Namibíugildra Helga Seljan fimm ára

Í dag eru fimm ár síðan Helgi Seljan á RÚV spennti Namibíugildruna fyrir Samherja. Jóhannes Stefánsson, sem var rekinn frá Samherja árið 2016, var kominn á mála hjá RÚV að segja þá sögu að Samherji hafði mútað namibískum embættis- og stjórnmálamönnum.

Áður en Jóhannes gerði viðskiptasamning við RÚV hafði hann reynt að selja sögu sína öðrum fjölmiðlum, en ekki orðið ágengt. Helgi Seljan og RÚV voru í hefndarhug þar sem norðlenska útgerðin hafði flengt ríkisfjölmiðilinn í seðlabankamálinu - skáldaðar ásakanir um gjaldeyrismisferli.

Þann 15. október 2019 sendir Helgi Seljan tölvupóst á Þorstein Má forstjóra Samherja. Vert er að líta á tölvupóstinn í heild:

Sæll Þorsteinn, Á næstunni ætlum við í Kveik okkur að fjalla um þróunaraðstoð Íslendinga í sjávarútvegi og aukin umsvif íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis. Við viljum þess vegna óska eftir viðtali við við þig um efnið. Viljum vera tímanlega í því þar sem við vitum að þú ert upptekinn. Áttu lausan klukkutíma ca fyrir okkur eftir 25. október? Með kveðju, Helgi Seljan.

Takið eftir falsinu strax í fyrstu setningu. Helgi segist ætla að fjalla um ,,þróunaraðstoð" og ,,umsvif" íslenskra útgerða erlendis. Helgi ætlaði vitanlega ekki að fjalla um neitt slíkt heldur ásakanir Jóhannesar Stefánssonar um mútur í Namibíu. Þetta er sama brellan og Kveikur/RÚV notaði á skátana í síðustu viku og tilfallandi sagði frá. Fá viðtal undir fölskum forsendum. Viðtalið er síðan notað til að undirbyggja ásakanir án gagna. Helgi er hættur á RÚV en siðleysið er enn æðst boðorða á Efstaleiti.

Þorsteinn Már hafnaði boði Helga um viðtal. Svaraði hálftíma eftir tölvupóstinn frá RÚV og sagði: 

Sæll Helgi Þakka þér fyrir tölvupóstinn og erindið. Þín umfjöllun um málefni Samherja í gegn um tíðina hefur ekki verið á þann veg að ég sjái ástæðu til að fara í viðtal til þín. Kveðja Þorsteinn Már

 

Þann 15. október 2019 var verið að leggja lokahönd á sviðsetningu Kveiksþáttar í nóvember þar sem Jóhannes var í aðalhlutverki. Helgu og RÚV vildu fá Þorstein Má í leikritið til að gera það trúverðugra.

Veruleg vinna var lögð í sviðsetninguna. Ingi Freyr Vilhjálmsson, þá blaðamaður á Stundinni, nú á RÚV, var í slagtogi með Helga. Bróðir hans, Finnur Þór Vilhjálmsson, var saksóknari hjá héraðssaksóknara. Áður en Kveiksþátturinn var frumsýndur um miðjan nóvember var búið að undirstinga embætti héraðssaksóknara að hefja sakamálarannsókn í kjölfar þáttarins. Tilgangurinn var sá sami og með beiðni um viðtal við Þorstein Má, að auka trúverðugleikann. Ásakanir Jóhannesar og RÚV fá sjálfkrafa lögmæti með opinberri sakamálarannsókn.

Héraðssaksóknari lét Helga Seljan hafa sig að ginningarfífli, líkt og Seðlabanki Íslands áður - Þorsteinn Már vissi á hinn bóginn hvað klukkan sló. Kannski er hann skáti.

Í fimm ár hefur héraðssaksóknari rannsakað Namibíumálið. Ekki hefur fundist arða af mútugjöfum til namibískra embættismanna. Þá ályktun má draga af ítarlegri rannsókn skattayfirvalda á fjárreiðum Samherja 2012-2018 sem lauk í janúar 2023. Enginn var ákærður. Ef mútugjafir hefðu fundist hefði verið ákært.

Í síðasta mánuði fóru fulltrúar héraðssaksóknara til útlanda og tóku skýrslu af Jóhannesi Stefánssyni sem dvelur fjarri íslenskri lögsögu. Jóhannes kýs útlönd sem dvalarstað á meðan ekki liggur fyrir hvort hann verði ákærður.

Til að koma höggi á Samherja haustið 2019 varð Jóhannes að játa á sig sakir. Í frétt RÚV upp úr Kveiksþættinum er haft eftir Jóhannesi:

Ég braut lög fyrir hönd Samherja þegar ég var þarna. Ég var maðurinn til að ná í kvótana og hafa tengingarnar og svoleiðis og svo er ég bara með ordur frá hærra settum mönnum.

Sá hængur er á ásökunum Jóhannesar er að ekki einn einasti tölvupóstur eða annað ritað orð frá starfstíma hans í Namibíu staðfestir að hann hafi fengið fyrirskipun, ,,ordru", að múta namibískum valdamönnum. Jóhannes spann upp þá sögu fyrir verkkaupa, RÚV. Ef til væri tölvupóstur eða skriflegur texti er styddi orð Jóhannesar hefði fyrir lifandi löngu verið búið að birta upplýsingarnar á RÚV og samstarfsmiðlum, Stundinni og Kjarnanum, sem nú heita Heimildin.

Erlendir blaðamenn hafa staðfest að Jóhannes er einn til frásagnar um meintar mútur. RSK-blaðamenn fengu danskan blaðamann, Lasse Skytt, til að setja saman frétt sem átti að réttlæta Namibíumálið. Fréttin birtist í norsku útgáfunni Aftenposten Innsikt í febrúar 2023. Eftir athugun baðst Tine Skarland ritstjóri Aftenposten Innsikt afsökunar að hafa birt samsuðuna og sagði m.a.

Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingarnar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum.

RÚV keypti þjónustu Jóhannesar að segja fleipur sem féll að fordómum blaðamanna. Fleiprið er ekki stutt neinum gögnum en samt tókst að endurselja það héraðssaksóknara sem hefur nú í fimm ár rannsakað fjöðrina sem varð að fimm hænum.

Namibíumálið hófst haustið 2019 og valdefldi blaðamenn RSK-miðla. Ekki síst voru það þingmenn vinstriflokkanna og áhrifamenn í þeirra röðum sem töluðu upp meintar afhjúpanir í Kveiksþættinum. Hálfu öðru ári síðar, vorið 2021, skipulögðu RSK-liðar og hrintu í framkvæmd byrlunar- og símamálinu. Siðlausir gerast stórtækari er líður á starfsferilinn. Heppnist þeim eitt óhæfuverk verður það næsta hálfu ósvífnara. Nú stefnir einn RSK-blaðamanna á þingmennsku - fyrir Samfylkinguna, auðvitað.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Styttist í réttathöld suðurfrá...

Guðmundur Böðvarsson, 15.10.2024 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband