Morgunblaðið skorar á Stefán útvarpsstjóra

Byrlunar- og símastuldsmálið er viðfangsefni leiðara Morgunblaðsins um helgina. Einkum sá þáttur er snýr að RÚV.

Leiðarinn segir að sakborningar í málinu tönnlast á að þeir verji heimildarmann sinn með þögninni, bæði í umræðunni og í skýrslutöku lögreglu. En lögreglan hefur aldrei spurt blaðamenn um heimildarmann. Tilfallandi hefur lesið allar lögregluskýrslur, sem komnar eru til sakborninga og brotaþola, og aldrei spyr lögreglan um heimildarmann.

Hvers vegna?

Jú, lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar 2022, lögð fram í opinberu dómsmáli, sem einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson, höfðaði segir:

Í þessu máli er engin þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína. Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Heimildarmaðurinn er X.

X er fyrrum eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar. Hún hefur játað að hafa byrlað eiginmanni sínum, stolið síma hans og fært blaðamönnum. Eftir afritun símans á Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV, fór konan með símann yfir Bústaðarveg og skilaði á sjúkrabeð eiginmannsins, sem var í lífshættu á gjörgæslu Landsspítalans. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi.

Þegar blaðamennirnir, sakborningarnir, segjast þegja til að koma ekki upp um heimildarmann sinn eru þeir að blekkja. Eins og segir í leiðara Morgunblaðsins:

Blaðamönnum ber að verja heimildarmenn, en vafamál hvort það eigi við þegar lögreglu er kunnugt um hver hann er og rannsakar ekki þann þátt málsins.

Leiðarinn tekur sérstaklega fyrir þátt RÚV í málinu. Engin frumfrétt með vísun í gögn úr síma Páls skipstjóra birtist í RÚV. Stundin og Kjarninn birtu fréttirnar, samtímis morguninn 21. maí 2021. Um þennan hluta málsins segir Morgunblaðið:

Vernd heimildarmanna frétta, sem aldrei voru sagðar, er ekki góð ástæða þess að neita að tjá sig um sakamál. Málið flækist enn ef rétt  reynist að fréttamenn Rúv. hafi  komið gögnunum til annarra miðla. Þá mætti spyrja fyrir hvern þeir hafi í raun verið að vinna, en aðallega þó hvaða heimildarmenn þeir þykist vera að verja með þögninni? Sjálfa sig?

Leiðarinn hittir á auman blett í málsvörn sakborninga. Blaðamenn á RÚV líta á sjálfa sig sem heimildarmenn blaðamanna á Stundinni og Kjarnanum. Með þessum fyrirslætti reyna þeir að komast undan réttvísinni. Lögin um vernd heimildarmann voru ekki sett til að einn blaðamaður geti verið heimildarmaður annars blaðamanns og þannig notið lagaverndar í refsimáli.

Morgunblaðið áréttar að blaðamenn þjóna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Með þessum fyrirvara:

Þeim [blaðamönnum] er samt ekki heimilt að fara út fyrir ramma laganna eða vera naumir á hið sanna. Það þekkja fáir betur en Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, sem sjálfur er fyrrverandi lögreglustjóri. Hvernig sem í málinu liggur er löngu tímabært að Ríkisútvarpið geri hreint fyrir sínum dyrum.

Áskorun Morgunblaðsins til Stefáns útvarpsstjóra að upplýsa vitneskju innanhúss á Efstaleiti um byrlunar- og símastuldsmálið hlýtur að hafa þær afleiðingar að fyrrum lögreglustjóri taki á sig rögg. Yfirmaður ríkisfjölmiðils getur ekki verið þekktur fyrir annað en að bera almannahag fyrir brjósti. 

 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

1. Geta starfsmenn RÚV gert hvað sem er án vitundar Stefáns?

2. Er Stefán að hylma yfir ólöglega aðferð starfsmanna sinna?

3. Ef þetta mál er ekki nóg til að endurskoða stefnu RÚV hvað þarf þá að koma til?

4. Til hvers er t.d. RÁS 2 ef ekki bara fyrir starfsmenn þar?

5. Ef forustugrein  MBL þarf til þess að alherjar rannsókn verði gerð á RÚV undirstrikar það að við búum í "Bananalýðveldi"!!

Sigurður I B Guðmundsson, 23.9.2024 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband