Danir vara við Róbert Spanó og aðgerðalögfræði hans

Lögmaðurinn og fyrrum forseti Mannréttindadómsstóls Evrópu, Róbert Spanó, er til umfjöllunar í danskri umræðu um hvort Danir ættu að segja sig frá lögsögu dómstólsins. Í nýlegri bók og og blaðagrein er vitnað í Spanó sem aðgerðalögfræðing. 

Danir ræða útgöngu frá Mannréttindadómstólum til að endurheimta forræði dómsmála, einkum hvað útlendingamál varðar. Mannréttindadómstóllinn er ekki hluti af stofnanaveldi ESB. Dómstólinn er með 46 aðildarríki sem tilefna dómara. Í dönsku greininni, sem hér er til umfjöllunar, segir að ,,dómstóllinn sé samsuða af hefðum, menningu, pólitík, réttarkerfi, siðvenjum, efnahag og félagsgerð 46 landa en skilar samt einni niðurstöðu í hverju máli." Afgreiðsla dómsins sé einatt ,,skapandi" lögfræði á pólitískum forsendum.

Í samsuðunni er þó rauður þráður og þar kemur Spanó til skjalanna sem fyrrum forseti dómstólsins 2020-2022. Danska greinin vísar í bók sem kom út í Danmörku síðsumars og segir:

Viðhorf Spanó er ,,að Mannréttindadómstóllinn á samkvæmt skilgreiningu að takmarka framgang vilja meirihlutans. Og áfram að dómstóllinn ,,er settur á laggirnar til að valda meirihlutanum gremju. Það er kjarninn í okkar starfi."

Á dönsku: Spanos holdning er, ”at Menneskerettighedsdomstolen per definition skal indføre begrænsninger for flertallets synspunkt.” Og videre, at Domstolen ”er skabt til at skabe frustration hos flertallet. Det er essensen af vores job.

Meirihlutinn sem talað er um í dönsku greininni er þjóðarviljinn í 46 aðildarríkjum dómstólsins. Spanó, samkvæmt dönsku greininni og bókinni sem vísað er í, segist starfa eftir þeirri réttarheimspeki að ómerkja þjóðlegan meirihlutavilja, sem er niðurstaða lýðræðislegra kosninga. Spanó og félagar hafa ekkert umboð frá almenningi, en þeir hafa vald til að hnekkja niðurstöðum lýðræðislegra stjórnarhátta.

Greiningin á Spanó á dönsku fellur eins og flís við rass að framferði hans í íslenskum málefnum. Spanó var aðalhöfundurinn að falli Sigríðar Andersen sem dómsmálaráðherra 2019 og meðhöfundur atlögu Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að Guðrún Hafsteinsdóttur sitjandi dómsmálaráðherra.

Sigríður útskýrði í svari til fjölmiðla plottið að fjarlæga úr embætti Helga Magnús vararíkissaksóknara, sem hafði sjálfstæðar skoðanir, meira í takt við almenning en Sigríður þoldi. Á RÚV er haft eftir Sigríði að ,,sérfræðingar" hefðu átt að úrskurða hvort Helgi Magnús héldi starfinu eða ekki. Og hvaða sérfræðingar sætu í nefndinni? Jú, auðvitað Róbert Spanó og aktívistalögfræðingar af sama sauðahúsi.

Plottið gegn Helga Magnúsi og atlagan að Guðrúnu dómsmálaráðherra er hönnuð atburðarás óreiðufólks með prófgráður. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Páll, fyrir tilstilli þess sem þú nefnir "aðgerðalögfræðinga" er að verða varhugaverður öfugsnúningur í réttarframkvæmd, sem í Englandi hefur verið lýst sem þróun frá "The rule of law" til þess sem kalla mætti "the rule of lawyers". Þessi þróun lýsir sér m.a. í því að löglærðir embættismenn, sem enginn hefur kosið til valda og hafa ekkert lýðræðislegt umboð, yfirtaka stefnumörkun, beita framsæknum lögskýringum, færa vald frá þjóðþingum til yfirþjóðlegra stofnana og grafa undan valdi og virðingu lýðræðislegra stofnana. Nýjasta dæmið er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 sem mun óhjákvæmilega hafa í för með sér framsal löggjafarvalds, í trássi við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Þá munu embættismenn í Brussel hafa aukin völd til að véla um framtíðarhagsmuni Íslendinga, án lýðræðislegs umboðs. Þetta gerist í umhverfi þar sem menn eru tilbúnir að brjóta drengskaparheit sem þeir hafa unnið að stjórnarskránni. Allt er þetta réttlætt með því að menn vilja hlaða undir sinn eigin framgang innan stjórnkerfisins, klífa metorðastigann og kitla hégómagirnd sína. Til er orðin embættismannastétt og sérfræðingastétt á Íslandi sem er baneitruð af því sem á ensku nefnist "careerism", þ.e. að allt verði að víkja fyrir eigin starfsframa. Í slíku umhverfi er samviskan og sannfæringin föl þeim sem býður hæst. Slíkt samfélag er á helvegi. Rifjast þar upp orð Styrmis Gunnarssonar í skýrslu RNA að þetta væri "ógeðslegt samfélag" þar sem menn hafa engin prinsipp og allt er til sölu.

Arnar Þór Jónsson, 17.9.2024 kl. 09:13

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þetta er ekki samsæringkenning hjá þér Páll
heldur bara sannleikur og múslimar njóta núna verndar MDE sem "minnihluta" hópur en það er að breytast hratt og hvað gerist þá

Grímur Kjartansson, 17.9.2024 kl. 10:58

3 Smámynd: Skeggi Skaftason

Páll,

þó svo ein dönsk kona (hver er annars þessi kona?) skrifi grein á einhverri jaðar-fréttaveitu gefur það vart tilefni til að segja að "Danir" séu á þeirri sömu skoðun og þessi kona?!

Það er svona pínu eins og segja að þegar þú skrifar eitthvað á moggablogginu að þá endurspegli það skoðanir Íslendinga. Sem væri voða vitlaust. 

Skeggi Skaftason, 17.9.2024 kl. 15:49

4 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Hver er annars munurinn á jaðar-fréttaveitum, Skeggi, og hinum miðlægu, að þínu mati? 

Baldur Gunnarsson, 17.9.2024 kl. 22:07

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"hafa ekkert umboð frá almenningi, en þeir hafa vald til að hnekkja niðurstöðum lýðræðislegra stjórnarhátta"

Það sama má segja um alla dómara við alla dómstóla. Ekkert nýtt hér.

Nema í Mexíkó þar sem þeir verða framvegis þjóðkjörnir, a.m.k. í bili.

"takmarka framgang vilja meirihlutans"

Það er einmitt tilgangur flestra mannréttinda, að vernda minnihlutann, jafnvel bara einn einstakling, fyrir ofríki meirihlutans.

Eignarréttur væri til dæmis ekki verndaður ef kjörnir fulltrúar mættu ákveða si svona að gera eignir þínar upptækar í krafti "meirihlutaumboðs".

Guðmundur Ásgeirsson, 18.9.2024 kl. 00:01

6 Smámynd: Grímur Kjartansson

Guðmundur Ásgeirsson
MDE hefur óneitanlega fyllt ítrekað í "reglugerðargötin" eins og Baudenbacher orðar það svo vel er hann ræðir um EFTA dómstólinn 

"Maður einn gagnrýndi dóminn við mig og sagði að það væri hans álit að EFTA dómstólnum hefði borið að fylla í götin. Ég spurði hvort hann væri galinn! Enginn dómari myndi taka að sér að fylla upp í "reglugerðargöt""

Grímur Kjartansson, 18.9.2024 kl. 06:57

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Grímur Kjartansson.

Íslenskir dómstólar hafa líka oft á tíðum "fyllt upp í götin".

Það eru meira að segja til dæmi um að þeir hafi "keyrt vörubíl" í gegnum sett lög til að búa til göt svo þeir gætu fyllt upp í þau með sínum eigin skáldskap. Sjá t.d. Hæstaréttardóma nr. 471/2010, 349/2014 og 533/2014.

Einnig eru til dæmi um að íslenskir dómstólar hafi fari með hrein ósannindi í forsendum sínum. Sjá td. úrskurð Landsréttar nr. 505/2018, 12. mgr.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.9.2024 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband