Laugardagur, 28. september 2024
Þórður Snær leitar skjóls í Samfylkingu (staðfest)
Fyrrum sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu, Þórður Snær Júlíusson, gekk ekki í raðir Pírata, líkt og tilfallandi sagði í gær, heldur Samfylkingu. Nýniðurfelldur sakborningurinn opinberaði í fréttatilkynningu að hann væri genginn til liðs við Kristrúnu og félaga.
Hvers vegna gengur blaðamaður eins og Þórður Snær í stjórnmálaflokk? Og það daginn eftir að hann fær niðurfellingu á rúmlega tveggja ára stöðu sem sakborningur, grunaður um glæp. Skyldi ætla að hann tvíefldist sem blaðamaður og erjaði sama garð og síðustu áratugi. Hvers vegna, spyr Björn Bjarnason, ,,stjórnmálavæðist" fyrrum sakborningur og ritstjóri?
Hér er ekki öll sagan sögð, ekki frekar en í byrlunar- og símastuldsmálinu. Í tilkynningu Þórðar Snæs, um að hann hefði skráð sig í Samfylkingu, er önnur frétt sem skýrir stjórnmálavæðingu fyrrum sakbornings. Með orðum Þórðar Snæs:
hef ég tilkynnt stjórnendum Morgunvaktarinnar á Rás 1 að ég sé hættur að greina efnahagsmál og samfélag á þeim vettvangi, en það hef ég gert óslitið síðan í byrjun árs 2019. Greiningin á þriðjudag var því sú síðasta. Það passar ekki saman, að mínu viti, að taka þátt í skipulögðu flokksstarfi og sinna því hlutverki.
Þórður Snær hefur haft þann bitling á RÚV að fá greitt verktakalaun fyrir að koma fram vikulega og ræða efnahagsmál. Sem stendur er Þórður Snær atvinnulaus. Er líklegt að hann hafi gefið frá sér RÚV-bitlinginn af frjálsum vilja?
Hafi Þórður Snær um hríð velt fyrir sér stjórnmálaþátttöku, líkt og hann segir i tilkynningu í gær og skráð sig í Samfylkingu, ,,eftir töluverða yfirlegu og fjölmörg samtöl", hvers vegna kvaddi hann ekki hlustendur RÚV síðast liðinn þriðjudag? RÚV-bitlinginn hafði hann haft í fimm ár. Kurteisi hefði verið af hans hálfu að þakka fyrir sig á vettvangi RÚV.
Eina rökrétta skýringin er að hann vissi ekki á þriðjudag að álitsgjöfin í ríkisfjölmiðlinum yrði sú síðasta. Þórður Snær gaf ekki frá sér RÚV-bitlinginn. Bitlingurinn var tekinn af honum. Með tilkynningu um að hann sé orðinn félagi í Samfylkingu býr Þórður Snær til skýringu á uppsögninni.
Samfylkingarmenn hafa ekki beinlínis ruðst fram á opinberan vettvang til að fagna að fyrrum sakborningur sé orðinn félagi í flokknum. Skal engan undra. Með Þórði Snæ fylgir byrlunar- og símastuldsmálið.
Málsvörn Þórðar Snæs í sakamálinu, sem var fellt niður í fyrradag, er efnislega að það er í lagi að blaðamenn taki við stolnum síma manns sem var byrlað. Einnig er til fyrirmyndar að afrita símann á meðan maðurinn liggur meðvitundarlaus á gjörgæslu. Þá er lofsvert að einn fjölmiðill sjái um afritun en sendi gögnin á aðra fjölmiðla til birtingar. Fjölmiðlar mega sem sagt brjóta lög, ljúga og blekkja í blaðamennsku Dodda. Með í málsvarnarpakkanum fylgir að sjálfsagt sé að djöflast á hjónabandi manna og misnota andlega veika.
Ekki er líklegt að margur samfylkingarmaðurinn vilji gera málsvörn Þórðar Snæs að pólitísku stefnumáli.
Trúverðugleiki skilur á milli feigs og ófeigs í blaðamennsku. Þar er fyrrum sakborningur með málsvörn Þórðar Snæs feigur. Honum er nauðugur kostur að stjórnmálavæða sjálfan sig í von um málafylgju við óverjandi málstað.
Tilfallandi hélt í gær að Píratar yrðu fyrir valinu. En fyrrum sakborningur skráði sig í Samfylkinguna. Í leiðinni skráði hann byrlunar- og símastuldsmálið í flokksbækurnar. Glæpaleiti þvær hendur sínar af Þórði Snæ en þá leitar hann eftir hlutverki hjá Samfylkingunni.
Athugasemdir
Svo segir Stefán útvarpsstjóri að hann ætli ekki að tjá sig um byrlunarmálið. Hvernig getur hann tekið þá ákvörðun? Ég hélt að það væri lögreglan sem tæki þá ákvörðun? Er ekki kominn tími til að leggja þetta RÚV apparat niður?
Sigurður I B Guðmundsson, 28.9.2024 kl. 10:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.