Sigríður er hlutdræg í máli Helga Magnúsar

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir sér til málsbóta í Helga máli Magnússonar vararíkissaksóknara að hún starfi eftir ,,einkunnarorðum ákæruvaldsins um óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi."

Nei, í máli Helga Magnúsar er Sigríður hlutdræg og er staðin að óheilindum. Enn síður er hún sjálfstæð heldur fangi orðræðu sem í eðli sínu er pólitískur aktívismi. Lítum nánar á málsatvik.

Helga mál Magnúsar byrjar með kæru Semu Erlu sem rekur einkafélagið Sólaris. Sjálf er Sema Erla til rannsóknar vegna mútugjafa. Kjarni kæru Semu Erlu Sólaris til ríkissaksóknara er eftirfarandi:

Sam­tök­in [Sólaris] telja að um­mæl­in feli meðal ann­ars í sér róg­b­urð og smán­un vegna þjóðern­is­upp­runa eða þjóðlegs upp­runa, litar­hátt­ar, kynþátt­ar eða trú­ar­bragða sem og ærumeiðing­ar sam­kvæmt al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um.

Sema Erla er aðgerðasinni, ekki hlutlaus eða óhlutdrægur aðili. Hún er til rannsóknar vegna mútugjafa á erlendri grund. Múturnar voru greiddar embættismönnum í Egyptalandi til að veita frjálsa för Palestínuaraba sem Sema Erla og Sólaris fluttu til Íslands án þess að hafa til þess nokkra heimild. Múhameð Kourani, ofbeldismaður sem Helgi Magnús gagnrýndi að héldi landvist eftir afbrotasögu, er skjólstæðingur Semu Erlu.

Hvað gerir Sigríður ríkissaksóknari? Jú, hún tekur kæru Semu Erlu góða og gilda og sendir ósk til dómsmálaráðherra um að Helgi Magnús verði leystur frá störfum. Engin rannsókn, enginn rökstuðningur. Túlkun aðgerðasinna á orðum Helga Magnúsar er tekin góð og gild. Fáheyrð er handvömm æðsta handhafa ákæruvaldsins.

Ekki þarf djúpa lögskyggni til að átta sig á hvers vegna Sigríður leggur ekki fram neinar lögskýringar í málinu. Ekki heldur tefla opinberir málsverjendur Sigríðar fram lagarökum um meint afbrot Helga Magnúsar, t.d. Róbert Spanó. Sigríður, Spanó og líkt þenkjandi láta sér nægja að hneykslast að hætti aktívistatepru. Móðgunarréttlæti er af sama stofni og múgsefjun.

Kæra Semu Erlu vísar ekki í tiltekna lagagrein. Orðalagið, sjá hér að ofan, er þó bein vísun í afar umdeilda lagagrein sem ýmsir sérviskuhópar og lífsskoðunarfélög, t.d. Samtökin 78, vilja breyta til að auðveldara sé að svipta menn æru og atvinnu sem gagnrýna pólitískan rétttrúnað, öðru nafni vók.

Umrædd lagagrein er nr. 233 a. í almennum hegningarlögum: 

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Sigríður ríkissaksóknari hefur gert tilraunir með þessa lagagrein, sem stundum er kennd við hatursorðræðu, en yfirleitt farið bónleið til búðar í réttarsal. Hér er um að ræða lagalegt jarðsprengjusvæði. Lagagreinin er hlaðin huglægum viðmiðum. Hæðni, rógur og smánun eins er réttmæt gagnrýni annars. Andspænis lagagreininni stendur skýlaus réttur borgaranna, varinn í stjórnarskrá, að tjá hug sinn um menn og málefni.

Lagagreinin er skilgetið afkvæmi gamalla laga um guðlast, sem felld voru úr gildi 2015 eftir að hafa verið marklaus í áravís. Pólitíski rétttrúnaðurinn, sem byggir í besta falli á sérvisku en oftast fávisku, reynir að fá lagavernd líkt og steingeld trúarbrögð. Málefni sem ekki þola gagnrýna umræðu eru einatt ruslahrúga hindurvitna, andlegur afturúrkreistingur.

Allt þetta veit Sigríður ríkissaksóknari enda á fagsviði hennar, gott ef ekki persónulegt áhugamál. Þess vegna rökstuddi hún ekki ósk sína til ráðherra um að víkja Helga Magnúsi úr embætti. Í staðinn gerði Sigríður orð Semu Erlu að sínum. Sema Erla er sjálfskipaður réttlætisriddari með fullan munn af staðleysu. Áfall er fyrir almenning í landinu að ákæruvaldið sé í höndum einstaklings sem kann ekki skil á froðu og haldbærum rökum, kastar sér dómgreindarlaust út í nornapott aktívista.

Ríkissaksóknari stendur ekki undir einkunnarorðum embættisins um óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Stjórnmálamaður í Svíþjóð endurbirti 2 skopteikningar önnur sýnir múslimi vera kveikja í húsnæði sem evrópa hefur útvegað þeim
hin sýnir Jihadstríðsmann henda fólki úr bát sem bjargaði honum úr hafsnauð
Önnur myndin er "í lagi" hin myndin gæti verið hatursfull - samkvæmt sérfræðingi

Yttrandefrihetsexperten: Inte en självklar fällning | SVT Nyheter

Grímur Kjartansson, 14.9.2024 kl. 09:59

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sniildarpistill Páll og svo sannur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 14.9.2024 kl. 10:42

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Þessi færsla þín er þungavigt frá upphafi til enda, ef það er ljós í enda gangna forheimskunnar, ef við komumst út úr þessu miðaldamyrkri Rétthugsunarinnar þá mun þessi færsla þín vera kennd við háskóla framtíðar sem dæmi um skarpa hugsun gegn bábiljum og ofstæki.

Aðeins eitt sem má minnast á í viðbót, kæra Einars lögmanns á hendur hinum meintu hjálparsamtökum Solaris, fjallaði ekki bara um mútugreiðslurnar, ekki meintar því það þarf ekki að rífast um að þetta eru mútur til landamæravarða, heldur líka um að rannsaka skyldi hvort hluti af söfnunarfé Solaris hefði runnið til aktívistanna í Hamas, þessara þarna sem myrða börn á viðbjóðslegan hátt til að egna andstæðinginn til árása á sitt eigið fólk.

Ef rétt er þá er það miklu alvarlegra en það að múta landamæravörðum til að bjarga fólki úr dauðagildru.

Svo megum við heldur ekki gleyma þeirri miklu tilviljun að kæra Solaris kom í kjölfar þess að Embætti Ríkissaksóknara sendi fáheyrða afgreiðslu lögreglunnar að vísa kæru Einars frá án lagalegs rökstuðnings, aftur til baka með þeim tilmælum að kæran skyldi rannsökuð og afgreidd samkvæmt lögum og reglum sem gilda í landinu, en ekki heimi Rétthugsunarinnar.

Og þá gerðist sjálfur Ríkissaksóknari hlaupatík hinna meintu hjálparsamtaka.

Það er hin raunverulega aðför að lögum og reglum þessa lands. Opinber yfirlýsing æðsta embættismanns réttarkerfisins um að lög og reglur Rétttrúnaðarins séu æðri en lög og reglur landsins.

Og allir þegja nema þú Páll.

Þar áttu miklar þakkir skyldar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.9.2024 kl. 10:47

4 Smámynd: Riddarinn

Svo rökrétt skrifað og í tíma talað. Sema er hryðjuverka kona nútímans sem brýtur staðfast niður þjóðfélagið og skeytir engu um afleiðingar eða tjónið fyrir almenning eða innviði Íslensks þjóðfélags. Semu ætti með rèttu að senda úr landi fyrir landráð og skemmdarverk á þjóðfélaginu heilt yfir.

Riddarinn , 15.9.2024 kl. 07:45

5 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Annaðhvort stendur lagagrein nr. 233 a. í heild, eða hún stendur ekki. Hún stendur því ekki. Enginn sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar kristnum mönnum á Íslandi vegna trúar þeirra, mun nokkurntíma sæta sektum fyrir vikið, því síður fangelsi.  

Baldur Gunnarsson, 15.9.2024 kl. 08:16

6 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Annars er þetta móðgunarréttlæti ákveðin tegund yfirlætis hinna siðprúðu í garð útvaldra sem þeir aumka sig yfir. Enda stendur það sannlega ekki til boða öðrum sem fyrir rangindum verða.  

Baldur Gunnarsson, 15.9.2024 kl. 08:28

7 Smámynd: booboo

 Ef að Sigríður hefði sjálf verið ofsótt, hótað lífláti, börn hennar hótað af þessum ofbeldimanni, hvernig hefði embættið brugðist við? Ég held að það sé alveg ljóst að brugðist hefði verið við af miklu harðfylgi. En af því að Helgi er karlmaður og ekki Woke, þá þarf að hann sjálfur að bera hönd fyrir höfuð sér.

booboo , 15.9.2024 kl. 10:29

8 Smámynd: Ólafur Ágúst Hraundal

Ég ætla ekki að fara ráðst á frú Sigríði en ég held að hún ætti að líta aðeins inn á við og setja sig í spor Helga, hvernig síðustu ár eru búin að vera hjá honum. Það hefur ekki vottað af samkennt hjá henni. Hún er eins grá og frekast getur. Ég upplifi heft hjá henni til Helga. Sem fær mig til að hugsa hvort það sitji í henni áreksturinn sem kom upp á milli þeirra árið 2022. Að Helgi sé ekki þessi já maður, sem hún nær að vefja um fingur sér. Er búið að eyrnarmerkja jobið öðrum?

 

Þarf frú Sigríður ekki að endur skoða stöðu sína fyrir það eitt að standa ekki með sínum starfsmanni. Ef dæminu er snúið við, hefðu þá þessi orð mátt standa án athugsamda af því hún er kona? Í okkar siðmenntaða og lýðræðislega samfélagi er ég farin að upplifa að það má hvorki sýna samkennd né segja óþægilegur hlutina án þess að verða úthrópaður. 


Missa opinberir starfsmenn rétt til málfrelsis?

Ég tek ofan fyrir Guðrúnu að hafa staðið með einstaklingum og málfrelsinu. 

Ólafur Ágúst Hraundal, 16.9.2024 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband