Leynifundir Sigríðar Daggar og sakborninga, fjölmiðlar bregðast

Í fyrradag, þriðjudagskvöld klukkan átta, var fundur eingöngu ætlaður félagsmönnum Blaðamannafélags Íslands. Sakborningarnir sex úr niðurfelldu byrlunar- og símamáli sátu í pallborði sem Sigríður Dögg formaður BÍ stjórnaði. Sérstakur gestur var Flóki Ásgeirsson lögmaður BÍ. Flóki hefur einnig sinnt málsvörn fyrir Aðalstein Kjartansson sakborning og fyrrum varaformann BÍ, mætti m.a. í skýrslustöku hjá lögreglu.

Fundurinn var boðaður fyrir rúmri viku. Yfirskriftin var Pressukvöld um tilhæfulausa rannsókn á blaðamönnum. Fyrir hádegi á þriðjudag í þessari viku, sama dag og fundurinn var haldinn, sendi Sigríður Dögg tölvupóst á félagsmenn og hvatti þá til að mæta á pressukvöldið. Fundurinn var sem sagt stórmál að áliti formanns blaðamanna sem og sakborninga sem ætluðu að sitja í pallborði. En það eru engar fréttir af fundinum. Skilaboð blaðamanna og fjölmiðla eru að almenningi komi ekki við innri málefni stéttarinnar sem stjórnar fréttaflutningi í landinu.

Fjölmiðlar láta eins og fundurinn hafi ekki farið fram. Ekkert er sagt frá fundinum á heimasíðu BÍ, press.is. Engar myndir, enginn texti, engin ályktun. Ekkert.

Hvers vegna þessi hyldjúpa þögn? Almenning varðar byrlunar- og símamálið miklu. Þar er undir hvort blaðamenn hafi heimild til að sækja sér stolið efni sem fæst með byrlun og flytja fréttir á milli fjölmiðla undir þagnarhjúpi. Sími Páls skipstjóra var afritaður á RÚV en fréttirnar birtust í Stundinni og Kjarnanum. Samráð RSK-miðla veitir innsýn í baktjaldamakk fjölmiðla við fréttavinnslu. Baktjaldamakkið og meintar heimildir blaðamanna til lögbrota eru stórfréttir. Viðbrögð þeirra við niðurfellingu lögreglu á sakamálarannsókn er einnig fréttamál. Þóra Arnórsdóttur hefur til dæmis ekki sagt orð á opinberum vettvangi. Hvað sagði Þóra á fundinum í fyrradag? Mætti hún kannski ekki?

Fundurinn í fyrradag er ekki sá fyrsti sem Sigríður Dögg heldur með sakborningum til að ræða stöðu blaðamennsku. Tilfallandi bloggaði í síðustu viku um fund sem hún átti með sexmenningunum og lögmanni félagsins:

Sigríður Dögg tilkynnti fundinn í Silfrinu á RÚV mánudagskvöld [30. sept.]. ,,Við erum öll að fara að hittast á morgun, þessir sexmenningar og lögmaður okkar til að ræða næstu skref," sagði formaðurinn.

Einkafundur Sigríðar Daggar með sakborningum í síðustu viku fékk enga umfjöllun í fjölmiðlum. Pallborðsumræður sakborninga í fyrradag, undir stjórn Sigríðar Daggar, eru heldur ekki fréttaefni fjölmiðla.

Hvað myndu blaðamenn segja um félagsskap, meira og minna á framfæri almennings, sem hegðaði sér svona? Blaðamenn og fjölmiðlar fá hundruð milljóna króna á ári úr ríkissjóði til að segja almenningi fréttir. En þegar kemur að stóru fréttamáli sem varða blaðamenn og fjölmiðla, skyldur þeirra og ábyrgð gagnvart almenningi er hávær þögn.

Síðasta vetur stóð Blaðamannafélag Íslands fyrir herferð um mikilvægi blaðamennsku fyrir lýðræðið. Hvergi í þeirri herferð var sagt að blaðamenn ættu ekki og mættu ekki fjalla um mál er sýndu blaðamennsku og fjölmiðlun í vafasömu ljósi - til dæmis upp á kant við landslög og viðurkennd siðaboð: þú skalt ekki byrla, stela og afrita.

Þagnarmúrinn um málefni sakborningana í niðurfelldu refsimáli er reistur í meðvirku samráði blaðamanna og fjölmiðla. Skýlaus svik blaðamanna og fjölmiðla við almenning hljóta að kalla á umræðu á alþingi þar sem farið er ítarlega yfir ríkisstuðning við fjölmiðla. Skattfé má ekki misnota svona herfilega til að fela þau ógeðfelldu vinnubrögð sem tíðkast í íslenskri blaðamennsku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Eina rétta væri að leggja RÚV niður en til vara að hafa "gömlu gufuna" áfram og gera hana að alíslensku útvarpi. Svo ætlar Stefán að halda áfram sem útvarpsstjóri enda veit hann manna best að fyrrverandi lögreglustjóri sem hylmir yfir starfmönnum sínum sem fara ekki eftir lögum landsins á ekki auðvelt með að finna annað starf. Eða hvað!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 10.10.2024 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband