Föstudagur, 30. ágúst 2024
Hægrikrókur Kristrúnar á Sjálfstæðisflokkinn
Á samfélagsmiðlinum Instagram, og e.t.v. víðar, má sjá ræmu af Kristrúnu Samfylkingarformanni innan um þjóðfánann og lögreglumenn að störfum. Styrkjum löggæslu og ákæruvald er yfirskrift ræmunnar. Fyrrum var málaflokkurinn réttarríkið skuldlaus eign Sjálfstæðisflokksins. Það hefði ekki tekið sex vikur að úrskurða um kýrskýrt málefni, eins og beiðni vinstrisinnaðs ríkissaksóknara um að fjarlægja vararíkissaksóknara sem ekki spilar vók.
Þrír hægriflokkar eru stærstir samkvæmt yngstu könnun. Samfylking er 25% flokkur, Miðflokkur 15% og Sjálfstæðisflokkur 14%. Samtals 54 prósent. Sé Framsókn með sín 9% bætt við er hægrifylkingin komin upp í 63%.
Nú má auðvitað deila um hvort Samfylkingin sé hægriflokkur. Sögulega er fylkingin popúlískur vinstriflokkur, stofnaður síðustu aldamót til að verða ,,hinn turninn" í íslenskum stjórnmálum. Kristrún er aftur hægrimiðuð og hefur bakgrunn sem hæfir.
Eftir síðustu skoðanakönnun rjúka sumir sjálfstæðismenn upp til handa og fóta, barma sér og kenna Bjarna formanni um prósenturnar fjórtán. Þröngt flokkssjónarhorn er eitt, annað er raunsætt mat pólitískum aðstæðum.
Bjarni setti þjóðarhagsmuni ofar flokkshagsmunum og persónulegum metnaði er hann myndaði Katrínarstjórnina 2017. Þjóðin þurfti pólitískan stöðugleika eftir stjórnarkreppu sem skildi tvær fyrri ríkisstjórnir eftir í valnum án þess að ljúka kjörtímabili. Bjarni skaffaði.
Á meðan Bjarni gaf þjóðarskútunni kjölfestu til að sigla milli skers og báru kvarnaðist fylgið af móðurflokknum. En hvert fór það? Ekki til vinstri, svo mikið er víst. Miðflokkur Sigmundar Davíðs er næst stærsti flokkurinn í mælingum, á eftir Samfylkingu. Þrír hægriflokkar á verðlaunapalli útiloka vinstristjórn eftir næstu þingkosningar. Spurningin er hvernig hægristjórn, ekki hvort.
Athugasemdir
Nei, Samfylkingin er ekki hægri flokkur. Samfylkingin er vinstrisinnuð stjórnmálahreyfing á Íslandi og hefur yfirleitt verið flokkuð sem sósíaldemókratískur flokkur. Flokkurinn leggur áherslu á velferðarkerfi, jöfnuð, og réttlæti, ásamt því að vera almennt hlynntur auknum ríkisafskiptum í efnahagsmálum. Þetta staðsetur Samfylkinguna vinstra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum. Ríkisafskipti = vinstri....
Hægri flokkar, á hinn bóginn, leggja oftar áherslu á markaðsfrelsi, minni ríkisafskipti, og persónulegt frelsi í efnahagsmálum. Flokkar á hægri vængnum á Íslandi eru til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn.
Það er aftur á móti rétt mat að borgaraflokkarnir eru með 45% fylgi, ef við förum eftir greiningu Geirs Ágústssonar, ef við lítum svo á að Flokkur fólksins, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu hægri sinnaðir flokkar. Viðreisn er ráðgáta. Virðist vera hreinn vinstri flokkur ef maður lítur á félagsskapinn sem hún kýs í t.d. borgarstjórn Reykjavíkur.
Birgir Loftsson, 30.8.2024 kl. 11:41
Segjum að dómsmálaráðherra styðji saksóknara og búi síðan til sérstaka undanþágu fyrir hælisleitanda
Þá mun fylgið ekki rísa úr 14%
Grímur Kjartansson, 30.8.2024 kl. 12:49
Samfylkingin eru fasistar. Í orðabókar-skilningi þessa orðs.
Ásgrímur Hartmannsson, 30.8.2024 kl. 19:39
Góð greining Páll, en það er viss efi um hvort Kristrún sé sá sterki leiðtogi sem fólk er látið halda, ennþá hefur hún fá skref stigið út úr ímyndunarsköpun almannatengla sem róa stíft á sýnd samfélagsmiðla.
Hún gæti átt síðasta orðið en það er ekkert sem bendir til þess í dag, ef svo væri þá væri búið að knýja skuggaleiðtogann í þingflokknum til afsagnar.
Grímur er hins vegar með kjarna málsins, kjarna sem skýrir fallið úr tæpum 20% í tæp 15%, munum að Maskína nemur fyrr fylgisbreytingar en Gallup.
Guðrún situr á fjöreggi flokksins, spurningunni um hvort hann sé ennþá borgarlegur íhaldsflokkur, eða enn ein froðan úr ranni rétthugsunar Góða fólksins.
Og hver dagur sem Guðrún heykist á að víkja Sigríði Friðjónsdóttur úr embætti, er dagur sem skefur prómill af fylgi flokksins.
Það er ekki pláss fyrir tvær Samfylkingar á Íslandi í dag.
Og það er forystukreppa þegar Bjarni heggur ekki á hnútinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.8.2024 kl. 19:59
Kona kveður sér hljóðs,kennir Bjarna um allt sem ei stóðst.
Helga Kristjánsdóttir, 30.8.2024 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.