Krísa Sjálfstæðisflokksins fundar á Selfossi

Katrín Jakobsdóttir er banamein ríkisstjórnarinnar. Nánar sagt brotthvarf Katrínar úr forsæti í forsetaframboð í apríl í ár. Ekki var hægt að slíta stjórnarsamstarfinu þótt Katrín stefndi á Bessastaði. Það hefði eyðilagt fyrir Kötu spöku. Kom þó fyrir lítið, samfylkingarfylgið sá til þess að formaður Vinstri grænna hreppti ekki æðsta embættið. Bloggari skrifaði í apríl um eftirmann Katrínar:

Svandís er skæruliðapólitíkus, íslensk útgáfa Úlriku Meinhof. Djúpheimskur orðavaðall helst í hendur við óstjórnlega löngun að sprengja allt í tætlur, þó í óeiginlegri merkingu hjá Svanhof.

Til að reyna á þolrif sjálfstæðismanna gerði Svandís út Guðmund Inga að hringja um nótt í dómsmálaráðherra til að halda áfram innstreymi hælisleitenda. Strategía Vinstri grænna fyrir kosningar liggur fyrir. Þeir keppa við Sósíalistaflokkinn um að ná fimm prósent fylgi og lafa á þingi. Gera Íslandi illt og fá atkvæði út á það, er mottóið.

Sjálfstæðisflokkurinn á ýmsa mótleiki við skæruhernaði Vinstri grænna. Sitjandi ríkisstjórn er í raun starfsstjórn. Það má fá brýn þingmál samþykkt án atbeina Svanhof og félaga. Frá og með áramótum ætti ekki að sýna neina miskunn, kosningar verða hvort eð er í vor. Það tekur ekki að sprengja dautt ríkisstjórnarsamstarf í febrúar. Samspil með stjórnarandstöðu einangrar Vinstri græna á þingi.

Krísa Sjálfstæðisflokksins er ekki Vinstri grænir. Ekkert fylgi seytlar á milli flokkanna. Krísa móðurflokks íslenskra stjórnmála er Miðflokkurinn sem heldur flokksstjórnarfund á Selfossi í dag.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 14 prósent fylgi en Miðflokkurinn 19. Víst eru mælingar eitt og kosningar annað. En skriftin er á veggnum. Án Miðflokks væri Sjálfstæðisflokkur tuttugu prósent eða þar yfir, hægrimenn ættu engan valkost.

Innanflokkspólitík Sjálfstæðisflokks hverfist um baráttu Gulla-armsins að halda sínum manni lifandi sem valkosti við Bjarna Ben. Gulli skoraði Bjarna á hólm fyrir tveim árum og gjörtapaði, 60/40. Eftir það átti vitanlega annað tveggja að gerast, að Gulli axlaði sín skinn sjálfviljugur eða Bjarni sparkaði honum úr pólitík. Hvorugt gerðist. Gulli er líkið í forystulestinni og verður uppvakningur hverfi Bjarni á brott eins og búist er við. Borgfirskur draugur veit ekki á kosningasigur.

Innanmein og óvissa um formennsku eru þó ekki helstu vandræði móðurflokksins. Algjört skilningsleysi á hvert pólitískir vindar blása er höfuðástæða fyrir lítilli tiltrú almennings. Þar er Þórdís Kolbrún í sérflokki. Hún hóf einkastríð gegn Pútín Rússlandsforseta með því að tilkynna lokun íslenska sendiráðsins sem hefndaraðgerð fyrir úkraínska ástvini. Ekkert norrænt ríki lét sér til hugar koma að smána með viðlíka hætti rússneskt þjóðarstolt. Í dag berst Þordís Kolbrún eins og ljón fyrir bókun 35. Hjörtur Guðmundsson, fótgönguliði í flokknum og sérfræðingur í ESB-málefnum, er svo margbúinn að slátra Þórdísarrökum fyrir bókun 35, að ekki einu sinni henglarnir eru eftir.

Miðflokksmenn geta átt náðugan dag á Selfossi og gert vel við sig í mat og drykk. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins útvega Miðflokknum kjósendur með einkaflippi á kostnað almannahags.

 


mbl.is Fundi lokið í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg Snót Jónsdóttir

Satt segirðu. Kata fór illa með flokkinn og ríkisstjórnina, og skildi allt eftir í rjúkandi rúst. Hvað Sjálfstæðisflokkinn snertir, þá treysti ég ekki Þórdísi til þess að leiða hann, og treysti Guðlaugi Þór betur. Ég er ekkert svo viss um, að það mundi afmá flokkinn út af þinginu, þótt Guðlaugur næði vopnum sínum og settist í formannsstólinn. Eins og stendur, finnst mér hann vera skársti kosturinn í þeim málum. Það yrði þá að finna einhvern, sem getur látið flokkinn standa undir nafni - í ljósi þess, sem Arnar Þór sagði á dögunum um flokkinn. Hver það gæti verið er spurning, en Guðlaugur finnst mér skársti kosturinn eins og stendur. Ég segi ekki annað.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir, 12.10.2024 kl. 13:46

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já Pólitískir vindar hafa leikið um Ísland sem aldrei fyrr svo líkja má við stormsveimi,þegar ungir flottir ráðherrar leggja ískalt mat á sendiherra skipti þjóðanna. 

Helga Kristjánsdóttir, 13.10.2024 kl. 01:04

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

þjóðarinnar-leiðr.

Helga Kristjánsdóttir, 13.10.2024 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband