Skátar afhjúpa spillta blaðamennsku Kveiks/RÚV

Kveikur á RÚV vann að fréttaatlögu að skátahreyfingunni en skátar urðu fyrri til og afhjúpuðu Kveik. Afhjúpun á spilltri blaðamennsku Kveiks-fréttamanna er lærdómsrík fyrir félagasamtök sem verða skotmark ósvífnasta fjölmiðils landsins.

Fréttamenn Kveiks höfðu samband við Bandalag íslenskra skáta fyrir tæpri viku undir því yfirskini að ræða alheimsmót skáta í Suður-Kóreu í fyrrasumar. Mótið misheppnaðist og kom margt til og um það fréttir í ágúst í fyrra. Kveiks-menn óskuðu eftir viðtali á fölskum forsendu, að ræða alheimsmótið fyrir rúmu ári. Skátahöfðingi mætti í viðtalið en þá kom á daginn að helstu spurningar Kveiks-fréttamanns snerust um fjármál. Bandalag skáta sendi frá sér yfirlýsingu áður en Kveikur birti sína frétt:

Það var ljóst þegar viðtalið hófst að ekki átti að ræða ferðina sjálfa heldur eingöngu fjárhagsuppgjör hennar. Það var einnig ljóst af eðli spurninga að kasta ætti rýrð á heilindi skátahöfðingja...

Kveikur fær viðtal á fölskum forsendum. Þannig vinna ekki heiðarlegir blaðamenn. Heiðarlegir blaðamenn gefa upp hvað þeir vilja ræða og hvers vegna. Kveiksmenn stunda það aftur að ljúga sig inn á vammlausa. Fá viðtal með blekkingu, taka svo viðtalið og klippa til þannig að hvítt verður svart. Áður en Kveiks-menn mæta í viðtal eru þeir búnir að ákveða fréttina, niðurstöðuna í málinu. Fréttaatlagan er skipulögð fyrirfram.

Nú mál vel vera að eitthvað sé málum blandið í fjármálum skátanna, tilfallandi hefur engar forsendur til að kveða upp úr um hvort svo sé eða ekki. Af yfirlýsingu skátanna má ráða einhver óánægja sé innan hreyfingarinnar. Í frétt RÚV frá í vor er sagt frá foreldrum sem bera sig illa vegna fjárhagslegs uppgjörs ferðarinnar til Suður-Kóreu.

Það þekkist í mörgum félagsskap, og er alsiða í starfi stjórnmálaflokka, að fjölmiðlar eru notaðir í togstreitu um völd og áhrif. Einhver með aðgengi að blaðamanni selur sína útgáfu af málatilbúnaði og fjölmiðillinn birtir gagnrýnislaust. Eyru fýsir illt að heyra, segir orðskviðan.

Ráðlegging til lesenda er að gjalda varhug við fréttum þar sem óánægjan er nafnlaus. Í frétt RÚV frá í vor er fyrirsögnin ,,Ólga meðal foreldra eftir misheppnað alheimsmót skáta." En það er ekki eitt einasta foreldri sem kemur fram undir nafni í fréttinni. Nafnlausar ásakanir eru ótrúverðugar, iðulega slúður sem gengur manna á milli. Er óánægða foreldrið kannski kverúlant sem á bróðir á RÚV?

Kveikur á RÚV er með alræmt orðspor fyrir siðlausa blaðamennsku. Aðrir fjölmiðlar eru farnir að átta sig á að vinnulagið á Efstaleiti heldur ekki máli. Vísir fjallar um skátana sem afhjúpuðu Kveik á RÚV. Skátarnir sýna fordæmi sem ætti að vera til eftirbreytni félagasamtaka er fá loðið og lúmskt símtal frá Efstaleiti um að mæta í viðtal.

Tilfallandi þekkir lítið sem  ekkert til skátahreyfingarinnar. Rámar þó í að kjörorð þeirra sé Ávallt viðbúinn. Virðast þar standa undir kjörorðinu, skátarnir, þótt það sé fremur hugsað sem vísun í óblíða náttúru en ósvífna blaðamennsku.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Allt virðist gert í öfugri röð hjá VUR

Glæpurinn ákveðinn, sagan spunnin og þá er loks hefja blaðmenn rannskónarvinnu sína í leit að "staðreyndum"

Grímur Kjartansson, 13.10.2024 kl. 08:26

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Bróðursonur minn var bara ánægður með ferðina. Borðaði fullmikinn ís..

Guðmundur Böðvarsson, 15.10.2024 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband