Fimmtudagur, 12. september 2024
Ósigur í Kúrsk
Rússar eru við að umkringja úkraínska herflokka í vesturhluta Kúrsk. Í austurhluta héraðsins er Úkraínuher á undanhaldi. Stríðsbloggarinn Military Summary greinir frá. Vestrænir meginstraumsmiðlar staðfesta.
Rúmlega mánuður er síðan Úkraínuher gerði óvænta innrás yfir landamærin og náðin fótfestu í Kúrsk-héraði. Um 15 þúsund manna herlið sótti hratt fram í fyrstu en þraut örendið eftir nokkra daga. Rússar voru ekki með mannskap til að hrekja tilbaka innrásarliðið. Fyrr en núna.
Litið var á Kúrsk-aðgerðina sem útspil Selenskí forseta til að ná frumkvæðinu, bæði á vígvellinum en ekki síður í fjölmiðlaumræðunni. Árangur í Kúrsk drægi athyglina frá velgengni Rússa í Donbass í austurhluta Úkraínu.
Álitsgjafi á þýska meginstraumsmiðlinum ARD segir að fari illa í Kúrsk og framsókn Rússa í Donbass haldi áfram stefni í uppgjöf Úkraínu. Ekki umræða sem er Selenskí forseta þóknanleg; hann vill ræða siguráætlun Úkraínu. Sem er í stuttu máli að úkraínskir hermenn fjármagnaðir og vopnaðir af Bandaríkjunum efni til sóknar næsta vor. Austurrískur ofursti, vel hlynntur málstað Úkraínu, segir atburðarásina ekki lengur í höndum Selenskí og Kænugarðsstjórnar.
Vestræn pólitík er ekki hagfelld Úkraínu um þessar mundir. Í Þýskalandi unnu nýverið stórsigur í héraðskosningum flokkar yst til vinstri og hægri sem báðir eru sammála um að ljúka Úkraínustríðinu á rússneskum forsendum. Í Bandaríkjunum veigra menn sér við stórar ákvarðanir í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember.
Í viðtengdri frétt segir að Selenskí velti fyrir að bjóða Rússum á friðarráðstefnu næstu mánuði. Rússum var ekki boðið á slíka ráðstefnu júní í Sviss. Það hljómar vel að efna til friðarstefnu. En þegar gagnaðila er ekki boðin aðild er augljóst að uppákoman er sýndarveruleiki án innihalds.
Rússar segjast bíða eftir friðartillögum frá Bandaríkjunum. Þær koma ekki fyrr en í eftir forsetakosningarnar og kannski ekki fyrr en eftir embættistöku nýs forseta í janúar.
Von Selenski er að halda sjó til áramóta, þreyja síðan þorra og góu og blása til vorsóknar með meiri vestrænum stuðningi en hingað til. Veik er sú von.
Sigur Úkraínu veltur á Bandaríkjamönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.