Byrlun, þjófnaður og afritun: blaðamenn gætu náð sáttum

Byrlunar- og símastuldarmálið liggur fyrir í megindráttum. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, síma hans var stolið og fluttur á RÚV til afritunar þann 4. maí. Eftir afritun var símanum skilað á sjúkrabeð skipstjórans. Þann 21. maí birtist sama fréttin í tveim útgáfum í óskyldum miðlum, Stundinni og Kjarnanum.

Persónur og leikendur í málinu eru þekktir. Byrlari og þjófur er fyrrum eiginkona skipstjórans. Hún glímir við andleg veikindi. Sex blaðamenn, sem fengu stöðu sakborninga, tóku við símanum og véluðu með gögnin sem voru afrituð. 

Undirbúningur var að byrlun, stuldi, afritun og fréttaflutningi. Afritunarsíminn var keyptur fyrir byrlun og þjófnað. Undirmaður Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson, flutti starfstöð sína frá RÚV yfir á Stundina 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun. Fréttirnar tvær, sem birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum 21. maí, eru af sama stofni.

Er fyrir liggur að alvarleg afbrot voru framin með vitund og vilja blaðamanna, að ekki sé sagt beinni aðild, ætti flestum að vera ljóst að við svo búið má ekki standa. Byrlunar- og símastuldarmálið þarf að upplýsa. Fjölmiðlar hafa vonum seinna áttað sig á að fyrir þá sjálfa, og blaðamannastéttina í heild, er mikilvægt að hið sanna um atburðina vorið 2021 komi í ljós. Viðtengd frétt, byggð á viðtali Andrésar Magnússonar við Sigurð G. Guðjónsson lögmann, sýnir vaxandi vilja fjölmiðla til að upplýsa málið. Vísir tekur málið upp.

Sakborningar og samtök þeirra, Blaðamannafélag Íslands, stukku ofan í skotgrafirnar þegar lögreglan tilkynnti niðurfellingu málsins. Vörn þeirra er að halda lokaðan félagsfund í næstu viku til að ráða ráðum sínum. Yfirbragðið er að fámenn klíka hafi málað sig út í horn og leiti huggunar í sameiginlegu skipbroti. Umræða á lokuðum félagsfund mun engu breyta og ekkert upplýsa. Tiltrú almennings á fjölmiðlum og blaðamönnum vex ekki, þvert á móti.

Óupplýst mun byrlunar- og símastuldarmálið eitra samfélag blaðamanna og fjölmiðla um langa hríð. Allir tapa; fjölmiðlar, blaðamenn og almenningur sem nýtir sér þjónustu þeirra. Mesta tapið bera sakborningarnir sjálfir. Nöfn þeirra verða órjúfanlega tengd óupplýstu sakamáli. Játning og sættir myndu aftur opna leiðina inn í siðað samfélag.

Tilfallandi vill benda á sáttaleið sem uppfyllir það skilyrði að málið verði upplýst annars vegar og hins vegar veit á sættir málsaðila. Á mánudag kvaðst tilfallandi þeirrar skoðunar að sættir mættu ekki takast, að málið yrði sem lengst á dagskrá umræðunnar. Tilfallandi hefur endurmetið afstöðu sína og telur farsælast, hvað alla málsaðila áhrærir, að sættir takist. Undir formerkjum sannleikans. 

Formleg staða málsins í dag er að niðurfelling þess stendur þangað til annað er ákveðið. Páll skipstjóri á þann kost að kæra niðurfellinguna til ríkissaksóknara, hefur til þess þrjár vikur. Ef kæra ber ekki árangur getur skipstjórinn höfðað einkamál, fleiri en eitt, á hendur blaðamönnum, RÚV og Heimildinni (áður Stundin/Kjarninn). Rannsóknargögn lögreglu, sem skipstjórinn fær í hendur, munu undirbyggja væntanlega málssókn.

En skipstjórinn gæti líka sleppt því að kæra niðurfellinguna og ekki farið í einkamál.

Tilfallandi talar ekki fyrir hönd skipstjórans en þykist vita að fyrir hann persónulega skipti mestu máli að fá vitneskju um hvernig það atvikaðist að honum var byrlað vorið 2021, síma hans stolið til afritunar og ráðist var á einkalíf hans. Upplýsingarnar eru í höndum fyrrum sakborninga. Blaðamennirnir vita öll málsatvik. Að því leytinu eru þeir í sterkri stöðu á meðan dómsmál hafa ekki risið, hvorki af hálfu ákæruvalds né skipstjóra. Blaðamenn búa að upplýsingum sem eftirspurn er eftir og geta veitt þær af fúsum og frjálsum vilja. Glugginn til sátta lokast um leið og málið fer fyrir dóm, hvort heldur fyrir atbeina ákæruvalds eða brotaþola.

Það væri í þágu blaðmanna sjálfra, sakborninganna sex, stéttarinnar í heild og fjölmiðla almennt að upplýsa málsatvik og sættast. Málsaðilar gætu haldið áfram með líf sitt eftir slíkt uppgjör. Óupplýst mál heldur áfram að eitra, skaðinn verður mestur þeirra sem bera sakir.

Undir lögreglurannsókn stóðu sakborningar saman allir sem einn og fengu stuðning frá Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra. Hópurinn getur sýnt sömu samstöðuna, en nú með reisn og manndómi, og lagt spilin á borðið. Sannleikurinn gerir menn frjálsa - og er forsenda sátta. 

 

 


mbl.is Byrlunarmálinu alls ekki lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Allir sem hafa kynnt sér þetta mál sjá í hvaða fílabeinsturni "blaðamenn" telja sig vera. Þykjast frómari en aðrir menn og hreykja sér hátt.
Blaðmenn hafa áður stolið gögnum, haldið áfram lengi lengi með fréttina þar sem þeir vissu að þegar það kæmi í ljós að handvalin aðstoðarmaður ráðherra ætti sök þá yrði ráðherra að segja af sér.
Fyrir það fengu þeir að sjálfsögðu verðlaun frá hinum "blaðamönnunum"

Grímur Kjartansson, 4.10.2024 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband