Þóra og Aðalsteinn með lögmann í viðtal á Vísi

Tveir sakborninganna í byrlunar- og símamálinu, Þóra Arnórsdóttir og Aðalsteinn Kjartansson, mættu með lögmann Blaðamannafélags Íslands sér til halds og trausts í pallborðumræðu á Vísi í gær. Fréttamaðurinn, Hallgerður Kolbrún, afsakaði að brotaþolinn í málinu, Páll skipstjóri Steingrímsson, væri ekki á staðnum en sagði að honum yrði síðar boðið viðtal.

Sakborningarnir tveir vildu ekki ræða hvernig það atvikaðist að á meðan skipstjórinn lá milli heims og helju á Landsspítala 4. til 6. maí 2021 rataði sími hans inn á RÚV á Efstaleiti. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur játað að byrla honum, stela símanum og afhenda Þóru símann. Síminn var afritaður á Efstaleiti og honum skilað til eiginkonunnar daginn eftir. Engar fréttir birtust í RÚV með vísun í efni ganga frá Páli skipstjóra. En þann 21. maí, tæpum þrem vikum eftir byrlun, stuld og afritun, birtust samræmdar fréttir samtímis í Stundinni og Kjarnanum, sem síðar sameinuðust og heita Heimildin.

Aðalsteinn var undirmaður Þóru á Kveik þangað til þrem dögum fyrir byrlun. Páli var byrlað kvöldið 3. maí á Akureyri og fluttur daginn eftir á gjörgæslu gamla Borgarspítala í Fossvoginum, gengt RÚV. Í hádeginu 30. apríl skipti Aðalsteinn um vinnustað, fór af RÚV á Stundina, sem systir hans Ingibjörg ritstýrði. Hann er skráður höfundur fréttarinnar um skæruliðadeild Samherja, sem birtist í Stundinni morguninn 21. maí. Sama morgun birti Kjarninn sömu frétt og var hún merkt Þórði Snæ ritstjóra, nú þingmannsefni Samfylkingar, og Arnari Þór Ingólfssyni. Hvers vegna að nota tvo fjölmiðla til að birta frétt sem RÚV var með?

Í pallborðinu á Vísi í gær ræddu Aðalsteinn og Þóra ekkert um það sérkennilega vinnulag þriggja fjölmiðla að fá í hús gögn á einum fjölmiðli en senda efni til birtingar á tvo aðra. Engir fjölmiðlar á vesturlöndum vinna fréttir með þessum hætti. Ófrávíkjanleg regla er að fjölmiðill, er fær efni talið hæft til birtingar, segi fréttina sjálfur en flytji hana ekki til annarra fjölmiðla. Burtséð frá byrlun, þjófnaði og afritun er leynimakk RSK-miðla staðfesting á siðlausu vinnulagi.

Aðalsteinn neitaði í gær að hafa fengið upplýsingar úr sima skipstjórans. En hann getur ekki sagt hvar hann fékk upplýsingarnar, ber við vernd heimildarmanna. Einkagögn Páls skipstjóra, s.s. samtöl við samstarfsmenn,  eru hvergi til nema hjá honum sjálfum. Þáverandi eiginkona skipstjórans kunni leyninúmerið til að opna símann. Það þurfti aðeins að afrita. Þegar konan mætti á Efstaleiti var búið að kaupa Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Afritunarsíminn hafði númerið 680 2140. Símanúmer Páls var 680 214X. Blaðamennirnir vissu með fyrirvara að sími skipstjórans væri væntanlegur.

Aðalsteinn fékk upplýsingarnar, og sjálfsagt fréttina meira og minna tilbúna, frá Efstaleiti til að birta í Stundinni undir eigin nafni - og fá verðlaun fyrir. Gögnin komu úr síma skipstjórans, um það er engum blöðum að fletta. Til staðfestingar eru tvö símtöl. Aðalsteinn hringdi í Pál skipstjóra daginn fyrir birtingu fréttarinnar á Stundinni. Þórður Snær á Kjarnanum gerði slíkt hið sama. Ellefu mínútur eru á milli símtalanna. Ef ekki var um einkagögn skipstjórans að ræða hvers vegna hringdu blaðamennirnir báðir í hann? 

Flólki Ásgeirsson lögmaður Blaðamannafélags Íslands var á pallborðinu með sakborningunum í gær. Flóki hefur einnig mætt með Aðalsteini í skýrslutöku hjá lögreglu. Með því að hafa lögmann með sér í pallborðið auglýstu sakborningarnir að þeir treystu sér ekki til að ræða byrlunar- og símamálið á forsendum blaðamennsku. Starfandi blaðamenn tóku málstað sakborninganna fyrst eftir að byrlunar- og símamálið komst á dagskrá. Síðan hefur jafnt og þétt kvarnast undan stuðningi við sakborninga. Starfandi blaðamenn vita hvernig kaupin gerast á eyrinni. Vinnubrögð sakborninga eru einsdæmi og algerlega á skjön við siðareglur, að ekki sé talað um landslög.

Byrlunar- og símamálið var fellt niður af hálfu lögreglu með sakfellandi yfirlýsingu. Skipstjórinn kærir niðurfellinguna til ríkissaksóknara. Burtséð frá niðurstöðu ríkissaksóknara er skipstjórinn með sterkar forsendur til að höfða einkamál á hendur blaðamönnum. Leyniaðgerð RSK-miðla staðfestir að blaðamenn höfðu ásetning að brjóta á friðhelgi skipstjórans. Málsvörnin, að gögnin hefðu átt erindi til almennings, stenst ekki þar sem RÚV vann fréttaefnið en birti ekkert, heldur sendi þýfið á Stundina og Kjarnann til birtingar.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Enn er sá vandinn okkar sem lesum um þetta mál, að hvergi fást staðfestingar af fullyrðingum þínum um ýmis atriði þess.  

Vel má vera að rétt sé að Stefán útvarpsstjóri hafi staðfest að Þóra hafi keypt síma með þessu númeri og svo fáum dögum fyrir byrlun. 

Líklegast hefuðu þær upplýsingar úr gögnum lögreglu (ef réttar eru) en þau gögn verða væntanlega ekki gerð opinber úr því að málið var fellt niður. 

Hvað sem svo verður ef Páll skipstjóri kemur málinu áfram á öðrum vetvangi. 

Það vantaði sárlega í pallborðinu að Þóra væri einfaldlega spurð hvort hún hefði keypt samsung síma með númerið 680 2140 örfáum dögum fyrir veikindi Páls skipstjóra. 

Svör hennar hefðu í öllu falli verið athygliverð.

Ef hún neitaði því blákalt þá væri hún annað hvort saklaus af þáttöku í byrlunarmálum eða að ljúga. Vandinn við lýgina er að hún á það til að koma í ljós. 

Öll önnur svör gerðu hana grunsamlega.  

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 17.10.2024 kl. 10:33

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Hefur komið fram hvort Þóra borgaði sjálf fyrir símann eða hvort hún hafi látið Rúv borga hann? Þarf hún þá ekki leyfi frá yfirmanni sínum (Stefáni útvarpsstjóra) að fjáfesta í síma og ástæðu fyrir þeim kaupum? 

Sigurður I B Guðmundsson, 17.10.2024 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband