Mánudagur, 30. september 2024
Heimildir gegn blaðamönnum vegna byrlunar og símastulds
Þögn og flótti eru viðbrögð fyrrum sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu. Málið var fellt niður um hádegisbil á fimmtudag með tilkynningu lögreglu. Það voru beygðir og brotnir blaðamenn sem meðtóku boðskapinn enda rúnir trausti og tiltrú. Þórður Snær er hættur blaðamennsku, leitar á náðir Samfylkingar, Aðalsteinn sagðist vonsvikinn, Þóra ítrekar ekki kröfu sína um afsökun frá lögreglu, Ingi Freyr er í felum á RÚV og léttadrengurinn Arnar Þór er stúmm.
Hvers vegna stigu blaðamennirnir ekki sigurdans á götum og torgum umræðunnar og tvíefldust í störfum sínum? Tvær ástæður eru nærtækar. Í fyrsta lagi er bláköld staðreynd að síma skipstjórans var stolið í þágu blaðamanna og afritaður af þeim. Í öðru lagi þora blaðamenn ekki fyrir sitt litla líf að útskýra fyrir almenningi hvað þeim gekk eiginlega til með beita fyrir vagn sinn andlega veikri konu og skipuleggja aðgerð sem minnir meira á hryðjuverk en blaðamennsku. Það voru ekki stoltir fullhugar sem fengu niðurfellda sakamálarannsókn heldur menn sem fara með veggjum.
Kjarninn i niðurfellingu er að afbrot voru framin af hálfu blaðamanna en ekki tókst að sanna óyggjandi hvaða blaðamaður framdi hvaða afbrot. Með því að blaðamenn neituðu að gefa lögreglu upplýsingar tóku þeir glæpinn á sig sem hópur - og sitja uppi með það. Félagar í glæpaklíkum hafa oft þennan háttinn á, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Heiðarlegir borgarar sem verða aðilar að sakamáli segja vanalega frá málsatvikum sem best þeir vita. Ekki blaðamenn RSK-miðla. Í yfirlýsingunni segir:
Það er mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola. Þeir sem birtu fréttir upp úr gögnum símans fengu réttarstöðu sakbornings auk þeirra sem sannað er að höfðu verið í samskiptum við þann sakborning [eiginkonuna fyrrverandi] sem afhenti símann til fjölmiðla. (feitletr. pv]
Páll skipstjóri Steingrímsson fær upplýsingar frá lögreglu um hvaða blaðamenn herjuðu á fárveika þáverandi eiginkonu hans. Hann fær upplýsingar um hvenær blaðamenn hringdu, hve oft og hve lengi var talað. Einnig fær hann eftirrit af hljóðritum samtölum og öðrum gögnum, bæði milli blaðamanna og við konuna. Sérlega upplýsandi verður að sjá hvaða blaðamenn voru í sambandi við konuna fyrir byrlun. Engar líkur eru á að texti/afrit sé af þeim samskiptum; gögnum var skipulega eytt, eins segir í yfirlýsingu lögreglu. En það eitt að símtöl voru á milli konunnar og blaðamanns/blaðamanna fyrir byrlun segir töluverða sögu.
Þau samskiptagögn sem eru komin í umferð hjá fyrrum sakborningum og þolanda eru öll frá ágúst 2021 og yngri. Símtalaskrár frá apríl og maí 2021 gefa upplýsingar hvort og í hve miklum mæli blaðamenn voru í samskiptum við byrlara skipstjórans áður en látið var til skarar skríða 3. maí 2021. Vitað er að Þóra Arnórsdóttir á Kveik keypti í apríl Samsung-símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans.
Heimildirnar sem um ræðir eru gögn sem nýtast vel til að fylla eyðurnar í byrlunar- og símastuldsmálinu með persónum og leikendum. Þar sem um er að ræða heimildir úr lögreglurannsókn þýðir ekkert fyrir fyrrum sakborninga að bera á þær brigður. Þeirra eigin stafrænu spor eru vitnisburðurinn.
Skipstjórinn mun meta þessi gögn og hvort þau gefi tilefni til að kæra niðurfellingu málsins til ríkissaksóknara. Einnig getur hann farið í skaðabótamál fyrir þann miska sem hann og fjölskyldan varð fyrir af hálfu blaðamanna. Meiðyrðamál kemur einnig til álita. Blaðamenn tóku stolin einkasamtöl og skrumskældu þannig að hvítt varð svart eins og samanburður á fréttum og samtölum leiðir í ljós. Hér er aðeins talað um blaðamenn. RÚV og Heimildin (áður Stundin og Kjarninn) bera einnig stórar sakir sem tilefni er til að fá mat dómstóla á. Fjölmiðlar sem stunda glæpi meðfram fréttaflutningi eru vart friðhelgir fyrir skaðabótakröfum.
Tilfallandi kæmi ekki á óvart að fyrrum sakborningar, ásamt RÚV og Heimildinni, myndu gera skipstjóranum sáttartilboð. Vonandi þó ekki. Byrlunar- og símastuldsmálið er þess eðlis að full ástæða er að það verði dagskrá næstu þrjú til fjögur árin. Víðtæka lærdóma má draga af málinu, fyrir blaðamennsku og fjölmiðlun annars vegar og hins vegar opinbera umræðu.
Athugasemdir
"Stjórn RÚV fer með æðstavald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri RÚV og að farið sé eftir lögum um Ríkisútvarpið, að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlum í almannaþágu séu uppfyllt". Nú reynir á Stjórnina. Ætlar hún að grípa til sinna ráða og yfirheyra Stefán útvarpsstjórna eða bara gera ekki neitt. Ég hallast að seinni mögulleikanum að gera ekki neitt.
Sigurður I B Guðmundsson, 30.9.2024 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.