Fimmtudagur, 3. október 2024
Miðflokkurinn nálgast Samfylkingu, Stalíngrad Sjálfstæðisflokks
Miðflokkur Sigmundar Davíðs mælist 19 prósent hjá Gallup, Kristrún og Samfylking með 26. Frá síðustu könnun bætir Miðflokkur við sig þrem prósentustigum; Kristrún og félagar standa í stað.
Báðir flokkarnir hagnast á óvinsældum sitjandi ríkisstjórnar. Óvinsældirnar stafa ekki af slæmu árferði til sjávar og sveita (les: efnahagsmálum] eða stórvandræðum í afmörkuðum sviðum - nema ef vera skyldi útlendingamálum. Ekki svo að skilja að allt sé í fínu standi á Fróni en fjarstæða að ástandið sé í kalda koli.
Meginástæða óvinsælda ríkisstjórnarinnar er að hún átti sinn tíma fyrsta kjörtímabilið, 2017-2021, en varð viðskila við samtíma sinn í kringum kófið. Gagnólíkir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir, fundu samnefnara, að forða landinu frá viðvarandi stjórnarkreppu, en hafa hvor í sínu lagi verið í vörn með sín stefnumál. Ef Sjálfstæðisflokki verður ágengt með einhver mál bitnar það á Vinstri grænum og öfugt. Þriðji stjórnarflokkurinn, Framsókn, ríður ekki feitum hesti frá orrahríðinni, mælist með sex prósent.
Langtímaþróun telur einnig. Sjálfstæðisflokkur líður enn fyrir kratisma sem hann tileinkaði sér eftir hrun. Með réttu eða röngu var frjálshyggju kennt um hrunið. Viðbrögð sjálfstæðismanna var að halla sér að alþjóðlegum kratisma, fylgisspekt við Brussel, bæði ESB-skrifstofuna og Nató-deildina. Þróun síðustu ára, einkum frá 2016 (Brexit og Trump) er mótdræg miðhægriflokkum með værðarleg stefnumál forsjárkennd.
Sjálfstæðisflokkur mælist með 14 prósent fylgi. Þrír stærstu flokkarnir eru skv. Gallup með 59 prósent stuðning kjósenda. Er nær dregur kosningum, og haldi núverandi fylgi í grófum dráttum, verður spurt hvort raunhæf sé ríkisstjórn Samfylkingar, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks.
Pólitískt eiginlega ekki. Miðflokkur og Samfylking eru kannski ekki eins og olía og vatn, en stappar nærri. Gagnvart þeim tveim er Sjálfstæðisflokkur kominn í hlutverk Framsóknar í sitjandi ríkisstjórn.
Raunsæir kjósendur, ekki bundnir á flokksklafa, og þeir eru giska stór hópur, munu taka með í reikninginn á kjördag hvaða ríkisstjórnarmynstur sé í kortunum. Þar mun skipta máli hvaða skilaboð flokksformennirnir senda á síðustu dögum kosningabaráttunnar og hvernig pörun þeirra virkar á hug kjósenda.
Að þessu sögðu er langt í kosningar. Gömul sannindi eru að vika er langur tími í pólitík. Enn eru ómannaðir framboðslistar og það er þekkt jarðsprengjusvæði. Litlir flokkar sem verða stórir í könnunum skila ekki alltaf mældu fylgi í hús á kjördag.
Síðasta mæling Gallup sýnir að sókn Samfylkingar er á enda runnin í bili. Mjúka miðvinstrið hennar Kristrúnar hefur kjörþokka sem ræðst meira af þreytu á mussuvinstri VG en sannfæringu að Garðabæjarfrúin sé komin með fulla stjórn á óreiðuliðinu sem löngum ræður ferðinni í Samfylkingu. Velgengni skæruliðablaðamanna sem ganga til liðs við flokkinn í von um uppreist æru byrlaðs mannorðs verður mælikvarði á hvað þykir stofustáss í híbýlum Kristrúnar.
Vandræði Sjálfstæðisflokksins eru sýnu mest af þrem stærstu flokkunum. Veikt þriðja sæti flokksins í þingkosningum yrði katastrófa. Óvíst er hvort Bjarni gefi kost á sér áfram. Missir yrði af honum. Bjarni er góður og gegnheill maður, þótt honum verði á mistök eins og gengur. Flokkurinn sakar þess að hafa ekki menn eins og Brynjar Níelsson og Sigríði Á. Andersen á fremsta bekk. Gefi Bjarni frá sér formennskuna er helst líklegt að Áslaug Arna nái flokksvopnum í tæka tíð fyrir kosningar. Áslaug Arna er voguð er aðrir hika. Sjálfstæðismenn leggja helst ekki á tæpasta vað. Í Stalíngrad-stöðu bjóðast ekki kostir án áhættu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.