fjörið var í vinstrimennskunni, fyrstu árin eftir hrun, urðu kratísk áhrif meira áberandi en eldri speki um lága skatta og taumhald á ríkisafskiptum af lífi borgaranna. Þjóðhyggja lét undan alþjóðahyggju.

Vöxtur Miðflokksins síðustu misseri stafar ekki síst af óánægðum sjálfstæðismönnum sem lýsa stuðningi við Sigmund Davíð í skoðanakönnunum. Þjóðleg ára Miðflokksins er nokkuð heilsteyptari en flokksins sem kennir sig við sjálfstæði. Andspyrna gegn falsvísindum um manngert veður og transfáránleika, að hægt sé að fæðast í röngu kyni, er einnig meiri í Miðflokki en værukærum Sjálfstæðisflokki.

Er Samfylking Kristrúnar tekur snarpa hægribeygju er tvennt í stöðunni. Að aðgerðin lukkist og Samfylking hirði fylgi af Sjálfstæðisflokki og Miðflokki og standi með pálmann í höndunum eftir kosningar. Hitt er mögulegt að borgaralegu flokkarnir nái vopnum sínum og Samfylkingin tapi fylgi til vinstri. Hvort heldur sem verður má tæplega gera ráð fyrir öðru en þriggja flokka stjórn. Borgaraleg Samfylking reisir ekki víggirðingu gegn hægri stjórn. Þvert á móti.

 

 


mbl.is Víðir verði oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Þessar kosningar snúast um sókn til miðjunnar.

Fólk sér að það þarf að hemja auðmagnið en trúir ekki á öfga vinstrisins. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 20.10.2024 kl. 09:40

2 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Það er vel við hæfi að fólkið sem stóð í fremstu víglínu með að blekkja almenning í covid með eitursprautum og fleiru læðist ekki með veggjum heldur verði í forystusveit samfylkingar.

Kristinn Bjarnason, 20.10.2024 kl. 10:08

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Svei mér þá,eins og júróvisan kjósa textann og sviðið: er það nú lag!

Helga Kristjánsdóttir, 20.10.2024 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband