Þóra krefst að lögregla biðji sig afsökunar

Þóra Arnórsdóttir var fyrir skemmstu í sinni þriðju skýrslutöku hjá lögreglu vegna rannsóknar á byrlunar- og símastuldsmálinu. Er lögregla kallar sakborning í þriðja sinn til yfirheyrslu er sjaldgæft að sakborningur sæti ekki ákæru.

Þóra, sem var ritstjóri Kveiks á RÚV, birti enga frétt upp úr síma Páls skipstjóra. Þáttur Þóru í byrlun- og símastuldi var annar en að segja fréttir. Eins og kom fram í bloggi gærdagsins var stolinn sími afhentur RÚV síðdegis 4. maí 2021. Á RÚV var vitað að sími skipstjórans væri væntanlegur. Ráðstafanir voru gerðar fyrir byrlun og stuld. Þóra keypti í apríl Samsung-síma sömu gerðar og sími skipstjórans.

Hvernig gat Þóra vitað hvernig símtæki Páll skipstjóri notaði? Nú, vitanlega fékk hún upplýsingar frá eiginkonu skipstjórans, sem játað hefur að byrla, stela og afhenta síma til Þóru. Afritunarsími af réttri gerð varð að vera til taks er sími skipstjórans kæmi í hús. Það varð að vinna hratt.

Skipulagið gekk út á að afrita síma skipstjórans og skila símtæki hans tilbaka án þess að hann yrði þess var. Rænulaus maður í öndunarvél veit hvorki í þennan heim né annan. Á RÚV var síminn kvöldið og nóttina 4. til 5. maí. Um morguninn fékk eiginkonan þáverandi símtækið afhent og fór með það yfir götuna á gjörgæslu Landsspítala. Eins og ráð var fyrir gert.

Hvers vegna birti Þóra enga frétt á RÚV upp úr símanum? Jú, til að enginn grunur félli á ríkisfjölmiðilinn. Efnið var viðkvæmt og snúið úrvinnslu. Um var að ræða persónuleg gögn, samtöl og sms-skeyti til og frá Páli skipstjóra. Flest samskiptin voru við Örnu McClure þáverandi yfirlögfræðing Samherja. Þau tvö töldu að fyrirtækið stæði sig ekki í stykkinu að verjast árásum RSK-miðla í Namibíumálinu. Til að sýna að um trúverðuga heimild væri að ræða varð að birta skjáskot af samtölum í síma skipstjórans. Það kæmi ekki vel út fyrir RÚV að birta skjáskot úr stolnum síma - jafnvel þótt símtæki hefði verið skilað tilbaka. Einhver gæti spurt hvernig upplýsingarnar komust í hendur RÚV. Um jaðarmiðla, Stundina og Kjarnann, gildir annað. Á jaðrinum þrífst subbuskapur.

Mikilvægast var þó annað atriði. Þar sem afritunin fór fram á Efstaleiti varð að búa til fjarlægð milli glæps og frétta. Frá upphafi gekk skipulagið út á að Stundin og Kjarninn flyttu fréttir úr símanum. Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður Þóru á Kveik var fluttur á Stundina 30. apríl 2021, sem systir hans Ingibjörg ritstýrði, þrem dögum fyrir byrlun. Á Kjarnanum var Þórður Snær ritstjóri tilbúinn að taka við stolnum gögnum fengnum með byrlun. Á ferlisskrá Þórðar Snæs eru persónuárásir sem sýna siðferði á lágu plani. Kjarnyrtur vílar ekki fyrir sér að fara í manninn þegar verðlaun eru í boði.

Skipulagið gerði ráð fyrir að fréttirnar birtust samtímis á Stundinni og Kjarnanum. Það gekk eftir, miðlarnir tveir birtu morguninn 21. maí 2021 frétt þar sem ,,skæruliðadeild Samherja" er í báðum fyrirsögnum. Í raun er þetta sama fréttin í tveim útgáfum. Líklegast er að báðar útgáfur hafi verið skrifaðar á Efstaleiti. 

Þóra þóttist koma af fjöllum þegar hún sá fréttir úr síma sem hún hafði afritað. Hún deildi frétt Aðalsteins á Stundinni á Facebook með eftirfarandi athugasemd:

Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En stundum þarf að gera fleira en gott þykir.

Samkvæmt skipulagi var fréttastofa RÚV ræst út til að reka hljóðnema upp í mann og annan, einkum stjórnmálamenn, og spyrja með þjósti hvort ekki væru voðalegar þessar fréttir sem Stundin og Kjarninn sögðu af skæruliðadeild Samherja.

Eins og til var stofnað reis reiðibylgja í samfélaginu. En hvers vegna, hvert var raunverulegt tilefni? Sex dögum eftir að Stundin og Kjarninn birtu Þóru-fréttir tók RÚV saman hvað þessi ægilega skæruliðadeild hafði á samviskunni. Hér er samantektin:

Á meðal þess sem skæruliðadeildin gerði, samkvæmt því sem kemur fram í samtölum þeirra, var að skrifa greinar og birta í fjölmiðlum í nafni skipstjóra hjá Samherja. Reynt var að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var lýst sem „þeirra manni“. 

Upplýsingum var safnað um blaðamenn, reynt að gera þá ótrúverðuga og jafnvel vanhæfa til að fjalla áfram um Samherja og það var meira að segja haft samband við ritstjóra blaðsins Dimmalætting í Færeyjum í þeim yfirlýsta tilgangi að reyna að rægja færeyskt fréttafólk. 

Hallgrímur Helgason rithöfundur blandaðist líka í málið þegar skæruliðadeildin ræddi um að koma á hann höggi vegna Teslu...

Þetta var allt og sumt, samkvæmt RÚV. Páll skipstjóri slúðraði laust og fast við félaga sína um hvað þessi og hinn blaðamaðurinn var ómerkilegur. Líkt og menn, sem þekkja vinnubrögð RSK-miðla, gera í einkasamtölum. Allt eru þetta nauðaómerkileg atriði. Aldrei var skipstjórinn kærður fyrir eitt eða neitt sem hann lét út úr sér í þessum samtölum enda einkamál hans og viðmælenda. Enn síður að lögreglurannsókn hafi verið sett í gang til að rannsaka þann höfuðglæp skipstjórans að fá aðstoð við textagerð.

En til að ná þessum upplýsingum gerðust blaðamenn hjónadjöflar af verstu sort. Andlega veik kona var misnotuð, skipstjóranum byrlað svo hann var nær dauða en lífi og síma hans stolið til afritunar. Óhæfuverk til að fjölmiðlar gætu gert úlfalda úr mýflugu. Eða, öllu heldur, Teslu úr druslu Hallgríms.

Stoltir óhæfublaðamenn fengu verðlaun fyrir reiðibylgjuna sem þeir náðu að láta rísa, að vísu frá félagi með skattsvikara sem formann.

Páll skipstjóri er sakaður um að draga úr trúverðugleika blaðamanna. Hver er trúverðugleiki blaðamanna sem eiga beina eða óbeina aðild að byrlun og stuldi? Blaðamennirnir vita sjálfir að vinnubrögð þeirra eru óhæfa og óverjandi. Þess vegna grjóthalda þeir kjafti, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og í umræðunni. Þórður Snær er orðinn fyrrverandi ritstjóri og Aðalsteinn skrifar varla stafkrók síðustu mánuði. Útgáfan, Heimildin, stofnuð með sameiningu Stundarinnar og Kjarnans, er rúin trausti og lesendum. Óhæfublaðamenn eru einskins nýtir til að segja fréttir sem ætlast er til að almenningur leggi trúnað á.

Af Þóru er það að segja að hún krefst þess að lögreglan biðji sig afsökunar. Í gær náði Mannlíf tali af sakborningnum sem er í útlöndum að jafna sig eftir þriðju yfirheyrsluna. Sennilega náði Mannlíf sambandi við Þóru undir fölsku flaggi, t.d. að ræða virkjunarmál. Hún er vör um sig, veitir aðeins vinveittum blaðamönnum viðtal og alls ekki um sakamálið. Svolítið sérstakt að vera upplýsingafulltrúi ríkisfyrirtækis, Landsvirkjunar, en á flótta undan blaðamönnum. Í Mannlífi er frásögnin svohljóðandi:

 „Veistu það, ég er á Ítalíu,“ var það fyrsta sem Þóra sagði í símtalinu við Mannlíf og hélt svo áfram: „En eins og ég sagði hjá lögreglunni þá er kominn tími til að hún biðjist afsökunar á sínum vinnubrögðum. Það er það eina sem ég hef um þetta að segja,“ sagði Þóra og sleit samtalinu.

Þóra kveikir ekki að til að lögreglan svo mikið sem íhugi að biðjast afsökunar þarf Þóra að segja sína hlið á málinu. Útskýra hver aðkoma hennar er að málinu og í hverju misskilningurinn sé fólginn. En það hefur hún ekki gert, hvorki hjá lögreglu né í umræðunni og sennilega ekki gagnvart vinnuveitendum, RÚV og Landsvirkjun. Er fyrrum sjónvarsfréttamaður og forsetaframbjóðandi þó vel hagvanur í umræðunni og ætti að geta komið fyrir sig orði. En það eina sem kemur úr hennar ranni er frekjuleg krafa: lögreglan á að biðja mig afsökunar. Á hverju? Að rannsaka byrlun og þjófnað í þágu blaðamanna?

Lesi maður yfirheyrsluskýrslur, og það hefur tilfallandi gert, birtist þar harðsvíraður einstaklingur sem í engu svarar um gjörðir sínar vorið 2021 þegar andlega veik kona, í reglulegum samskiptum við Þóru, byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og færði ritstjóra Kveiks til afritunar.

Þóra var ekki í hlutverki blaðamanns vorið 2021. Hún skipulagði og hrinti í framkvæmd ljótustu aðför að hjónabandi, heilsu og orðspori saklausra, sem sést hefur í annálum fjölmiðla á Íslandi. En það er óvíst að frúin á Glæpaleiti sæti ákæru. Nánar um það á morgun. 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ég er örugglega ekki sá eini sem bíð spenntur eftir næsta bloggi. 

Sigurður I B Guðmundsson, 26.9.2024 kl. 11:32

2 Smámynd: Þröstur R.

Þetta mál er svo reyfarakennt enda löngu orðið að efni í þætti en ólíklegt er að þeir yrðu sýndir á RÚV. Greinarhöfundur hefur upplýst lesendur sína um að rannsókn málsins sé á lokametrunum og því styttist í hvort ákæra verði gefin út. Stærsta spurningin nú sé hvaða pólitíska hönd komi að ákvörðunartöku um slíkt og hvort nýleg aðför að vara ríkissaksóknara hafi eitthvað með þetta mál að gera?

Þröstur R., 26.9.2024 kl. 12:15

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Niðurfelling málsins kemur mér ekki á óvart, frétt frá í dag. Hún er enginn sýknudómur heldur því borið við að ekki hafi verið hægt að sanna hver afritaði símann. Niðurfellingin er kannski frekar sönnun um sekt en afsönnun, því mikið er í húfi fyrir Elítuna að slíkt mál sannist ekki á einu landi, Íslandi, þá getur spilaborgin fallið, og þar er fleira í húfi, stríðið gegn Rússum og fleira.

Lögreglan er pólitísk og dómskerfið. Þegar lögreglan er femínísk, þá eru yfirvöldin stærstu glæpasamtökin í landinu. Útkoman eftir því.

Hvers vegna var þá reynt að rannsaka þetta? Jú, enn eru einhver ítök Sjálfstæðisflokksins sumsstaðar í dómskerfi og lögreglunni, það er allt og sumt.

Úrslitum hagrætt bak við tjöldin til að fela önnur stærri mál. 

Gefur ákveðna vísbendingu um að Kamala Harris vinni forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Ekki vegna þess að hún vinni í alvöru, heldur af því að Elítan vill það. Við lifum í stafrænum heimi þar sem engu er að treysta.

Ingólfur Sigurðsson, 26.9.2024 kl. 14:23

4 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Ingólfur Sigurðsson þú hittir naglann á höfuðið.

Biblían kennir okkur að þegar menn hafna sannleikanum, þá sendir Guð þeim megna villu. (2. Þess. 2:11).

Lygina hafa menn sett á stall og kalla hana sannleika og segja okkur að dýrka hana sem rétta trú. Í stað sannleikans, hafa þeir nú velþóknun á ranglætinu.

Þess vegna kalla þeir dóm yfir sig og alla þjóðina, sem við afplánum nú.

En dómurinn felst í þessu: Við höfum verið flutt af veginum sem liggur til Paradísar, en göngum á Heljarslóð. Við lifum í þjóðfélagi þar sem læknar eyðileggja heilsu fólks vísvitandi, þar sem lögfræðingar sniðganga réttlæti, háskólar fara gegn sannleika og þekkingu, þar ríkisstjórn hneppir fólk í fjötra, en leysir þá ekki, þar sem fjölmiðlar flytja falskar fréttir, þar sem trúvilla er boðuð sem rífur niður gott siðferði og þar sem bankar brjóta niður hagkerfið.

Samt er ekki öll von úti. Náðartíminn Guðs stendur ennþá svo hægt er að gera iðrun og þiggja miskunn.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 26.9.2024 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband