Reglur um rætni á RÚV

Um helgina, sjá hér og hér, sagði tilfallandi frá dánarfrétt RÚV um Benedikt heitinn Sveinsson, og viðbrögðum við rætnum athugasemdum í RÚV-fréttinni sem þjónuðu þeim tilgangi að ófrægja og meiða. Heiðar Örn fréttastjóri skrifaði texta sem hann afritaði og límdi inn í nokkra tölvupósta og réttlætti ærumeiðingar. Nú ber svo við að Stefán útvarpsstjóri lætur svo lítið að svara einum tölvupósti vegna málsins. Stefán hyggst setja reglur um leyfða rætni á RÚV. 

Í svari Stefáns er játning, óbein að vísu, að andlátsfregn RÚV sé óverjandi. Stefán biðst þó ekki afsökunar á atlögu fréttastofu að manni er lagði í sína hinstu för.

Lítum fyrst á tölvupóstinn sem var sendur á Stefán um hádegisbil á sunnudag. Þar skrifar maður sem starfaði á RÚV og hefur borið blak af ríkisfjölmiðlinum - þangað til núna. Maðurinn þekkir vel til starfa Benedikts heitins. Hann skrifar:

Eftir þriggja sólarhringa meðgöngu get ég ekki afborið að sitja þegjandi undir fréttaflutningi Ríkisútvarpsins þann 19. september síðastliðinn af andláti Benedikts Sveinssonar, lögfræðings. Sem fyrrum launamaður og þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu fyrir um hálfri öld og af kynnum mínum af því mikilhæfa og faglega fólki, sem ég kynntist þar á bæ á þeim tíma, hef ég borið sterkar taugar til stofnunarinnar og nú í seinni tíð varið hana af fremsta megni, þegar að henni hefur verið vegið. Þar verða nú kaflaskil þó að léttvæg geti talist.

Í morgunfréttatíma Ríkisútvarpsins framangreindan dag var greint frá andláti Benedikts á skýran og hlutlægan hátt [hér er átt við leiðrétta veffrétt, innsk. pv]. Í hádegisfréttum sama dag var á hinn bóginn talin ástæða til þess að bæta um betur og greina því til viðbótar sérstaklega frá því og engu öðru að hinn látni hafi haft óbein áhrif á stjórnmálin með því að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka, sem Alþingi fól syni hans að selja, og að skrifa upp á meðmæli með umsókn dæmds kynferðisafbrotamanns um uppreist æru. Hvernig má það vera að Ríkisútvarpið skuli nú á tímum, þegar menn geta leitað sér æðri menntunar á sviði fréttamennsku, hafa á að skipa þvílíkum starfskrafti, sem hefur þetta eitt fram að færa frá eigin brjósti, þegar greint er frá andláti sómakærs manns á níræðisaldri sem hefur æði margt af mörkum lagt í þjóðarþágu á starfsævi sinni. Ekkert annað hafði Ríkisútvarpið til mála að leggja til viðbótar fyrri fréttafrásögn [sem tekin var úr Morgunblaðinu, innsk. pv]. Hvílík forsmán af hálfu ríkisfyrirtækisins. Og það sem verra er þá verður hún þeim mun meiri, þegar litið er til þess að því skuli bera lögum samkvæmt „að rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.”

Skömm Ríkisútvarpsins er mikil og á henni bera stjórn, útvarpsstjóri og fréttastjóri ótvíræða ábyrgð. Lítilsigldur fréttamaðurinn, höfundur textans, er svo aumkunarverður að ekki er einu sinni hægt að eyða á hann frekari orðum. Framkoma þessi og dómgreindarleysi af hálfu Ríkisútvarpsins er á hinn bóginn með þeim hætti, að manni er gjörsamlega misboðið og verður algerlega fyrirmunað að skilja réttmæti þess að ríkisvaldið skikki skattgreiðendur þessa lands til að halda uppi vinnubrögðum af þessu tagi.

Stefán hafði fengið tölvupósta af sama tilefni allt frá fyrir hádegi á fimmtudag síðast liðinn en látið Heiðar Örn fréttastjóra um að svara. Heiðar Örn varði vinnubrögð fréttastofu, sagði þau réttmæt. Annað hljóð er í strokki Stefáns í hádeginu á sunnudag. Hann viðurkennir að ómakleg og rætin ummæli fréttastofu en ætlar ekki að biðjast afsökunar á þeim. Skoðum svar Stefáns í heild:

Sæll [nafn fellt út] og þakka þér fyrir póstinn og þær athugasemdir og ábendingar sem þar er að finna.

Fréttastofan hefur fengið þónokkrar athugasemdir og kvartanir út af efnistökum og framsetningu umræddrar fréttar. Yfir þær athugasemdir hefur verið farið og texti í veffrétt var lagfærður í kjölfarið. Þá hefur fréttastjóri ákveðið að bregðast við framangreindri gagnrýni með því að setja saman formleg viðmið um ritun og birtingu andlátsfrétta, efnistök þeirra og framsetningu.

Með kveðju,

Stefán Eiríksson

RÚV játar mistök með lagfæringu á fréttinni. Mistökin eru það alvarleg að gefin verða út ,,formleg viðmið" um leyfða rætni í fréttum. Á normal ritstjórnum þarf ekki að stafsetja ofan í fréttmenn að nýlátnum skuli sýnd sú virðing að ata þá ekki auri. En það er ekkert normalt á Efstaleiti. Stjórnandinn þar, Stefán Eiríksson, viðurkennir í einu orðinu alvarleg mistök en neitar að biðjast afsökunar á þeim. Einhver þarf að vekja athygli útvarpsstjóra á að hann stýrir ekki ríkisfjölmiðli með lögheimili í Norður-Kóreu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Í alvöru talað: Á ekki að fara að taka til í þessari ruslakistu sem RÚV er orðin???

Sigurður I B Guðmundsson, 24.9.2024 kl. 17:31

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir með Sigurði.

Í alvöru talað, og áleitnar spurningar krefjast svara.

Er Stefán gervigreind, hvort sem hann er liðinn eða í gíslingu manna sem á nokkurn hátt reyna að verja hið óverjanlega.

Sem aftur vekur upp spurningar um Heiðar, er hann þessa heims, eða ekki meðal vor.

Forsenda þess svars er sú að Heiðar sé yfirgengilega vitlaus, eða þjóni mjög annarlegum hagsmunum.

Ég reyndar hallast að því fyrra, en það mat byggist aðeins á því sem blasir við.

Stefán hins vegar þarf að skera úr um tilvist sína.

Bréfið sem þú vitnar í Páll, bendir aðeins til þess, að hann sé ekki lengur meðal vor.

Nema hann sé fastur í gerviveröld sýndar og rétthugsunar, Matrix okkar sem gætum ekki að að verjast forheimsku og fávisku Góða fólksins.

Þar veit Stefán einn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.9.2024 kl. 18:04

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Reglugerð um leyfða rætni væntanleg. --Dáin menning

Guðjón E. Hreinberg, 25.9.2024 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband